top of page
Search

Chelsea vs Tottenham - Nágrannaslagur á Brúnni

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Þriðjudagurinn 23. janúar kl. 16:30

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport.

Upphitun eftir: Þór Jensen


Þá er komið að sannkölluðum nágrannaslag þegar að erkifjendurnir í Tottenham Hotspurs mæta á Brúnna. Það er alltaf óþægileg að hitta fyrrverandi kærustur en það skánar þó með hverju skiptinu og nú mætum við okkar fyrrverandi í þriðja skiptið í sama mánuðinum, okkar ástkæra Antonio Conte. Sumir hafa ekki enn jafnað sig á viðskilnaðinum við Conte og það stráir salti í sárin þegar fyrrverandi er að gera góða hluti með erkióvininum og nágrannanum. Það léttir hins vegar lundina að okkar núverandi virðist vera með þá fyrrverandi í vasanum.


Chelsea

Tuchel hefur sýnt mikla taktíska snilli í síðustu tveimur leikjum gegn Spurs í Deildarbirkarnum og hefur Chelsea náð að núlla algjörlega út allt leikplan Antonio Conte. Tuchel sýndi okkur nýtt leikkerfi í leikjunum gegn Spurs, eitthvað sem við höfum ekki séð hann gera áður sem stjóri Chelsea. Tuchel var þekktur fyrir að breyta oft um leikkerfi og jafnvel skipta um leikkerfi í miðjum leik með PSG og Dortmund þar sem hann prófaði fleiri en 10 mismunandi leikkerfi á sínum tíma þar. Hann hefur hins vegar verið mjög íhaldssamur með sitt 3-4-3 kerfi hjá Chelsea og því gaman að sjá tilbreytingu á því. Það kom mér á óvart að hann skildi hafa skipt aftur yfir í 3-4-3 vængbakvarðakerfið í deildinni eftir Deildarbikarleikina gegn Spurs, í ljósi þess að kerfið hefur einfaldlega alls ekki virkað sem skyldi eftir meiðsli Chilwell og James.


Í mínum augum er þetta frekar augljóst, 3-4-3 kerfi með vængbakvörðum virkar ekki án vængbakvarða. Kerfið virkar einfaldlega ekki með Alonso og Azpilicueta í þessum mikilvægu stöðum sem reiða mikið á hraða, hlaupagetu, getu til að vinna 1 á 1 stöðurnar og fyrirgjafir. Gegn Tottenham prófaði Tuchel 4-2-2-2 kerfi sem breyttist í 3-5-2 þegar við vörðumst þegar að Ziyech droppaði niður í vængbakvörðinn. Í sóknarstöðunum sáum við einnig 3-2-3-2 og 2-2-4-2 kerfi á ákveðnum tímapunktum.


Lykillinn að kerfinu var í raun sá sami og skilaði okkur árangri með 3-4-3, að overloada annan kanntinn og skipta hratt yfir á hinn kanntinn í opin svæði. Í leikjunum gegn Spurs sáum við Timo Werner halda breiddinni og teigja á vörn Tottenham á meðan við settum yfirtölu á hinn vænginn og skiptum svo hratt yfir á Timo sem fann oft mikið pláss úti hægra meginn. Tottenham spiluðu 3-4-3.


Hakim Ziyech hélt vinstri-vængbakverði Tottenham (Doherty) uppteknum og hægri-vængbakvörðurinn (Emerson) pressaði Alonso til að koma í veg fyrir overload-skiptinguna, þetta opnaði mikið pláss á milli Emerson og Tanganga (hægri-hafsent) sem Mount gat nýtt sér. Mount spilaði lykilhlutverk, sérstaklega í fyrri leiknum gegn Spurs, í vinstri “tíunni” (LAM), sömu stöðu og Neymar spilaði reglulega fyrir Tuchel hjá PSG. Hvort sem Emerson pressaði hátt eða hélt sig neðar á vellinum hafði Mount mikinn tíma og pláss þegar hann fékk boltann í þessari stöðu. Þegar Skipp, miðjumaður Spurs, elti Mount skildi hann eftir pláss sem að Jorginho og Saúl nýttu sér til að bera boltann upp völlinn.

Tottenham

Spurs verða sem betur fer án Son, sem gerði reyndar ósköp lítið í bikarrimmunum gegn okkur. Tottenham vann ótrúlegan 3-2 sigur á Leicester með tveimur mörkum í uppbótartíma í síðustu umferð deildarinnar og eru á miklu flugi í deildinni þessa dagana. Liðið hefur enn ekki tapað í deildinni undir stjórn Conte og hann er að sanna enn og aftur að hann er einn allra besti þjálfarinn í heiminum. Með sigri gegn okkur geta þeir komist upp í 39 stig og upp í 5. sætið, aðeins 5 stigum á eftir okkar mönnum og heila fjóra (!!) leiki til góða. Conte mun vilja bærta upp fyrir töpin í Deildarbikarnum og munu Spursarar ábyggilega koma vel gíraðir inn í leikinn.


Byrjunarliðið

Eins og svo oft áður er erfitt að giska á rétt byrjunarlið hjá Chelsea, en svona spái ég liðinu gegn Spurs:


Aðrir leikmenn sem gætu komið inn í þetta eru Havertz og Jorginho, annars hugsa ég að þetta sé nokkuð nærri lagi. Það verður áhugavert að sjá hvort að Tuchel haldi sig við 3-4-3 í deildinni eða fari aftur í 4-2-2-2 / 3-5-2 sem var svo skilvirkt gegn Tottenham í bikarnum.

Ég spái okkar mönnum fyrsta sigri ársins í deildinni og fjórða sigrinum síðan 1. desember. Okkar menn einfaldlega þurfa lífsnauðsynlega á sigri að halda til að dragast ekki niður í baráttuna um Meistaradeildarsæti, þar sem ansi mörg lið eru að spila miklu betri fótbolta en við þessa dagana.


Okkar menn vinna 2-1 sigur með mörkum frá Mason Mount og Timo Werner.

KTBFFH

Þór Jensen



Comments


bottom of page