Keppni: Enska úrvalsdeildin
Tími, dagsetning: Sunnudagur 1. september 2024 kl: 12.30
Leikvangur: Stamford Bridge, London
Dómari: Jarred Gillet
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn sport
Upphitun eftir: Guðna Reyni Þorbjörnsson
Það hefur mikið gengið á síðustu daga. Félagsskiptaglugganum í Englandi hefur verið lokað og nokkrir leikmenn yfirgáfu okkur á lokadegi hans. Við seldum Romelu Lukaku og erum nú loksins laus við hann. Hann hefur endurnýjað kynni sín við Conte á Ítalíu og klæðist nú ljósbláum búningi Napoli, en það eru orðnar ansi margar treyjur sem Belginn er kominn með á ferilskránna. Aðrir leikmenn sem skiptu um félag í lok félagsskiptagluggans eru Kepa (Bournemouth), Petrovic (Strasbourg), Broja (Everton), Chalobah (Crystal Palace) og Sterling (Arsenal) en þessir leikmenn fóru allir á láni til þessara klúbba þannig að þetta er allavega tímabundin lausn fyrir þá og okkur. Auðvitað hefði Chelsea viljað selja þessa menn en það virðist sem klúbburinn eigi í meiri erfiðleikum með selja heldur en að kaupa. Við sitjum enn uppi með nokkra leikmenn sem við ætluðum að losa og það verður forvitnilegt að sjá hvað verður um þá á næstu dögum. Vesenistinn Jadon Sancho bættist síðan í hóp vængmanna okkar við lok gluggans í heiðarlegri tilraun sinni til að koma ferli sínum aftur á skrið. Ég viðurkenni það alveg að ég klóraði mér pínu í höfðinu yfir þessari ákvörðun en getur maður nokkuð annað gert en vonað það besta? Sancho er yfirlýstur stuðningsmaður okkar liðs og hæfileikarnir eru vissulega til staðar. Kannski þarf hann bara nýtt upphaf á nýjum stað. Okkur mistókst síðan að fá inn nýjan sóknarmann eins og stóð til. Mikið púður var lagt í Oshimen en það einfaldlega gekk ekki upp. Ivan Toney, sem líka var orðaður við okkur, skellti sér til Sádi Arabíu og við féllum á tíma að finna einhvern annan. Þetta þýðir bara að Nicholas Jackson þarf að bretta upp ermar og standa sig, en persónulega hef ég enn mikla trú á honum. Við erum líka með sóknarsinnaða vængmenn og hver veit, kannski sjáum við einhverja útgáfu af 2012-2013 Chelsea liðinu sem innihélt leikmenn eins og Oscar, Mata og Hazard, sem skiluðu fullt af mörkum og stóðsendingum fyrir okkur. Það er svakalega freistandi að fjalla betur um félagsskiptagluggann hjá Chelsea og þróun mála en það yrði of mikil langloka fyrir þennan pistil.
Við getum glaðst yfir því að okkar menn eru komnir áfram í Sambandsdeild Evrópu og verðandi andstæðingar okkar liggja nú fyrir. Gent (heima), Heidenheim (úti), Astana (úti), Shamrock Rovers (heima), Panathinaikos (úti) og Noah (heima). Allt eru þetta leikir sem við eigum hæglega að geta unnið, og ef við högum okkur eins og menn og notum þá hæfileika sem eiga heima í okkar liði, þá ættum við að sitja uppi sem sigurvegarar í þessari keppni og bæta þar með þessum nýja Evróputitil í safnið okkar. Það á í raun að vera lágmarkskrafa að vinna þessa keppni, þegar horft er yfir hin liðin sem taka þátt þá erum við augljóslega með besta og sterkasta hópinn af þeim öllum. Við komumst áfram með samanlögðum 3-2 sigri á Servette frá Sviss í tveimur leikjum. Eftir þægilegan 2-0 sigur í fyrri leiknum litu hlutirnir enn betur út fyrir okkur þegar Nkunku kom okkur yfir eftir fimmtán mínútna leik með marki úr vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Mudryk innan teigs. Þarna hefðum við átt að klára leikinn og koma okkur þægilega áfram, við fengum alveg færi til þess að gera út um leikinn, en markmaður Servette varði vel og hélt sínum mönnum inn í leiknum. Servette skoruðu síðan tvö mörk á okkur og hleyptu óþarfa spennu inn í viðureignina, en við héldum þetta út og meiri fótbolti í Evrópu bíður okkar á komandi tímabili.
En næst á dagskrá er það enska úrvalsdeildin og þar bíða okkar samborgarar okkar úr suðurhluta Lundúna, klappstýruunnendurnir í Crystal Palace. Já það er rétt, þeir eru eina liðið í ensku úrvalsdeildinni sem bjóða aðdáendum sínum upp á klappstýrur í heimaleikjum sínum, það kallar maður alvöru gestrisni. En þar sem þeir ætla að kíkja í heimsókn til okkar á Stamford Bridge þá sjáum við þær ekki í þessari umferð. Þetta er leikur í þriðju umferð ensku úrvalsdeildarinnar og jafnframt þriðji Lundúnaslagur Palace á tímabilinu. Þeir hafa tapað fyrstu tveimur leikjum sínum í deildinni nokkuð óvænt, en líkt og Chelsea, enduðu þeir síðasta tímabil mjög sterkt. Þeir fóru taplausir í gegnum síðustu sjö leiki síðasta tímabils og enduðu nokkuð þægilega í 10.sæti deildarinnar eftir að hafa ráðið hinn austurríska Oliver Glasner til sín eftir brotthvarf Roy gamla Hodgson. Það var einmitt eftir leik gegn Chelsea sem sá gamli steig frá borði, en þann leik unnum við 1-3 með tveimur mörkum frá okkar ástsæla Connor Gallagher og einu marki frá hinum argentínska Enzo. Crystal Palace spiluðu við Norwich í Deildarbikarnum í liðinni viku og unnu sannfærandi 4-0 sigur með mörkum frá Mateta (2), Eze og Kamada. Palace menn hafa verið uppteknir á félagsskiptamarkaðnum og seldu m.a. Michael Olise til Bayern Munchen fyrir góðan pening. Aðrir leikmenn sem hafa yfirgefið Palace eru Joachim Andersen til Fulham, Jordan Ayew til Leicester, Sam Johnstone til Wolves og Odsonne Edouard til Leicester. Þeir hafa keypt Chadi Riad, Daichi Kamada, Ismaila Sarr, Maxence Lacroix, Eddie Nketiah og fengu Trevoh Chalobah á láni frá okkur. Þeir héldu fast í Marc Guehi sem var orðaður burt frá þeim í sumar og var það virkilega sterkt hjá þeim. Palace eru komnir með hörkuhóp sem gæti hæglega endað í efri hluta deildarinnar ef þeir verða þokkalega lausir við meiðsli.Helstu styrkleikar þeirra eru að koma upp vængina og þá helst í gegnum Eze, og þá reyna þeir að finna Mateta inn í teig, en hann er bæði stór og sterkur leikmaður sem hefur gengið í gegnum endurnýjun lífdaga eftir komu Oliver Glasner. Við þurfum að passa vel upp á sóknarmenn Palace og einnig miðjumann þeirra, Adam Wharton, en hann er góður á boltanum og er algjör lykilmaður í uppbyggingu sóknaraðgerða þeirra. Veikleikar Palace eru að verjast skyndisóknum og ætti það að henta okkur leikmönnum mjög vel ef við verðum ekki of gráðugir og látum ekki plata okkur í rangstöður hvað eftir annað. Af þeim fjórum mörkum sem Palace hafa fengið á sig í deildinni á tímabilinu hafa tvö þeirra komið eftir klafs og mistök inn í teig, en hin tvö hafa komið eftir skyndisóknir þar sem andstæðingar þeirra hafa komið hratt á þá og afgreitt boltann í netið áður en leikmenn Palace hafa skilað sér almennilega til baka.
Ef við skoðum innbyrðis viðureignir þessara liða ættum við ekki að hafa mikið að óttast. Crystal Palace hefur aðeins unnið Chelsea fjórum sinnum í síðustu 30 leikjum og Chelsea hefur unnið Crystal Palace núna í síðustu 14 leikjum í röð. Að vísu hafa nokkrir af þeim sigrum staðið ansi tæpt, en sálfræðilega hlýtur þetta að hafa ákveðinn meðbyr með okkar mönnum. Við þurfum að fara aftur til ársins 2017, í október mánuð, til að finna síðasta tapleik okkar manna á móti þeim. Þá hjálpaði César Azpilicueta Palace mönnum yfir með klaufalegu sjálfsmarki áður en floppið Tiemoué Bakayoko jafnaði metin með skalla eftir hornspyrnu. Það var svo Wilfried Zaha sem skoraði sigurmarkið í þeim leik. Síðasta jafntefli á milli þessara liða kom í mars mánuði 1995, þannig að það er nokkuð ljóst að þessi tvö lið eru lítið fyrir að deila stigunum sín á milli.
Síðasti deildarleikur gegn Úlfunum var stórkostleg skemmtun. Jújú, við fengum á okkur tvö mörk í fyrri hálfleik, og þau hefðu hæglega geta orðið fleiri, en við skoruðum sex og þar af fjögur í seinni hálfleik. Seinni hálfleikur í þeim leik var held ég eitthvað sem fáir sáu fyrir. Chelsea voru beinskeyttir og ákveðnir í sóknarleik sínum og léku á alls oddi. Palmer lagði upp þrjú mörk fyrir Madueke sem var fullur sjálfstrausts, fékk boltann og skaut. Hann var ekki að dvelja of lengi við boltann og ef vængmenn okkar geta vanið sig á að skjóta á markið þegar þeir eru í færi þá verðum við alveg í fínum málum. Það hefur svo oft borið á því í gegnum tíðina að sóknarmenn okkar taka ranga ákvörðun á ögurstundu, en þarna var það ekki upp á teningnum. Ef við spilum með þetta sjálfstraust í sókninni er full ástæða til þess að fara með bjartsýni inn í þetta tímabil og stefna allavega á Evrópusæti. Jafnvel gætum við endað í topp fjórum ef varnarlínan og Caceido munu fara að haga sér. Við vonumst að sjálfsögðu eftir svipaðri skemmtun núna á sunnudaginn á móti Palace eins og við fengum gegn Úlfunum. Maresca og strákarnir hljóta að stefna á öruggan heimasigur, en á síðasta tímabili vann hann 17 af 23 heimaleikjum sínum með Leicester. Ég spái því að við byrjum með Sanchez í markinu. Gusto og Cucurella verða vængbakverðir með þá Colwill og Fofana í hjarta varnarinnar. Á miðjunni held ég að Caceido og Enzo byrji ásamt Palmer fyrir framan þá og á vængjunum verði Madueke og Felix með Jackson fremstan. Persónulega myndi ég vilja byrja með Nkunku í þessu liði en ég held að byrjunarliðið verði eins og hér fyrir ofan. Ég ætla að spá leiknum 4-2 fyrir okkur í bráðskemmtilegum leik. Ég hef því miður litla trú á að við höldum hreinu en sóknarmenn okkar verða í stuði. Madueke, Nkunku, Palmer og Enzo munu skipta mörkunum á milli sín. Það er landsleikjahlé framundan og það yrði mjög sterkt að fara inn í það með sigur á bakinu.
Áfram Chelsea og KTBFFH!! Við viljum svo minna fólk á að skrá sig í Chelsea klúbbinn á Íslandi, sérstaklega ef þið lesendur góðir hafið áhuga á að fara á leiki með Chelsea í vetur, þá er Chelsea klúbburinn besti milligönguliðurinn með að útvega miða. Allar nánari upplýsingar á www.chelsea.is
Comments