top of page
Search

Crystal Palace vs Chelsea - upphitun

Keppni: Enska Úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Laugardagurinn 10. apríl kl 16:30

Leikvangur: Selhurst Park

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir Hafstein Árnason

Nú þegar líður að endaspretti tímabilsins verða allir leikir að úrslitaleikjum. Það virðist nokkuð útséð að fyrstu tvö sætin verði skipuð liðunum frá Manchester. Útlit er fyrir að kapphlaupið um hin tvö meistaradeildarsætin verði milli Leicester, Chelsea, Tottenham, Liverpool, West Ham og jafnvel Everton. Að tapa stigum á þessum kafla mun reynast mjög dýrkeypt. Eftir þetta hrikalega tap gegn West Bromwich um síðustu helgi, má ekkert bregðast – en sannfærandi sigur gegn Porto í meistaradeildinni gefur okkur tilefni til að vera bjartsýn.


Crystal Palace

Í sögulegu samhengi, þá reynast nágrannaslagir við lundúnaliðin oftar en ekki mjög erfiðir. Alveg sama hvort við spilum við Spurs eða Brentford, það er alltaf meiri áhætta. Núna erum við að fara mæta á Selhurst Park. Crystal Palace hefur stundum stolið stigum af okkur og unnu m.a. báða leiki á árinu 2017. En af öllum nágrannaliðum er nánast þægilegast að mæta þeim. Covid-19 hefur ekki farið vel með Palace þar sem þeir eiga mjög öfluga stuðningsmenn. Rétt eins og hjá flestum liðum, þá eru meiðsli að trufla leikmannahóp Crystal Palace, þá sérstaklega meðal varnarmanna, en að undanförnnu hefur Hodgson þurft að tefla Kouyate í miðverði þar sem þeir eru án Sakho og Tomkins. James McArthur, Nathaniel Clyne og James McCarthy eru tæpir, eftir að hafa verið meiddir um nokkurn tíma.


Ef við þekkjum Roy Hodgson rétt, þá mun hann skipuleggja liðið að það sé þétt til baka og muni sækja hratt á Zaha, Eze, Benteke og Jordan Ayew. Þeir hafa hraða sem getur reynst hættulegt, rétt eins og í leiknum á móti West Brom. Í þessu samhengi þarf að passas að Eze fái ekki pláss með boltann, þar sem hann er klókur leikmaður. Hinsvegar er liðið að sigla lygnan sjó um miðja deild, og hafa þannig séð ekki að neinu að keppa og staðan er núna. Fyrri leiknum á þessu tímabili lauk 4-0 þar sem ölll okkar mörk komu í fyrri hálfleik.


Chelsea

Núna þurfa vissir leikmenn að stíga upp. Spennustigið hefur verið hátt í vikunni eins og sannaðist á æfingu eftir WBA hneykslið. Enginn leikmaður er skráður meiddur en Thiago Silva verður í leikbanni þannig að fastlega má búast við Christensen, Azpilicueta og Rudiger í vörninni. Antonio Rudiger hefur verið með heiminn á hornum sér eftir að Lampard kom fram við hann eins og einhvern sveitaómaga. Við þurfum svoleiðis attitjúd á völlinn og inn í liðið. Það er smitandi! Thomas Tuchel hefur spilað Reece James mjög mikið síðustu leiki og það myndi ekki koma á óvart ef Callum Hudson Odoi fengi hægri vængbakvarðarstöðuna í þetta skiptið. Marcos Alonso átti ansi dapran dag gegn WBA og Chilwell var frábær gegn Porto. Þrátt fyrir þær frammistöður myndi teljast líklegra að Alonso myndi fá annað tækifæri þannig að Chilwell mun verða klár í seinni leikinn gegn Porto.


N’Golo Kante er skráður heill heilsu, eftir að hafa komið inná í vikunni, en lítið má útaf bregða með hans meiðslamál. Það er nokkuð ljóst að hann verður að ná fullum bata til þess að geta skilað sínu hlutverki fyrir liðið. Undirritaður var búinn að gefa N’Golo alveg upp á bátinn á síðustu misserum vegna ítrekaðra meiðsla, en spilamennska hans í febrúar og mars minnti okkur all rækilega hvaða heimsklassa leikmann hann hefur að geyma. Það er því morgunljóst að borgar sig ekki að spila honum þegar hann er tæpur og það má búast við því að Jorginho og Mateo Kovacic sjái um miðjuna þar sem við verðum líklega með boltann meira og minna allan leikinn. Það myndi koma á óvart ef Billy Gilmour myndi fá tækifæri, en einhvernveginn finnst manni eins og Tuchel treysti honum ekki alveg, þegar allt er undir.


Í framlínunni þarf Mason Mount að spila. Hann hefur verið lang besti leikmaður tímabilsins og þar sér á liðinu þegar hann er fjarverandi. En líkt og með leikmenn í öðrum stöðum þarf okkar maður á fá hvíld. Sama má segja um Timo Werner, hann á skilið hvíld, en af allt öðrum forsendum. Þeir leikmenn sem virkilega þurfa stíga upp, eru Christian Pulisic, Hakim Ziyech og Kai Havertz. Það er líklegast að þeir byrji, en ég ætla að setja Tammy Abraham í liðið núna, á kostnað Havertz, þar sem þetta virðist ætla vera mómentið fyrir hann til að láta ljós sitt skína fyrir Thomas Tuchel. Ef hann fær ekki sénsinn núna, þá er erfitt að átta sig á því hvenær það á að verða, í ljósi þess hversu erfitt leikjaprógramm er framundan.


Spá

Krafan hérna er ekkert nema þrír punktar. Við þurfum að halda dampi og færa pressuna yfir á hin liðin sem berjast um meistaradeildarsætin. Spái 0-2 sigri þar sem Jorginho skorar af punktinum og Tammy stimplar sig svo inn hjá Tuchel með því að skora geggjað skallamark.


KTBFHH

- Hafsteinn Árnason

bottom of page