top of page
Search

Dæmalausir gegn Dinamo

Keppni: Meistardeild Evrópu

Tími - dagsetning: Miðvikudagur 2. Nóvember kl 20.00

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Viaplay, Ölver og aðrir sportbarir

Upphitun eftir: Þráinn Brjánsson





Góðir hálsar! Þá er komið að síðari leik okkar manna í Chelsea gegn Króötunum í Dinamo Zagreb, í E-riðli Meistaradeildar Evrópu. Fyrri leik liðanna lauk með 1-0 sigri í Zagreb og voru það gríðarleg vonbrigði. Margir töldu að það hafi verið stór ástæða þess, að Tuchel hafi verið látinn taka pokann sinn fræga. Fyrir leikinn erum við á toppi riðilsins með 10 stig, en AC Milan fylgir fast á eftir með 7 punkta. Red Bull Salzburg fylgir Ítölunum fast á eftir með 6 stig og Dinamo rekur lestina með 4 stig. Eftir tapið í Zagreb sýndum við góðan karakter og náðum fínum úrslitum. Við eigum sannarlega að vera á toppi riðilsins, en gleymum því þó ekki að við höfum hikstað, og það hressilega, eins og gegn Brighton í síðasta leik. Á sama tíma og flautað verður til leiks á Brúnni taka AC Milan á móti Salzburg. Það er alveg á hreinu að leikmenn og þjálfarar Chelsea verða að hysja upp um sig brækurnar fyrir leikinn og fara betur yfir leikkerfi og skipulag, ef ekki á illa að fara. Þú kemst ekki upp með neitt kjaftæði gegn Króötunum eins og þeir fengu að kynnast í fyrri leiknum. Þeir mæta eins og alltaf, dýrvitlausir til leiks. Það er jú, ljóst að okkar menn eru komnir í 16 liða úrslit, en sigur gegn Zagreb setur okkur á topp riðilsins. Það gefur möguleika á þægilegri andstæðingum og að auki ber okkur að vera á toppnum.


Chelsea


Ég veit ekki alveg hvar á að byrja umfjöllun um okkar menn, eftir þeirra síðasta leik á laugardaginn var. Lið Brighton sem Potter okkar náði eftirtektarverðum árangri með, sýndi algera yfirburði og hreinlega niðurlægði bláliða. Einhvernveginn var leikurinn búinn áður en hann byrjaði. Liðsuppstillingin var að flestra mati glórulaus og virtust leikmenn Chelsea vera skíthræddir við Mávana frá suðurströndinni. Virðingin slík að í hálfleik gengu menn niðurlútir til búningsherbergja 3-0 undir og þar af tvö sjálfsmörk. Engin breyting í hálfleik en örlítil vonarglæta kviknaði þegar Kai smurði einum í skeytin, en sú von slokknaði fljótlega. Brighton menn bættu í og skoruðu fjórða markið!





Ég held að Potter hafa fengið það fullharkalega í andlitið að hveitibrauðsdögunum væri lokið, eftir gott gengi frá því að hann tók við. Ég geri mér fulla grein fyrir því að ég er frekar hvass í garð okkar manna. Ég átta mig ekki á hvað menn voru að pæla, en ég er ekki einn um það og mér fróðari menn skilja ekkert í liðsuppstillinguni, taktíkinni eða holningunni á liðinu í þessum leik. Vissulega eru lykilmenn í meiðslum, en Chelsea er einfaldlega lið sem á að geta fyllt upp í skörð með boðlegum mannskap. En jú það voru ljósir punktar þarna. Til dæmis eigum við Thiago Silva að þakka að hafa ekki fengið á okkur fleiri mörk, en þessi gaur er vart mannlegur og bjargar okkur endalaust. Kepa virðist vera að koma til baka og það verður jú, að teljast jákvætt, enda virðist Mendy vera dottinn úr stuði.


En nóg er komið af neikvæðri umræðu og nú er lag að snúa blaðinu við, bíta í skjaldarenndur, enda tel ég að þetta fari að slípast til, og Potter fari að negla niður áhrifaríkar aðferðir og árangursríka taktík. Meiðslavandræði eru að hrjá okkur og enn er talsvert í að grænhærði köggullinn hann Reece James mæti til leiks. Herra Hógværð okkar, hann N'Golo Kante er ennþá fjarri góðu gamni. Okkar eini sanni Króati, hann Mateo Kovacic er tæpur, en ekki óhugsandi að hann mæti löndum sínum og sínu gamla liði. Kalidou Koulibaly er líklega klár en ítreka "líklega". Kepa virðist vera að eiga við smávægileg meiðsli en það mun einungis vera dagaspursmál. Fofana er væntanlegur um miðjan mánuðinn. Það er greinilegt að okkur virðist mest muna um Reece James, enda hefur hann verið lykilmaður hjá okkur frá byrjun leiktíðar. Þetta verður ekki auðveldur leikur en þrátt fyrir ömurlegan leik hjá okkar mönnum síðastliðna helgi þá verður maður að leyfa sér að vera bjartsýnn og peppaður fyrir góðum leik.


Dinamo Zagreb


Það er gríðarleg knattspyrnuhefð í Króatíu og hefur Dinamo Zagreb verið í algjörum sérflokki þar undanfarin misseri. Liðið hefur fóstrað margan frægan leikmanninn og þar má nefna Dejan Lovren, Luka Modric, Mario Mandzukic og að ógleymdum okkar eina Mateo Kovacic sem lék með liðinu frá 2007 til 2013, þar af fyrstu tvö árin í akademíunni. Króatar hafa á að skipa sterku landsliði og eru í 12. sæti á lista FIFA og eru ansi margir landsliðsmenn Króata einmitt úr liði Dinamo Zagreb. Króatar spila harðan, aggressívan bolta og gefa allt í leikinn. Við höfum kynnst því allt of vel reyndar. Ætla ekki að hafa fleiri orð um þá.


Byrjunarlið:


Þá er það stóra spurningin? Hvaða ása á Potterinn uppi í erminni fyrir okkur ? Ég ætla að skjóta á 3-4-3. Ég ætla að setja Senegalska símastaurinn Mendy í markið þar sem Kepa er utan þjónustusvæðis og fyrir framan hann þá Azpilicueta, Koulibaly og Cucurella. Þar fyrir framan vil ég sjá Loftus Cheek, Jorginho, Kovacic og Chilwell. Í framlínu verða Ziyech og Havertz sem munu svo mata Aubmeyang á nokkrum glæsilegum sendingum.





Spá:


Enn og aftur verður maður að vera bjartsýnn. Segi það enn og aftur að þetta verður bras, og ekki auðvelt, en ætla að spá okkar mönnum sigri. Þetta fer 3 - 1. Spái að Kova setji eitt, Auba eitt og Havertz slengir inn einu nettu áður en Króatarnir klóra í bakkann


Góða skemmtun!





Comments


bottom of page