top of page
Search

Fyrsti leikur í deild - Crystal Palace koma í heimsókn!Keppni: Enska Úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Laugardagur 14. ágúst kl 14:00

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir Jóhann M. HelgasonEftir nokkuð dramatískan sigur gegn Villarreal um Super Cup bikarinn hefst núna mótið fyrir fulla alvöru. Chelsea taka á móti Crystal Palace fyrir framan áhorfendur á Stamford Bridge.


Leikurinn gegn Villarreal var nokkuð kaflaskiptur þar sem fyrri hálfleikurinn var nokkuð vel leikinn en sá síðari mjög slakur. Jafntefli, framlenging og vító eflaust sanngjörn úrslit. En Kepa tryggði okkur þennan bikar með flottri frammistöðu í vítaspyrnukeppninni eftir að Tuchel hafði sett hann inná á 119. mínútu leiksins. Við í Blákastinu fórum vel yfir þennan leik á miðvikudagskvöld og hvet ég alla til að hlusta á þáttinn í hlaðvarpsveitum eða spilaranum hér neðst í færslunni.


Það versta við leikinn gegn Villarreal voru meiðsli Hakim Ziyech, hann var búinn að vera okkar (lang)besti leikmaður á undirbúningstímabilinu og var mjög sprækur í leiknum gegn Villarreal. Hann fór úr axlarlið og gæti verið lengi frá, við vonum það besta. Nýjasti liðsmaður okkar Chelsea manna, Romelu Lukaku, þarf að sæta sóttkví og verður því ekki með gegn Palace. Grein um Lukaku birtist á CFC.is og hvet ég alla til að lesa greinina með því að smella hér.


Fyrir utan þessa tvo leikmenn virðist virðist Tuchel hafa hreint borð fyrir framan sig að undanskildum N'Golo Kante sem Tuchel sagði tæpan á blaðamannafundi fyrir leik. Leikmenn eru þó mislangt komnir í undirbúningi sínum, Ben Chilwell, Reece James og Thiago Silva komu ekkert við sögu gegn Villarreal, á meðan Christensen, Azpilicueta, Jorginho og Mount fengu góðar mínútur.


Mendy verður alltaf á milli stanganna, þrátt fyrir hetjulega framgögnu Kepa í vítakeppninni. Ég veðja á að Rudiger, Azpilicueta og Christensen verði í miðvarðastöðunum þremur. Chalobah og Zouma stóðu sig vel Villarreal en ég held að Tuchel láti AC4 og Azpi fá mínútur núna. Chilwell hefur lítið sem ekkert spilað, en Alonso spilaði allar 120 mínúturnar í síðasta leik og var orðinn ansi þreyttur í lokinn. Ætla spá því að "Chilly-B" komi inn í liðið. Hudson-Odoi heldur líklega áfram í hægri vængbakverði. Mögulega gæti Tuchel þó sett Reece James í liðið og haft CHO vinstra megin. Kovacic var flottur í síðasta leik og spilaði allan tímann, ég held að hann og Jorginho verði á miðjunni ef Kante er tæpur.


Í fjarveru bæði Lukaku og Ziyech mun Tuchel líklega notast við Havertz, Werner og Mount. Christan Pulisic hefur átti góða leiki gegn Palace í fortíðinni en hann átti frekar dapra innkomu gegn Villarreal. Mount er leikmaður sem Tuchel vill koma af stað sem fyrst og því held ég að hann fái kallið gegn Palace og spili 60-70 mín. Það hefur verið orðrómur um að Kai Havertz verði hvíldur eftir að hafa spilað mikið gegn Villarreal, ef svo er þá verður Pulisic í byrjunarliðinu. Það verður hins vegar að segjast að á þessum fjórum árum mínum að blogga um Chelsea hef ég sjaldan átt jafn erfitt með að lesa í byrjunarliðið enda mörg spurningamerki. Tuchel var að minnsta kosti þögull sem gröfin og gaf lítið upp á blaðamannafundinum í dag.Crystal Palace

Ernirnir, eins og Palace eru jafna kallaðir, mæta til leiks með splunkunýjan þjálfara sem jafnframt er einn besti miðjumaður í sögu ensku Úrvalsdeildarinnar - Patrick Vieira. Þjálfaraferill Vieira hefur verið áhugaverður. Hann var tvö ár hjá New York City í MLS deildinni og svo önnur tvö ár hjá Nice í Frakklandi. Hann mætir nú til Crystal Palace og tekur við af sjálfum Roy Hodgson.


Palace hafa aðallega verið í því að losa sig við leikmenn í sumar enda var hálft liðið þeirra samningslaust. Vieira hefur engu að síður keypt tvo öfluga miðverði, Marc Guehi frá Chelsea og svo Joachim Andersen frá Lyon (var á láni hjá Fulham í fyrra) og svo vængmanninum Michael Olise frá Reading. Palace fékk svo okkar efnilega Conor Gallagher á láni en hann er ólöglegur í fyrsta leik. Palace hafa aftur á móti misst leikmenn á borð við Sakho, van Aanholt, Cahill og Andors Townsend.


Þeirra LANG hættulegasti maður er ennþá Wilfried Zaha sem okkar menn verða að hafa góðar gætur á.


Spá

Ég spáði 2-0 sigru í Blákastinu og ætla bara að halda mig við þá spá. Timo Werner og Mason Mount skora mörkin í sitt hvorum hálfleiknum.


KTBFFH

- Jóhann MárComments


bottom of page