top of page
Search

Enzo Maresca tímabilið hefst

Pistill eftir Hafstein Árnason



Undirbúningstímabilið stendur nú sem hæst hjá Chelsea FC. Enzo Maresca nýtekinn við stjórnartaumunum eftir að hafa komið Leicester upp úr Championship deildinni. Merki áfallastreituröskunnar gera vart við sig hjá aðdáendum liðsins, þar sem kunnuleg stef birtast okkur aftur. Þar má helst nefna alltof stóran leikmannahóp. Launaskrá Chelsea telur yfir 40 leikmenn sem þarf að skera niður um að minnsta kosti 12 leikmenn. Verði leikmannahópurinn of stór þegar tímabilið byrjar, er verulega hætt við því að samkeppnishæfnin detti niður. Leikmenn sem eru í aukahlutverkum verða óánægðir og hætta að þrýsta á þá leikmen sem eru í náð stjórans. Þegar það gerist, þá hættir því til að þeir leikmenn sem eru í náðinni, líði of vel í sinni stöðu, þar sem þeir upplifa ekki samkeppni frá hinum fyrir byrjunarliðsstöðum. Þannig dettur niður samkeppnishæfnin innan liðsins. Frank Lampard talaði um þetta atriði sérstaklega í podcastinu "The diary of a CEO".



Klúbburinn er ennþá í svokölluðum endurbyggingafasa. Það er langtímaverkefnið, en það er erfitt að skilja það, þegar stjórn félagsins ákveður að ráða knattspyrnustjóra sem umbylta leikstíl liðsins á milli tímabila. Við sáum að Mauricio Pochettino náði góðum árangri þegar fór að líða á síðasta tímabil, en því miður, þá náðu stjórnin og hann ekki samkomulagi hvernig skyldi haldið áfram. Þess í stað var Maresca ráðinn sem byggir sinn leikstíl meira á að halda í boltann, frekar en að hlaupa og pressa endalaust. Það var þó reyndar lítið um það undir blálok síðasta tímabils. Undirbúningstímabilið hefur farið brösulega fram. Liðið náði góðum úrslitum gegn Club America frá Mexíkó, þar sem við fengum að sjá hvað væri spunnið í Romeo Lavia, Kiernan Dewsbury Hall og Marc Guiu. Hinir leikirnir voru vægast sagt mjög lélegir, sérstaklega gegn Glasgow Celtic. Skotanir völtuðu yfir okkur og barnalegur varnarleikur kom berlega í ljós, einnig gegn Wrexham sem var fyrsti leikurinn á undirbúningstímabilinu. Við lékum svo nánast gegn varaliði Manchester City þar sem Erling Haaland afgreiddi okkur á fimm mínútum. Það sem er jákvætt við svona útreiðir, er að þjálfaranum verður strax morgunljóst hvar veikleikarnir liggja. Framundan eru leikir gegn Real Madrid í Charlotte og svo gegn Internazionale á Stamford Bridge. Við eigum von á því að sjá væntanlegt byrjunarlið myndast í þeim leikjum, sérstaklega gegn Inter, þar sem Marc Cucurella og Cole Palmer bætast við, þar sem þeir eru ekki með í ferðalaginu í Bandríkjunum auk Conor Gallagher.


Ef við skoðum leikmannahópinn, þá erum við með átta markmenn á launaskrá. Robert Sanchez, Djordje Petrovic, Kepa, Marcus Bettinelli, Lucas Bergström, Gabriel Slonina, Eddie Beach og Filip Jörgensen sem var keyptur frá Villareal. Slonina var á hræðilegu láni hjá Eupen í Belgíu á síðasta tímabili, þar sem liðið féll úr belgísku úrvalsdeildinni. Hann finnur vonandi annað lið. Það er alls óvíst hvort hann sé þessi markvörður sem Maresca vill sjá, því markmenn þurfa að vera það góðir á boltanum, að þeir þurfa nánast að geta spilað sem djúpur miðjumaður í uppspilinu. Það er sennilega ástæðan fyrir því að Jörgensen var keyptur, en Petrovic virðist líklega á útleið með einhverjum hætti. Kepa er klárlega á útleið - á eitt ár eftir af samningi og vonast er til þess að Real Madrid kaupi hann á slikk. Hann hefur þó alla burði til þess að spila, en eitthvað segir manni að hugur hans sé ekki hjá Chelsea. Eddie Beach og Lucas Bergström eru leikmenn úr unglingastarfinu þannig að þeir eru bara söluvara og þurfa að fara. Robert Sanchez verður án efa aðalmarkvörður, en mikil ósköp hvað hann triggerar áfallastreituviðbrögðin hjá manni með klaufskum tilburðum, lélegum fyrstu snertingum og fleira í þeim dúr. Jörgensen þótti mér ekkert sérstakur fyrir þær mínútur sem hann fékk. Hann er bara með eitt tímabil í La Liga undir beltinu. Að mínu mati eru markmannamálin í fullkomnu lamasessi hjá Chelsea. Markvörðurinn sem væri fullkominn í þetta hlutverk væri Mike Maignan hjá AC Milan, en við getum aðeins dreymt um hann.


Bakvarðamálin eru í ágætum málum, nema við erum með meiðslapésa í Ben Chilwell og Reece James. Þeir tveir eru einir af launahæstu mönnum liðsins og það væri katastrófískt áfall að missa þá í langtímameiðsli. Chilwell þarf svo að skila okkur frammistöðum sem við höfum ekki séð hjá honum síðan Tuchel stjórnaði. Raunar væri best að losa Chilwell út, en það er nánast útilokað að nokkur klúbbur í heiminum væri til í að borga meiðslapésa sem er kominn yfir sitt besta skeið 200.000 pund á viku. Samningur Chilwell er til þriggja ára í viðbót þar að auki. Fyrir utan Chilwell geta Renato Veiga og Caleb Wiley spilað í vinstri bakvarðastöðunum. Wiley var keyptur frá Atlanta United og alls óvíst er um hans hlutverk. Renato Veiga er í hópnum í Bandaríkjunum þannig að hann verður örugglega í einhverju varahlutverki í vetur. Sá sem hefur spilað mest í vinstri bakverðinum á undirbúnigstímabilinu er Malo Gusto, sem er hægri bakvörður, en spilar sem "inverted" bakvörður á miðjunni. Gusto er einn af björtu punktum síðasta tímabils og verður áhugavert að sjá hvernig þessi mál þróast, samhliða hvernig Marc Cucurella kemur inn - sérstaklega eftir frábærar frammistöður með spænska landsliðinu á EM. Renato Veiga og Reece James geta einnig leyst inná miðjuna, þannig að Maresca hefur allskonar útfærslur til að velja úr með þetta atriði.


Chelsea eru svo með alltof marga miðverði, sennilega um átta slíka. Trevoh Chalobah stóð sig hvað best á síðasta tímabili þegar hann kom uppúr meiðslum, hefur verið tilkynnt að hann sé ekki partur af hópnum. Eins ömurleg framkoma og það er, við uppaldan leikmann, þá er hann fórnarlamb sanngirnisreglnanna, líkt og Conor Gallagher. Við erum að ýta út leikmönnum sem spila fyrir merkið á treyjunni. Þetta er að mínu mati innbyggð villa í þessu kerfi sem sendir svo röng skilaboð í unglingastarfið. Sérstaklega í ljósi þess hversu lélegir leikmann hafa komið til klúbbsins. Axel Disasi og Benoit Badiashile komu frá Mónakó og hafa gert ekki neitt til þess að verðskulda byrjunarliðssæti. John Obi Mikel lét hafa eftir sér í sínu podcasti þetta væri alveg þaulreynt með greyið Benoit. Axel Disasi hefur ekkert spilað á undirbúningstímabilinu en það er blóðugt að vita til þess að þeir eru báðir á langtímasamningum með tæp 100 þús pund hvor í laun á viku. Wesley Fofana hefur verið hræðilegur í leikjunum á undirbúningstímabilinu og hann er með 200 þúsund pund á viku. Einn af launahærri mönnum liðsins og hefur verið sífellt meiddur. Þetta er hans síðasti séns til að sýna Chelsea að hann geti ennþá mætt þeim vætingum sem ætlast er af honum. Levi Colwill hefur leikið í þessu hybrid miðvarðar-bakvarðar hlutverki en hefur strögglað í því í síðustu leikjum. Tosin Adariaboyo var fenginn frítt frá Fulham fyrir þetta tímabil. Hann er ágætur og virðist vera einn af fyrstu valkostum. Hann virðist vera "Maresca leikmaður". Þar fyrir utan erum við svo með Alfie Gilchrist og Bashir Humphreys sem þurfa að fara á láni til þess að fá einhverjar mínútur. Sé samt ekki fyrir mér að þeir verði í aðahlutverkum næstu árin. Heilt yfir, þegar við horfum yfir varnarlínuna verður klúbburinn að skera duglega niður og koma burt óþörfum leikmönnum frá liðinu. Annars er hætt við því óánægja myndist í hópnum og menn gefa ekki allt sitt besta, samanber það sem Lampard nefndi með samkeppnishæfnina.



Maresca hefur svo spilað bæði útfærslur á leikkerfi með einn varnarsinnaðan miðjumann, eins og Romeo Lavia gegn Club America, en svo líka tvo, gegn Manchester City, þar sem bæði Lavia og Moises Caicedo spiluðu saman. Þetta var fyrsti leikur Caicedo og hann virkaði eins og belja á svelli, nokkuð óvanur hlutverkinu. Ég trúi því að þarna þarf Maresca tíma til að slípa saman hópinn betur. Það sem var ánægjulegt að sjá hversu góður Romeo Lavia er. Naut af burðum, flottur varnarlega en hefur einstaklega góða hæfileika með að senda boltann og þá til þess að brjóta upp línurnar. Svo erum við með Lesley Ugochukwu til vara. Lesley er ungur og var mikið meiddur, en það verður áhugavert að sjá hvernig Maresca mun púsla miðjunni saman. Conor Gallagher virðist vera á leiðinni til Atletico Madrid, sem er skiljanlegt þar sem hann virðist ekki passa í Marescakerfið, en er sennilega fullkominn fyrir Diego Simeone hjá Atletí. Enzo Fernandez, Kiernan Dewsbury-Hall, Carney Chukwuemeka og Cesare Casadei eru svo hinir miðjumennirnir sem við eigum til vara. Sennilega verður Casadei seldur eða lánaður til annars liðs, en hinir verða þá með hlutverk til að berjast um stöðurnar. Það verður áhugavert að sjá hvað Maresca gerir í framhaldinu og vonandi verður hann fljótur að finna bestu miðjuna sína. Cole Palmer gæti líka verið notaður í hlutverki þarna. Andrey Santos fékk örlítinn tíma gegn Wrexham en varð fljótt sendur aftur til Strasbourg þar sem hann fær að þróa sinn leik, eftir vel heppnaða dvöl á þessu ári.


Sóknarsinnaðir miðjumenn og vængmenn eru stöður sem koma til að verða mjög mikilvægar. Við getum ekkert sagt að svo stöddu um Cole Palmer þar sem hann hefur ekki fengið neinar mínútur hingað til útaf EM, en sá sem hefur fengið fullt af mínútum er Mikhaylo Mudryk. Það sem veldur manni áhyggjum er að hann hefur ekki sýnt neinar framfarir í þetta eina og hálfa ár sem hann hefur verið með Chelsea. Hann virðist alltaf týndur á vellinum. Þrátt fyrri mikinn hraða nær hann ekki að vinna einn á einn stöður á vellinum. Að vera með hann inn á virkar eins og liðið sé að spila einum færri. Maður er hræddur um að Chelsea hafi keypt köttinn í sekknum. Sá úkraínski virðist ekki geta varist og er með lélegan leikskilning. Sennilega væri heppilegast að senda hann á lán einhverstaðar þar sem hann getur fengið að þroska leikinn sinn undir minni pressu. Tel það þó mjög ólíklegt. Vinstra megin erum við svo með Raheem Sterling - leikreyndasta mann liðsins á hæstu laununum. Hann hefur engan veginn mætt væntingum og minnir á kaup West Ham á Freddie Ljungberg á sínum tíma. Stjörnuleikmaður sem er kominn yfir sitt besta skeið á himinháum launum. Ég sé ekkert hungur í Sterling til að spila fyrir treyjuna eða vera þessi leiðtogi sem hann ætti að vera. Christopher Nkunku hefur verið einn af björtu punktunum á tímabilinu. Við eigum vonandi eftir að sjá hann alveg negldan í þessa stöðu vinstra megin. Til vara eigum við svo Deigo Moreira sem virðist verða sendur í einhvern lánsleiðangur. Hægra megin erum við Noni Madueke sem hefur verið ágætur í sumar. Það er samt eitthvað viðhorfsvandamál sem hann hefur. M.a. með vítapsyrnur og fleira, en hann vinnur yfirleitt einn á einn stöðurnar og gæti því orðið mjög mikilvægru leikmaður. Angelo Gabriel og Deivid Washington eru líka til taks, en sennilega langt frá því að verða klárir fyrir ensku úrvalsdeildina. Það væri glapræði að láta Deivid hanga í unglingaliðinu annað tímabil, þannig að einhverstaðar þurfa þeir að vera og fá nóg af mínútum.


Chelsea á nóg af framherjum sem þurfa að berjast um eina stöðu í byrjunarliðinu. Í launabókum erum við með sex leikmenn á skrá, og sennilega eru tveir á leiðinni. Romelu Lukaku er að reyna ýta sér yfir línuna til Napoli til "daddy Conte". Það bara tímaspursmál hvenær það gerist og með hvaða hætti. Victor Osimhen hefur verið orðaður við Chelsea í mjög langan tíma og einhverskoanr skiptidíll við Napoli er líkleg niðurstaða. Osimhen hefur æft með Napoli en ekkert spilað. De Laurentis eigandi Napoli mun sætta sig við það að halda Osimhen og liggur ekkert á að selja. Il Corriere dello Sport segir að Osimhen sé ekki sérstaklega sannfærður um Chelsea eins og staðan er núna. Það eitt og sér, er eitt risastórt rautt flagg á stjórn Chelsea. Þetta þýðir í raun að stærstu stjörnunar séu að missa trú á vegferð Chelsea, þrátt fyrir að Osimhen sé að upplagi Chelsea aðdáandi eins og margir afríkumenn eru. Fjarvera úr meistaradeildinni spilar því algjört lykilhlutverk hérna og segir að komandi tímabil verði ákaflega mikilvægt um að ná því markmiði. PSG eru hinn klúbburinn sem hefur verið á eftir Osimhen, en Aurelio De Laurentis er harður í horn að taka við samningaborðið. Ef PSG bjóða ekki uppsett verð, þá fer hann ekki til þeirra. Í tilfelli Chelsea er öðrum málum háttað, að við getum bíttað Lukaku. Þessi mál eru líklega ekki að fara klárast fyrr en í lok gluggans myndi maður halda. Chelsea hafa þó Nico Jackson sem skilaði ágætis tölum á síðasta tímabili, þrátt fyrir að hafa spilað undir xG skorinu. Ég get ekki ímyndað mér annað en hann geri betur í ár, reynslunni ríkari. Líklegt er að Chelsea spili með þrjá framherja í hópnum. Jackson getur líka leyst af kantstöðu og Nkunku getur líka spilað fremstur. Við erum svo með ungstirnið Marc Guiu sem kom fyrir litlar 6 milljónir evra frá Barcelona. Hann er 18 ára og hefur staðið sig þokkalega á undirbúningstímabilinu. Raunar betur en maður þorði að vona. Baráttuhundur sem á eftir að verða alvöru skrokkur. Hann þarf mínútur og það væri glapræði að láta hann sitja á bekknum. Best væri að finna hentugt lán fyrir hann. Eftir sitja Armando Broja sem átti ömurlegt tímabil hjá Chelsea og Fulham. Hann var litlu skárri með Albaníu á EM og dagar hans eru líklega taldir hjá Chelsea. Það er óhætt að segja að hann sé ekki sami leikmaðurinn eftir erfiðu meiðslin, þrátt fyrir að undirritaður var mikill aðdáandi í byrjun. David Datro Fofana er líka á launaskrá en eins og með Broja, þá sé ég hann ekki sem framherja í Chelsea. Hann stóð sig ágætlega hjá Burnley, en þarf fleiri mínútur til að þróa sinn leik. Hann er því nánast í "bomb squad" liðinu með Kepa, Chalobah, Lukaku, Broja og Gallagher.



Chelsea eru samt með annan framherja í sigtinu en það er Samu Omorodion, tvítugur Spánverji af nígerísku bergi brotinn. Hann kemur úr unglingastarfi Atletico Madríd, en lék með Alavés á láni á síðasta tímabili og skoraði 8 mörk í 34 leikjum í La Liga. Hann er stór, nautsterkur, hraður og góður í loftinu. Nánast sami prófíll og Victor Osimhen, en sennilega mun ódýrari. Matt Law hjá Daily Telegraph skrifaði þó að það væri ekki útilokað að bæði Osimhen og Omorodion myndu báðir koma til Chelsea. Það er að minnsta kosti gott samband á milli Atletico Madríd og Chelsea, sérstaklega eftir fréttir dagsins að Conor Gallagher sé að fara til Madrídar. Það væri ekki alslæmt að fá bara Omorodion eftir nánari eftirgrennslan.



Það sem Enzo Maresca þarf að gera núna er að slípa saman hópinn og losa strax út þá leikmenn sem eiga ekkert erindi. Næstu vikur verða mjög mikilvægar í þessu samhengi og gefa manni ákveðna bjartsýni. Aðal höfuðverkurinn verður að koma markmannamálum og varnarlínu í fastar skorður og byggja á því. Chelsea eru þó ekki alveg búnir á leikmanna markaðinum, því fréttir frá Brasilíu herma að klúbburinn sé búinn að semja við Gremio um kaup á 16 ára pilti, Gabriel Mec. Eins og með Estevao, þá kemur hann ekki til Chelsea fyrr en hann verður 18 ára. Kaupin hljóða upp á 24m evra sem er rosalega hátt verð fyrir 16 ára dreng, en þarna mætti segja að við séum að veðja á bestu unglingana, eins og með Kendry Paez. Gabriel Mec á að vera víst algjört undrabarn fyrir vinstri kantinn, Estevao var einmitt hægri kantur. Ef við skoðum myndbönd af honum þá er hann helvíti flinkur á boltanum og góður spyrnumaður, en það er langt þangað til hann komist á þann stall sem þarf til í ensku úrvalsdeildinni.


Aðdáendur Chelsea þurfa að treysta að stjórnin sé að gera rétta hluti til lengri tíma. Vandamálin sem blasa við eru skammtímavandamál sem þurfa brýnna úrlausna. Versta sem getur komið fyrir er slæmur spilakafli og stjórinn fari á miðju tímabili. Þangað til þurfa allir aðdáendur að verða sér út um kvíðastillandi lyf og vona það besta.


Við hvetjum þó alla aðdáendur til þess að skrá sig í Chelsea klúbbinn á Íslandi. Langar þig að fara á leiki með Chelsea er færsælast að skrá sig í klúbbinn og senda þeim tölvupóst í tenglsum við það. Árgjaldið er hófsamt í verði og rennur mest af því til Chelsea Football Club. Nánari upplýsingar á www.chelsea.is


Hefur þú áhuga að skrifa pistla á CFC? Við erum að leita af pistlahöfundum sem eru til í að skrifa einn pistil á mánuði í tengslum við leiki Chelsea. Setjið ykkur í samband við greinarhöfund á facebook eða í Chelsea FC á Íslandi facebook hópnum.



댓글


bottom of page