top of page
Search

Chelsea vs Norwich - Fallnir fuglar mæta á Stamford Bridge

Keppni: Enska Úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 14. Júlí kl 19:15

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport, Sky Sports og Ölver Sportbar

Upphitun eftir Snorra Clinton



Chelsea

Jæja, nú er heldur betur að duga eða drepast fyrir okkar ástkæra lið. Þegar þetta er skrifað sitjum við í þriðja sæti deildarinnar með eins stigs forskot á Leicester og tvö á Man Utd. Aftur á móti á Manchester leik til góða á móti Southampton sem var að hefjast (þegar þessi pistill er skrifaður). Ég treysti því stuðningsmenn góðir að við séum öll að senda hlýja strauma til dýrlinganna á Trafford í þeirri von að þeir nái stela stigum þar, líkt og Bournemouth gerði við Leicester í gærkvöldi. *Innskot ritstjóra: Þegar ég er að setja þenna pistil inn á síðuna liggur fyrir að Man Utd og Southampton gerðu jafntefli - fögnum við því innilega.


Vindum okkur í þessa upphitun og byrjum á að fara yfir síðasta leik okkar manna. Eitt af fyrstu upphitunum sem ég ritaði á þessari leiktíð var einmitt eftir fyrri leikinn á móti Sheffield. Eftir fyrri leikinn hafði ég lítið, ef nokkuð jákvætt að segja um leik okkar manna. Þið eruð væntanlega búin að átta ykkur á því að hljóðið í mér ekki að fara vera jákvæðara eftir leik okkar manna á laugardaginn var. Við vorum einfaldlega rassskelltir í gær, 72% possession á boltanum hefði alveg eins getað verið 1%. Ég ætla mér ekkert að taka af Sheffield mönnum, þeir mætti skipulagðir til leiks og fína áætlun um hvernig þeir ætluðu að spila leikinn og það tókst upp á 10 hjá þeim. Okkar menn, þá sérstaklega vörnin, ákváðu greinilega að mæta í stígvélum til leiks, alla vega litu þeir út fyrir það, varnarleikurinn var það hroðalegur. Lampard átti ekkert svar við varnarleik Sheffield og þær taktísku breytingar sem gerðar voru höfðu ekkert að segja. Okkar menn voru einfaldlega skelfilegir í þessum leik. Lampard gerði breytingar í hálfleik og setti Alonso og Rudiger inná, ekki hjálpaði það liðinu mikið því þessir ágætu leikmenn mættu líka í stígvélum og gerðu lítið sem ekkert til að hjálpa liðinu. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að þetta hafi verið versti leikur sem liðið hefur spilað síðan Super Frank tók við og margt þarf að breytast ætli liðið sér að tryggja sér Meistaradeildar sætið.


Nú er röðin komin að Norwich, en liðið hefur ekki unnið deildarleik síðan 28. Febrúar og hafa þeir þegar tryggt sér þátttökurétt í Championship deildinni á næsta ári. Það er þessi tölfræði sem hræðir mig og veldur því að ég sé langt frá því að vera sigurviss fyrirfram. Eins og þið öll þekkið eru þetta liðin sem hafa verið að valda okkur miklum vandræðum og oftar en ekki stolið stigum af okkur. Það er því erfitt að spá því fyrir hvernig Lampard mun stilla upp liðinu í ljósi þess hversu skelfileg vörnin hefur verið. Ég tel þó nokkuð víst að Azpi og James muni sitja sem fastast fyrir í bakvarðarstöðunum, og í miðverðinum verði þeir Zouma og Rudiger. Vonum bara að þeir mæti allir til leiks með takkaskónna reimaða fast á en ekki í stígvélum sem eru 2 númerum of stór. Upp á miðjunni finnst mér líklegt að þeir Mount, Jorginho og Kovacic byrji, þó gæti ég einnig alveg eins átt von á að RLC byrji í stað Jorginho. Í fremstu víglínu verða svo áfram þeir félagar Pulisic og Willian, þeir hafa verið okkar LANG bestu leikmenn eftir Covid pásuna. Þeim til halds og trausts verður svo Oliver Giroud en hann hefur einnig verið í frábæru formi síðan boltinn byrjaði aftur að rúlla. Því miður hefur Tammy einfaldlega verið arfa slakur í lengri tíma. Ég og margir aðrir stuðningsmenn bundu miklar vonir við hann fyrir þetta ár en því miður er hann að sýna það að hann er enn ekki orðinn nægilega góður til að leiða sóknarleik Chelsea, því er koma Werner kærkomin.

Norwich

Hvað er hægt að segja um Norwich? Liðið er fallið og því ekkert fyrir þá til að spila um nema í besta falli stoltið. Eins og áður hefur komið fram hafa þeir ekki unnið leik síðan í febrúar lok. Ég gæti trúað því að leikur okkar á móti Sheffield hafi gefið þeim byr undir báða vængi og aukið sjálfstraust. Vitandi það hvað varnarleikur Chelsea er brothættur getur hæglega gefið þeim blóðbragð á tennur. Þeir eru væntanlega að fara inn í þennan leik vitandi það að þeir séu að fara vera með boltann í besta falli 35% af tímanum. Þeir hafa jafnframt séð að það hefur lítið að segja ef vörnin er góð og geta þeir búið sér til mat úr 35% possession. Ég geri ráð fyrir að þeir mæti til leiks með bullandi trú á þessu verkefni.

Spá

Okkar menn eru klárlega særðir eftir síðustu úrslit sem og leikinn á móti West Ham. Ég sætti mig því ekki við neitt annað en að við mætum til leiks eins og sært dýr sem berst fyrir tilvist sinni. Því við erum svo sannarlega í hörku baráttu um meistaradeildarsætið og að berjast fyrir þátttöku okkar þar á næsta tímabili. Þetta er leikur sem við EIGUM að vinna og panta ég með og spái 3-0 sigri með mörkum frá Pulisic, Willian og Giroud.

Comments


bottom of page