Leikurinn
Það má segja að það sé ein gullin regla þegar að þú spilar gegn liði Pep Guardiola. Hún lýsir sér þannig að ef þitt lið er búið að vera meira með boltann þegar dómarinn flautar leikinn af, þá ertu nánast örugglega búinn að tapa leiknum. Í leiknum í dag enduðu Chelsea á að vera 54% með boltann. Okkar menn byrjuðu leikinn djarft og pressuðu stíft. Það er auðvitað virðingarvert að nálgast leikinn svona. Marcelo Bielsa gerir þetta alltaf, blæs til sóknar. En þetta er svokallað "High risk, high reward" - að lokum borgaði áhættan sig ekki. Til að vinna Man City þá þarftu að verjast og verjast vel. Chelsea vann Man City á Stamford Bridge í júní sl. og þar nálguðust okkar menn leikinn frábærlega. Lágu til baka, voru þéttir en beittir fram á við.
Chelsea bauð ekki upp á slíka frammistöðu í dag.
Ilkay Gundogan kom City yfir á 18' mín eftir að okkar menn sofnuðu ansi hressilega í vörninni. Eftir þetta mark áttu okkar menn aldrei möguleika. Allt sjálfstraust hvarf eins og dögg fyrir sólu. Aðeins þremur mínútum síðar tvöfölduðu City forystuna er íslandsvinurinn Phil Foden skoraði eftir góðan undirbúning frá Kevin De Bruyne. Skömmu síðar, eða á 34' mínútu skoraði svo De Bruyne sjálfur er hann fylgdi eftir skoti frá Sterling. En Raheem Sterling komst einn í gegn eftir hornspyrnu frá okkar mönnum - sannarlega sjötta flokks varnarleikur þar á ferð.
Hudson-Odoi bauð svo upp á sárabótarmark á 92' mín eftir ljómandi fínan undirbúning frá Kai Havertz.
1 - 3 lokatölur í leiknum þar sem City voru mikið betri aðilinn.
Umræðupunktar
Frank Lampard er á barmi þess að vera rekinn úr starfi. Strax eftir leik birtu The Athletic frétt þess efnis að þolinmæði félagsins væri á þrotum.
Chelsea er eftir leikinn 8. sæti deildarinnar með 26 stig eftir 17 leiki. Hræðileg byrjun í alla staði.
Það er erfitt að útskýra þetta hrun á leik liðsins. Fyrir mánuði síðan var liðið að vinna Leeds, voru á miklu flugi og eitt heitasta lið Englands. Höndluðu menn ekki pressuna að vera orðaðir við toppbaráttuna?
City liðið var laskað. Án Ederson, án Kyle Walker og ekki með framherja í byrjunarliðinu, De Bruyne lék sem fremsti maður. Þrátt fyrir þetta áttu okkar menn ekki séns.
Í viðtölum eftir leik hélt Lampard ró sinni og kallaði eftir yfirvegun að hálfu félagsins og stuðningsmanna. Hann segist hafa trú á hópnum og er sannfærður um að liðið mun vinna sig úr þessari lægð.
Einkunnir leikmanna
Edouard Mendy - 5: Heimkletturinn Mendy gerði ekki bein mistök í þessum leik en mér finnst að hann hefði mátt gera betur í marki Fodens.
Azpilicueta - 4: Fyrirliðinn var í miklum vandræðum allan leikinn þar sem sprækur Foden snéri honum í hringi lungað úr leiknum.
Chilwell - 4,5: Var settur undir mikla pressu frá Sterling og náði aldrei að finna neinn takt í sínum leik. Líklega hans slakasta frammistaða í treyju Chelsea.
Thiago Silva - 4,5: Í fyrsta skipti sá maður smá aldur á Silva er Gundogan snéri hann auðveldlega af sér í fyrsta marki leiksins. Reyndi að lemja sjálfstraust í okkar menn en allt kom fyrir ekki.
Zouma - 4,5: Var tæpur allan leikinn átti í svakalegum erfiðleikum með að elta De Bruyne.
Kante - 4: Líklega var þetta versti leikur Kante fyrir Chelsea. Gaf City þriðja markið og var að elta skugga allan leikinn.
Kovacic - 4: Mjög slakur leikur hjá Kova sem var tæpur á boltanum allan leikinn og lét miðjumenn City klukka sig um allan völl.
Mason Mount - 4: Líkt og með Kante var Mount að leika einn sinn versta leik fyrir Chelsea.
Hakim Ziyech - 5: Komst aldrei í takt við leikinn, gaman að sjá hann samt aftur á vellinum. Er gríðarlega mikilvægur þessu liði.
Pulisic - 6 : Okkar lang hættulegasti maður og eini leikmaðurinn í byrjunarliðinu sem þarf ekki að skammast sín fyrir sína frammistöðu.
Timo Werner - 4: Enn og aftur er Timo að valda vonbrigðum jafnvel þó hann spili í "sinni" stöðu. Náði aldrei að finna neinn takt og ógnaði lítið sem ekkert.
Billy Gilmour - 6: Fínasta innkoma hjá Billy sem kom með kraft inn á miðjuna.
Kai Havertz - 6,5: Mjög góð stoðsending hjá Havertz, hann þarf að byggja ofan á þetta og koma sér inn í liðið.
Hudson-Odoi - 7: Flott innkoma hjá CHO. Reyndi að taka menn á, skapaði eitt færi og skoraði eitt mark eftir að hann kom inn í leikinn. Gef honum mann leiksins.
KTBFFH
- Jóhann Már
Σχόλια