top of page
Search

Ekkert aprílgabb á Stamford

Dag- og tímasetning: Laugardaginn 1. Apríl 2023 - kl 16:30

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir: Markús Pálma Pálmason





Chelsea:


Andstæðingurinn á morgun er enginn annar en Aston Villa. Okkar gengi gegn Villa hefur verið virkilega gott í gegnum árin í ensku úrvalsdeildinni. Mér finnst alltaf mjög gaman að kíkja á tölfræði milli liðanna svona rétt fyrir leik, en við höfum unnið 29 viðureignir en Aston Villa aðeins 13, þar sem það hafa einnig verið 13 jafntefli. Við töpuðum síðast gegn þeim í deildinni í september 2021, þegar þeir fóru með 2-1 sigur af hólmi á Villa Park. Staðan í deildinni er hins vegar áhugaverð hvað varðar þessi tvö lið, þar sem við erum í 10. sæti og Villa í því 11. Það sem er hins vegar áhugaverðast að mínu mati er að þeir eru með 1.3 mörk að meðaltali í leik en við 1.1. Svo er ekki mikill munur í mörkum fengin á okkur heldur.


Við erum að koma til baka úr leiðinlegu jafntefli gegn Everton, þar sem við unnum þrjá leikina á undan honum. Fyrir mér er aldrei í lagi að gera jafntefli við lið eins og Everton, en ég er stundum talinn vera of bjartsýnn. Við eigum erfitt prógram framundan þar sem við spilum heimaleik gegn Liverpool, útileik gegn Úlfunum, báðar viðureignir gegn Real Madrid í Meistaradeildinni, og svo alvöru útileik gegn Arsenal í lokaleik þessa mánaðar. Ef ég fengi að ráða væri apríl 24 stiga mánuður, en eins og staðan er núna að þá ræð ég víst engu.


Potter virðist fá endalausan tíma hjá Boehly og co, en það er samt farið að hitna undir honum. Menn á borð við Luis Enrique, Zidane, Julian Nagelsmann og fleiri hafa verið nefndir sem kandídatar til að koma í stað Potter, en í augnablikinu virðist það vera fjarlægur draumur. Þessi leikur gegn Aston Villa, að mínu mati, ætti að vera “statement leikur” fyrir okkur, þar sem við sýnum í alvörunni hvað við getum. Alvöru stórsigur er það sem þessi leikur ætti að vera undir venjulegum kringumstæðum, og margir leikmenn einfaldlega ÞURFA að detta í gang á næstunni.


Ég veit að það eru ekki allir sammála mér í þessari skoðun, en ég vil ekki sjá suma byrjunarliðsmenn í þessum leik. Líkleg byrjunarlið hafa verið að fljúga um samfélagsmiðla seinustu klukkutíma, en ég tel að það þurfi breytingar eftir skituna gegn Everton. Að sjálfsögðu eru einhver nöfn algjört “möst” í þetta byrjunarlið, en sum þeirra mega hvíla fyrir Real Madrid leikina. Thiago Silva og Azpilicueta ennþá frá, og Broja ekkert meira með á tímabilinu. Svona spái ég, eða svona vil ég, að byrjunarliðið okkar verði:






Aston Villa:


Þetta Villa lið er ekkert sem við eigum að hræðast, ef þú spyrð mig. En að sjálfsögðu ber maður virðingu fyrir andstæðingnum og gerir sitt allra besta til að vinna. Blah blah blah. Við förum inn í þennan bölvaða leik, og klárum þá með a.m.k. 4 marka mun. Allt annað er of lítið “statement” og of litlar “framfarir”.

Þeir hafa skorað meira en við á tímabilinu, en fengið fleiri mörk á sig einnig. Villa hafa ekki verið jafn gjarnir á að gera jafntefli á tímabilinu en við, en þeir hafa aðeins gert 1 jafntefli í seinustu 9 leikjum, í samanburði við 4 jafntefli í jafn mörgum leikjum hjá okkur. Jafntefli í þessum leik er algjört tap í mínum bókum. Aston Villa hefur aðeins unnið 1 af síðustu 17 leikjum á Brúnni, og það kemur ekki sigur númer 2 í þessum leik, bara svo það sé á hreinu. Hins vegar eru Villa á smá sigurgöngu, en þeir hafa unnið 3 af síðustu 4 leikjum í deildinni, og haldið hreinu í öllum þessum sigrum.


Ég ætla gera ráð fyrir að byrjunarlið þeirra gæti litið einhvern veginn svona út:


GK - Martinez

RB - Moreno

CB - Mings

CB - Konsa

LB - Young

CM - Douglas Luiz

CM - McGinn

CAM - Buendía

LW - Ramsey

ST - Watkins

RW - Bailey


Spá:

Eins og ég kom inn á áðan, að þá er ekkert annað en sigur í boði. Ég vil sjá alvöru slátrun, í mínum orðum “statement leikur”, þar sem við hendum í alvöru spil. Ég vil helst sjá menn sem hafa átt erfitt, eins og Mudryk, koma inn með sprengingu í þessum leik. 5-1 sigur á borðinu, Mudryk loksins með masterclass og 2 mörk, hvorki meira né minna. Felix nær sínu marki, og Fofana fær eitt að sjálfsögðu. Watkings klórar í bakkann fyrir Villa en það er ekki nóg, þar sem Madueke kemur inn af bekknum og skorar fyrir framan the Shed End.


Munum svo að fjölmenna á Ölver. Verðum í anda með Behdad Egbhali. Hvetjum Chelsea stuðningsmenn á höfuðborgarsvæðinu til að koma og vera með.






KTBFFH!

Comments


bottom of page