Keppni: Enska úrvalsdeildin
Dag- og tímasetning: 4. júlí 2020 kl. 19:15
Leikvangur: Stamford Bridge
Hvar er leikurinn sýndur? T.d. Símanum Sport, Sky Sports og Ölver Sportbar
Upphitun eftir: Jóhann M. Helgason
Síðasti leikur
Það hefur verið saga Chelsea undir stjórn Lampard að vera sinn eigin versti óvinur. Það hefur nokkrum sinnum gerst á þessu tímabili, að okkar menn hafa sett sig í góða stöðu til þess að ýmist brúa bil eða komast upp um sæti í deidinni. Nánast undantekningalaust koðnar liðið undan pressunni í slíkum leikjum. Nákvæmlega þetta átti sér stað sl. miðvikudagskvöld er Chelsea tapaði gegn fallbaráttu liði West Ham. Leikar enduðu 3-2 og má segja að þessi leikur taki saman öll þau vandamál sem Chelsea hefur verið að glíma við á þessu tímabili; Markmannsmistök, afleiddur varnarleikur í föstum leikatriðum og bara skelfilegur varnarleikur yfir höfuð!
Þessi leikur gerði amk útslagið fyrir mig persónulega, ég vil að Lampard, Cech og Marina Granovskaia geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að kaupa miðvörð í hæsta gæðaflokki auk markmanns sem þarf bara að vera betri en Kepa (ætti að vera nóg til af þeim!). Rudiger, Kepa og Alonso áttu gjörsamlega skelfilegan leik, auk þess sem Azpilicueta gerði sig sekan og barnalega dekkningu í vörninni úr föstum leikatriðum. Christensen var eflaust manna skástur, en það eru engin meðmæli í þessum leik.
Þetta tap okkar galopnar þessa meistaradeildar baráttu. Leicester City virðast vera í frjálsu falli en tvö heitustu lið ensku Úrvalsdeildarinnar um þessar mundir eru Man Utd og Wolves og eru þau núna aðeins tveimur stigum á eftir Chelsea. Þar sem þessi tvö lið spila bæði á undan okkur á laugardeginum má búast við því að okkar menn verði komnir niður í 6. sæti þegar flautað verður til leiks Chelsea og Watford.
Chelsea
Það verður fróðlegt að sjá hvað Lampard gerir eftir þetta tap gegn West Ham. Mér finnst líklegt að bæði Reece James og Kurt Zouma komi inn í liði á kostnað Rudiger og Alonso. Lampard sagði á blaðamannafundi að Kovacic og Tomori væru frá vegna meiðsla. Mér finnst því líklegt að miðjan muni samanstanda af þeim Kanté, Mount og Barkley - nema Lampard ákveði að taka Jorginho úr frystikistunni. Loftus-Cheek og Billy Gilmour koma líka til greina. Framlínan mun svo pott þétt vera Willian, Pulisic og Giroud. Tammy Abraham er einfaldlega búinn að vera slakur eftir Covid. Pulisic og Willian eru að mínu mati búnir að vera yfirburðarmenn í þessu "Project restart" tímabili.
Watford
Fyrir nokkrum mánuðum voru flestir sparkspekingar búnir að dæma Watford niður í Championship deildina. Javi Garcia var rekinn eftir 7-8 leiki og Sanches-Flores endist ekki mikið lengur. En harðhausinn Nigel Pearson er heldur betur búinn að blása lífi í Watford. Þeir sitja núna í 17. sæti en eru eftir sem áður í mikilli fallbaráttu. Segja má að Watford séu mikið ólíkindatól, þeir hafa tapað mörgum leikjum illa á tímabilinu en voru einnig fyrsta liðið til að vinna Liverpool, og gerðu það raunar sannfærandi.
Þeirra besti maður er að mínu mati hinn leikni Ismaila Sarr. Kappinn sá er stórhættulegur vængmaður sem getur auðveldlega skapað mikinn usla. Þeir eru einnig með hörkuleikmenn í þeim Abdoulaye Doucouré og Etienne Capoue. Reynsluboltarnir Ben Foster og Troy Deeney skila svo alltaf sínu. Þess ber að gera að hinn öflugi Gerard Deulofeu er meiddur og spilar ekki.
Spá
Það eru nákvæmlega þessir leikir sem hafa reynst Chelsea hvað erfiðastir á þessu tímabili, leikirnir gegn lakari liðunum! Töpin gegn West Ham (x2), Bournemouth, Southampton og Newcastle sanna það. Þannig maður skal ekki bóka neitt fyrirfram. Það er samt auðvitað þannig að Chelsea er með nægilega mikil gæði til þess að vinna þennan leik og það sannfærandi. Ef Pulisic heldur áfram að vera ógnandi og Willian og Giroud verða í stuði er ég handviss um að Watford vörnin muni eiga í mestu erfiðleikum með okkur - þá er bara spurning hvort varnarlínan okkar ákveður að mæta til leiks eða ekki.
Spái stressandi 2-1 sigri þar sem Giroud og Pulisic setja mörkin.
KTBBFH
Comments