Super Franky Lampard var í síðustu viku ráðinn knattspyrnustjóri Chelsea og var þannig verst geymda leyndarmálið í knattspyrnuheiminum afhjúpað. Lampard þekkja allir, hann er að mínu viti besti leikmaður í sögu Chelsea og má segja að hann sé að leggja arfleið sína að veði með því að gerast stjóri Chelsea svona skömmu eftir að hann fari út í þjálfun. Í þessum pistli ælta ég að reyna geta mér til um hvernig Lampard mun láta Chelsea spila, hver verður leikaðferðin, hverjir verða lykilmenn og hvaða leikmenn geta sprungið út.
Lampard hjá Derby
Það er nokkuð snúið að ætla að greina Lampard sem þjálfara þar sem hann hefur aðeins eitt tímabil undir beltinu. Hjá Derby tók Lampard við liði sem var orðið ansi gamalt og var með háan launakostnað eftir leikmannakaup sem sum hver höfðu ekki skilað tilsettum árangri. Lampard fékk það hlutverk að yngja upp í hópnum og var væntingum að mörgu leiti stillt í hóf þar sem hann hafði ekki mikla peninga til að spila með á leikmannamarkaðnum (þetta er ekki beint ólíkt þeirri sviðsmynd sem Chelsea er að kljást við núna sbr. félagaskiptabann og að ungir leikmenn séu að koma inn í liðið - nánar um það síðar).
Lampard var hins vegar klókur í að nýta sér lánsmarkaðinn og fékk þrjá unga og efnilega leikmenn til liðsins sem allir enduðu með að vera lykilmenn, þetta voru Fikayo Tomori og Mason Mount frá Chelsea og svo Harry Wilson frá Liverpool. Tomori endaði með að vera kjörinn leikmaður ársins hjá félaginu.
Lampard spilaði yfirleitt leikkerfin 4-3-3 eða 4-2-3-1 og reyndi eftir fremsta megni að láta fjóra til fimm fremstu mennina pressa vel andstæðinginn ef spilað var stutt úr vörninni og lét vörn Derby spila hátt uppi á vellinum. Ef lið voru að "dóminera" boltann gegn Derby fannst honum ekkert mál að láta vörnina falla niður í djúpa línu eins og sást í einvíginu gegn Leeds í úrslitakeppninni um sætið í Úrvalsdeildinni. Í sóknar-uppbyggingunni vildi Lampard spila boltanum stutt úr vörninni, það var samt ekki heilagt hjá honum - í raun gerði Derby minna og minna af því eftir því sem leið á tímabilið. Þannig má segja að Lampard sé sveigjanlegur hvað taktík varðar, hann vill spila stutt úr vörninni og pressa andstæðinginn hátt en þekkir líka sín mörk og er reiðubúinn að breyta um leikaðferð ef þurfa þykir. Lampard prófaði sig líka áfram með þriggja manna varnarlínu en það voru frekar fáir leikir.
Árangur Lampard hjá Derby var að lokum mjög góður. Liðið endaði í 6.sæti og fór þannig inn í umspilið þar sem Lampard gerði sér lítið fyrir og sló út Leeds lið Marcelo Bielsa. Liðið tapaði að lokum úrslitaleiknum um laust sæti í deildinni gegn Aston Villa. Það er alltaf leiðinlegt að tapa úrslitaleik en lið Aston Villa var einfaldlega sterkara en lið Derby. Lampard náði líka frábærum úrslitum í Carabao bikarnum, en þar mætti okkar maður sínum fyrrum stjóra, Jose Mourinho. Derby gerði sér lítið fyrir og sló út Man Utd á Old Trafford í mögnuðum leik - Derby mætti svo Chelsea í næsta leik þar sem þeir féllu úr keppni eftir harða baráttu.
Lampard reif líka upp andann í kringum Derby og var gríðarlega vinsæll meðal stuðningsmanna liðsins, ekki síst vegna þess að hann stýrði alltaf einskonar "sigurdansi" eftir hvern sigurleik sem fékk viðurnefnið "start the bounce". Það var góður andi yfir Derby, liðið var nokkuð ungt og spilaði skemmtilegan fótbolta.
Leikmannahópurinn og ungu strákarnir
Ef við gefum okkur að Lampard muni áfram notast við 4-2-3-1 og 4-3-3, eins og raunin var í fyrsta æfingaleik sumarsins, að þá er breiddin ekki vandamál enda spilaði Sarri 4-3-3 og því núverandi hópur settur saman út frá þeim forsendum. Það hafa verið fluttar fréttir af því að Lampard ætli sér að reyna gefa ungum og efnilegum leikmönnum tækifæri. Í raun hefur það verið sagt að Lampard hafi sett það sem forsendu fyrir því að hann tæki starfið að sér að hann myndi fá að gefa nokkrum ungum leikmönnum tækifæri. Hann tekur Jody Morris, fyrrum leikmann og unglingaþjálfara Chelsea, með sér frá Derby og verður hann áfram hægri hönd Lampard. Einnig réði hann þá Joe Edwards, Chris Jones og Eddie Newton með sér í þjálfarateymið en allir þessir þjálfarar hafa komið að Chelsea akademíunni og þá sérstaklega Joe Edwards - það er frekar augljóst að Lampard ætlar sér að nýta innviði félagsins betur en forverar sínir. Lampard vill líka tryggja meiri samgang milli akademíu og aðalliðsins og setti hann upp æfingatöflu félagsins með þeim hætti að hann liðin munu aldrei æfa saman því Lampard, Morris og Edwards vilja fylgjast betur með akademíunni. Ef við berum þetta saman við afstöðu Sarri í fyrra að þá sá Ítalinn ekki einn einasta unglingaliðsleik - hvað þá æfingar.
Flestir miðlarnir eru sammála um að Mason Mount, Reece James, Tammy Abraham og Kurt Zouma muni koma inn í leikmannahópinn ásamt Christan Pulisic. Svo er framtíð nokkurra annara leikmanna mjög óljós eins og t.d. Timoue Bakayoko, Michy Batshuayi, Kenedy og Danny Drinkwater - allir þessir leikmenn eru núna í undirbúningshóp Chelsea. Breiddin er því ekki vandamál en það er nokkuð ljóst að Lampard þarf að selja/lána burtu nokkra leikmenn ef hann ætlar að koma öllum ungu leikmönnunum fyrir inn í leikmannahópinn fyrir næsta tímabil. Ef við tökum lauflétt dæmi að þá er Chelsea með 8 miðjumenn að berjast um þrjár stöður eins og sakir standa.
Það læðist að mér sá grunur að Lampard muni spila 4-2-3-1 til að byrja með og notast við þá Jorginho og Kanté sem aftari tvo miðjumennina, mér myndi ekki bregða þó að Mason Mount myndi byrja í "holunni", allavega á meðan Loftus-Cheek er að jafna sig á meiðslum. Einnig held ég að Kurt Zouma muni brjótast aftur inn í byrjunarliðið og mynda jafnvel miðvarðarpar með Rudiger þegar fram líða stundir. Reece James er annar leikmaður sem ég held að muni slá í gegn í leikjum gegn minni liðum, hann er samt að keppa um stöðu við sjálfan Azpilicueta, svo hann þarf að vera þolinmóður. Ég vonast svo til þess að Chelsea eignist tvær nýjar stjörnur þetta tímabilið, þá Pulisic og Hudson-Odoi. Sá síðarnefndi er meiddur en ætti að vera klár í september skv. nýjustu fréttum. Pulisic er svo auðvitað feykilega efnilegur en það þarf að sýna honum þolinmæði, hann er ennþá bara tvítugur og er að koma inn í nýtt lið og nýja deild - Það er áskorun fyrir Lampard að sjá til þess að þessir kappar haldi áfram að þróa sinn leik, bæta sig og verða að leiðtogum innan raða Chelsea.
Fyrir mér á Lampard að losa sig við Zappacosta, Kenedy og Drinkwater hið fyrsta. Félagið er þegar búið að selja Morata fyrir 58 milljónir punda sem er frábær ákvörðun. Það er svo spurning með Bakayoko eða Barkley. Persónulega myndi ég halda þeim báðum fram í janúar en ég held að með kaupunum á Kovacic og þeirri staðreynd að Mason Mount sé að koma inn í leikmannahópinn að þá munu þeir báðir eiga erfitt uppdráttar. Það virðist vera áhugi frá öðrum liðum á Bakayoko eftir gott tímabil með AC Milan en það er smá hluti af mér sem vill gefa Bakayoko annan séns á að sanna sig. Barkley vill spila sem framliggjandi miðjumaður og í þeim stöðum eru bæði Loftus-Cheek og Mount. Loftus er auðvitað í erfiðum meiðslum en mun að öllum líkindum snúa aftur í janúar, segja má að Barkley hafi þá þann tíma til þess að sanna sig. Að lokum myndi ég svo lána Ethan Ampadu til annars liðs í ensku Úrvalsdeildinni, ég myndi vilja sjá lið eins og Brighton, Southampton, Crystla Palace eða Norwich taka hann á láni og láti hann spila 30 leiki á einu tímabili, hann þarf þá dýrmætu reynslu.
Hverjar verða helstu áskoranir Lampard?
Fyrst og síðast held ég að Chelsea séu ekki nægilega vel mannaðir í framherjastöðunni svo markaskorun gæri orðið vandamál. Arsenal er með Aubameyang og Lacazette, Spurs hafa Harry Kane, City er með Aguero og Gabriel Jesus, Liverpool eru með sitt þríeyki og Man Utd hafa Lukaku og Rashford.
Chelsea hafa Giroud, Batshuayi og Abraham, að auki erum við búnir að missa okkar markahæsta mann í Eden Hazard. Ég held að hvorki "Batsman" né Giroud séu nægilega stöðugir markaskorarar til þess að leiða línu Chelsea, það er svo ósanngjarnt að setja alla þessa ábyrgð á herðar Tammy Abraham. Lampard vantar sinn eigin Diego Costa eða Didier Drogba, einhvern svona "match-winner" eins og þessir kappar voru hjá okkur.
Hitt er svo að standast pressuna hjá Cheslea, það er mjög þekkt innan herbúða félagsins að samband knattspyrnustjóra, yfirstjórnar og stuðningsmanna getur súrnað mjög hratt þegar á móti blæs. Nærtækustu dæmin eru bara okkar tveir síðustu þjálfarar, Conte og Sarri. Hér þarf Lampard að nýta alla sína leikmannareynslu og sinn status sem goðsögn hjá félaginu - það er enginn stærri hjá Chelsea en Lampard sjálfur og hann þarf að nýta sér það óspart. Hann þarf að koma sínum hugmyndum og fingraförum á liðið hratt og örugglega og fá alla til þess að trúa að hann sé eini rétti maðurinn til þess að leiða félagið í gegnum þessa óvissutíma sem mynduðust með brotthvarfi Eden Hazard og félagaskiptabanninu - ég hef alla vega bullandi trú á Frank Lamaprd!
Við styðjum þig og treystum á þig, Super Frank!
KTBFFH
Comments