top of page
Search

Chelsea vs. West Ham: Leikskýrsla og einkunnirGangur leiksins

Leikurinn byrjaði ekki gæfulega fyrir Chelsea því eftir aðeins nokkrar mínútur lá Chilwell eftir óvígur á vellinum - reyndi reyndar að þrauka áfram en fór á endanum útaf fyrir Emerson. Þá náði Rice að setja að boltann í netið eftir sjö mínútna leik en var sem betur fer dæmdur rangstæður. Það var svo á 10. mínútu sem Chelsea komst yfir eftir góða hornspyrnu frá Mount sem rataði beint á kollinn á Silva. Enn og aftur gott skallamark eftir hornspyrnu og ljóst að ógnin frá skrímslunum Silva og Zouma er farin að valda andstæðingunum vægum martröðum. Eftir markið tók Chelsea öll völd á vellinum - hélt boltanum vel og átti nokkur lofandi uppspil án þess þó að ógna verulega. Þessir yfirburðir vörðu þó ekki nema í ca. korter því West Ham kom sér aftur inn í leikinn - létu finna vel fyrir sér á og voru iðnir við að sækja upp vængina. Chelsea hélt þó áfram að vera mun meira með boltann og var á köflum með um 80% “possession” Liðið átti hins vegar í erfiðleikum með að “breika” almennilega í sókninni. Werner fékk reyndar dauðafæri á markamínútunni 43., en fór illa að ráði sínu eins og svo oft áður að undanförnu. Sendingin frá Pulisic var reyndar ekki upp á 10 en Þjóðverjinn hefði klárlega átt að gera betur. 1-0 í hálfleik.

Það mætti halda að Lampard hafi boðið leikmönnum í Netflix og tjill í hálfleiknum því liðið mætti hálf sofandi út í sinni hálfleikinn. Leikmenn voru algjörlega á hælunum og maður beið nánast eftir jöfnunarmarkinu. Það lifnaði hins vegar heldur betur yfir okkar mönnum síðasta korterið. Tammy, sem var búinn að vera ansi slakur í leiknum, skoraði tvö mörk með stuttu millibili og gekk þar með frá leiknum. Virkilega kærkominn 3-0 sigur staðreynd og bláir aftur komnir á sigurbraut.


Einkunnir (0-10)

Byrjunarliðið

Mendy - 7. Hafði ósköp lítið að gera í búrinu í kvöld. Virkaði öruggur þegar hann þurfti að grípa inn í. Að vita af honum í rammanum í stað Kepa hægir þægilega vel á hjartslættinum.


Azpi - 7,5. Maður var smeykur um að það væri nett ryð í fyrirliðanum en svo var aldeilis ekki - skilaði sínu vel og rúmlega það.


Zouma - 7,5. Heldur áfram að stimpla sig inn sem mikilvægan hlekk í vörninni. Fátt upp á franska nautið að klaga.


Silva - 9. Maður leiksins. Algjör elegans frammistaða hjá þessum sanna leiðtoga og sigurvegara. Skoraði flott skallamark og stýrði vörninni eins og kóngur.


Chilwell - spilaði of lítið til að fá einkunn.


Kante - 7. Ágætis leikur hjá hlédræga Frakkanum.


Jorginho - 5,5. Ekki var Ítalinn að heilla í kvöld. Var í basli gegn baráttuglöðum Hömrum á miðjunni - vantar meiri djöfulgang í hann. Zouma þarf að taka hann á nokkrar brútal og blóðugar bekkpressuæfingar. Fór af velli þegar um 25 mínútur voru eftir - loksins.


Mount - 7. Fínasti leikur hjá Mount í kvöld og sá leikmaður sem ógnaði mest.


Werner - 6. Það er lágdeyða yfir Þjóðverjanum þessa dagana - lítið sjálfstraust og e.t.v. þreyta. Var hálf týndur á hægri vængnum í síðari hálfleik en poppaði aðeins undir lok og endar með stoðsendingu.


Pulisic - 6,5. Gekk ekki nógu vel að komast í takt við leikinn en lét ljós sitt aðeins skína undir lokin. Maður vill miera frá Captain America.


Tammy - 7,5. Var hálf gagnlaus framan af leik - gekk iilla að halda boltanum og olli litlum usla. Steig hins vegar upp í lokin með tveimur mörkum. Fær einn heilan fyrir sitthvort markið.


Varamenn

Emerson - 6,5. Var búinn að spila heilar átta mínútur í deildinni fyrir þennan leik og var þ.a.l. ryðgaður. Komst þo ágætlega frá sínu. Er samt of mikill dillibossi fyrir enska boltann.


Kovacic - 7. Var mun effektívari en Jorginho á miðjunni. Startar vonandi næsta leik á kostnað Ítalans.


Havertz - 6. Bætti litlu við leikinn.


Niðurstaða

Einstaklega vel þegið að komast aftur á sigurbraut eftir tvö gallsúr töp. Jafnframt sterkt að halda hreinu. Liðið hefur þó oft leikið betur, sérstaklega seinni part fyrri hálfleiksins og lungann úr þeim síðari. Það vantaði meiri hraða, kraft og ógn fram á við sem er í raun synd með gæða spretthlaupara á borð við Pulisic, Werner og Tammy innanborðs. Miðað við gæðin í leikmannahópnum vill maður sjá öflugri sóknarleik og meiri ró á miðjunni. Vörnin átti heilt yfir góðan leik og voru öruggir í sínum aðgerðum. Leikur sem maður hélt lengi vel að væri að renna okkur úr greipum endar með 3-0 sigri. Svona er þessi fallega íþrótt óútreiknandi. Roman mun mögulega poppa einni kampavín og dós af kavíar ofan í mannskapinn í kvöld, en hvorki vínið né kavíarinn verður úr efstu hillu.


Comments


bottom of page