top of page
Search

FA bikarinn - flugferð til Boro og nýr þáttu af Blákastinu

Keppni: FA Bikarinn

Dag- og tímasetning: Laugardagurinn 19. mars 2022, klukkan 17:15

Leikvangur: Riverside Stadium

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport

Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason


Vil byrja á að minna á nýjan þátt af Blákastinu sem nú er aðgengilegur á öllum helstu hlaðvarpsveitum og einnig er hægt er að hlusta á í spilaranum hér neðst í færslunni. Þar fórum við vel yfir leikina gegn Newcastle og Lille og ræddum einnig um yfirvofandi eigendaskipti.


Chelsea mæta B-deildarliðinu Middlesbrough í 8. liða úrslitunum FA Bikarsins. Chelsea liðið mætir á fljúgandi siglingu inn í þennan leik, eftir fjóra sigra í röð í ensku Úrvalsdeildinni og nýbúnir að bóka sæti í 8. liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Talandi um deild þeirra bestu, þá var dregið í 8. liða úrslitum núna í morgun og var niðurstaðan að okkar menn mæta Real Madrid.

Myndin hér að ofan sýnir hvernig átta liða úrslitin drógust saman. Liverpool duttu í lukkupottinn og fengu Benfica. Ef við förum í gegnum Real Madrid þá mætum við líklega City í undanúrslitum.


En að leiknum gegn Boro, það var hamagangur í aðdraganda leiksins þegar Chelsea báðu um að leikurinn yrði leikinn fyrir luktum dyrum, til þess að hafa leikinn í anda íþróttanna (sporting integrity) þar sem stuðningsmenn Chelsea máttu ekki kaupa miða á leikinn vegna viðskiptabannsins á félaginu. Aðeins nokrum klukkutímum seinna var Chelsea búið að bakka með þessa hugmynd og enska Knattspyrnusambandið kom með yfirlýsingu um að sambandið og Chelsea væru að "leita leiða" til þess að áhorfendur kæmust á völlinn. Sjáum hvernig þetta fer.


Tuchel staðfesti á blaðamannafundi fyrir leik að Reece James, Christensen og Hudson-Odoi væru tæpir fyrir leikinn sem líklega þýðir að þeir munu ekki byrja. Svo er Saul Niguez með covid. Guðmundur Jóhannsson, sem einnig er þekktur sem Vélbyssukjafturinn, spáði fyrir um byrjunarliðið í Blákastinu í gær og var ég honum að mestu leiti sammála þó með nokkrum breytingum.


Kepa verður í markinu og miðverðirnir þrír verða líklega Rudiger, Thiago Silva og Chalobah. Vægnbakverðir verða svo spænski dúettinn Alonso og Azpi og inni á miðri miðjunni verða svo Loftus-Cheek og Kovacic. Frammi spái ég svo Mount, Ziyech og Lukaku.Kai Havertz er búinn að spila mikið upp á síðkastið og verður til taks á bekknum ásamt Pulisic ef allt fer í steik. Sumir gera ráð fyrir að Thiago Silva verði hvíldur, það getur vel verið en þá er Sarr kominn í vörnina með Chalobah, sem mér finnst einfaldlega vera of takmarkað.


Mikið hefur verið rætt um hvernig Chelsea mun ferðast í leikinn, en Tuchel staðfesti einnig á blaðamannafundi að liðið mun ferðast með flugvél, "eins og vanalega", eins og það var orðað.


Middlesbrough

Hinn geðþekki Chris Wilder er stjóri Boro manna og er hann búinn að smíða eitt stykki bikarævintýri til handa norðanmönnum. Þeir hafa slegið út bæði Man Utd og Spurs á leið sinni í átta liða úrslitin sem er frábær árangur.


Liðið er einnig í ágætis málum í Championship deildinni, sitja í 7. sæti og eru í bullandi baráttu um að komast í umspilið. Þeir hafa samt aðeins verið að ströggla, og aðeins unnið einn af síðustu fjórum leikjum sínum í deildinni.


Þeirra þekktustu leikmenn eru lánsmennirnir úr Úrvalsdeildinni Aaron Connolly (frá Brighton) og Folarin Balocun (frá Arsenal), báðir komu á láni í janúar og hafa komið þokkalega inn í liðið. Margir muna svo eftir varnartröllinu Sol Bamba og bakverðinum Neil Taylor sem gerði góða hluti með Swansea.


Liðið spilar mjög þétta 3-5-2, þar sem miðverðirnir taka utan á hlaup í anda Sheffield United liðs Wilder. Í leikjunum gegn Spurs og Man Utd voru þeir mjög orkumiklir, hlupu mikið og börðust fyrir hverjum einasta bolta. Þeir munu bjóða okkur upp á svipaðan leik.


Spá

Okkar menn eru með margfallt betra lið. Þetta verður samt ekkert burst, við munum þurfa að hafa fyrir þessu en náum að vinna þennan leik 2-0. Alonso og Ziyech með mörkin.


KTBFFH

- Jóhann MárComments


bottom of page