top of page
Search

FA Bikarinn - 8. liða úrslit gegn Sheffield Utd.

Keppni: FA Bikarinn

Dag- og tímasetning: Sunnudagurinn 21. mars kl 13:30

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport og Ölver Sportbar

Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason



Eftir stórkostlegan sigur á Atl. Madrid í miðri viku tekur hersveit Thomas Tuchel á móti Sheffield United í 8. liða úrslitum ,,þeirrar elstu og virtustu" - enska FA Bikarsins. Mögulega verður helsta verkefni Tuchel að ná liðinu niður á jörðina eftir Atletico leikinn, a.m.k. er undirritaður ennþá að fanga uppbótartíma marki Emerson. En núna þarf að snúa sér að allt öðvurvísi verkefni. Fyrir þá sem vilja lesa meira um leikinn gegn Atletico bendi ég einfaldlega á framúrskarandi leikskýrslu Stefáns Marteins hér.


Það er orðið álíka erfitt að geta sér til um byrjunarlið Chelsea og að giska á allar fimm réttar í lottóinu! Bragðarefurinn Tuchel er nota breiddina í hópnum gríðarlega vel og eflaust er það hreinasta martröð að undirbúa leik gegn okkar ástkæra liði. Verður framlínan Giroud, Mount og Werner? Eða Ziyech, Havertz og Tammy? Eða Hudson-Odoi, Mount og Werner? Við erum með svo margar útgáfur að framlínu, vörn og miðju að nær alltaf tekst Tuchel að koma á óvart.


Ég ætla samt að reyna að geta mér til um byrjunarliðið. Ég ætla að gerast svo djarfur að setja Kepa í markið gegn Sheff Utd. Spánverjinn stóð sig vel í sínum síðustu tveimur leikjum og það kæmi mér ekki á óvart ef hann fengi leik á morgun. Aftasta línan mun samanstanda af þeim Christensen, Zouma og Rudiger. Þannig náum við gefa Azpilicueta kærkomna hvíld. Jorginho kemur inn á miðja miðjuna og vona ég innilega að Billy Gilmour fái að byrja þennan leik við hlið Ítalans knáa. Ég ætla að setja Hudson-Odoi í hægri vængbakvörð og Ben Chilwell byrjar í þeim vinstri. Framlínan tel ég svo að muni samastanda af þeim Mason Mount, Christian Pulisic og Olivier Giroud.

Eins og fyrr segir getur vel verið að Havertz, Ziyech eða Werner byrji eða þá að Kovacic verði í liðinu í stað Gilmour. Einnig gæti Emerson byrjað í vörninni, rétt eins og hann gerði gegn Barnsley. Tammy Abraham verður síðan í hópnum og vonandi fær hann tækifæri eftir meiðsli á ökkla.


Sheffield United

Í síðustu viku ráku forráðamenn Sheff Utd Chris Wilder úr starfi. Wilder hafði unnið kraftaverkastarf fyrir liðið. Hann tók við stjórnartaumunum á Bramhall Lane árið 2016 er Sheff Utd væru að ströggla í League One, C-deildinni á Englandi. Hann kom þeim upp um deild strax á fyrsta ári og tókst svo á tveimur árum í Championship deildinni að koma liðinu upp í ensku Úrvalsdeildina. Í fyrra var liðið spútník lið deildarinnar og voru þeir framan af móti í baráttu um sæti í Meistaradeild Evrópu. Stuðningsmenn liðsins voru hinir kátustu og var m.a. sungið að Real Madrid væri á leiðinni á Bramhall Lane.


En gengið á þessu tímabili er búið að vera hörmulegt. Sú samstaða og kraftur sem einkenndu liðið á síðustu leiktíð virtist hreinlega á bak og burt og segja má að fallið hafi blasað við þeim eftir fyrstu 10-12 umferðirnar. Þeir sitja límdir við botnsætið með aðeins 14 stig úr 29 leikjum.


En þeir eru komnir í 8.liða úrslit enska FA Bikarsins, sú keppni hefur verið ljósi punkturinn á þessu tímabili. Paul Heckingbottom er tekinn við sem bráðabirgðastjóri liðsins, en hann þjálfaði u-23 lið félagsins en hefur þó reynslu af því að stýra liðum eins og Barnsley og Leeds, til skamms tíma þó.


Fyrsti leikur Heckingbottom gekk afleiddlega - þeir voru kjöldregnir af liði Leicester City í leik sem endaði 5-0. Þannig sjálfstraustið er ekki upp á marga fiska hjá Sheffield mönnum. Vonandi geta okkar menn nýtt sér það.


Það hefur verið óskrifuð regla að kóngurinn á Bramhall Lane, David McGoldrick, skori gegn liði Chelsea - skulum vona að hann hætti því í leiknum á morgun.


Spá

Okkar menn eiga að sigra þennan leik örugglega. Sheffiled United eru í algeru lamasessi á meðan okkar menn eru að spila flottan fótbolta. Þetta er hins vegar bikarleikur, þar sem allt getur gerst. Það er líka vert að taka fram að okkar menn hafa átt það til að ströggla gegn liðum sem eru mjög þrjósk og liggja aftarlega.


Er samt ekkert nema bjartsýnn á sæti í undanúrslitum! Spái 2-0 sigri með mörkum frá Mount og Giroud.


KTBFFH

- Jóhann Már

bottom of page