top of page
Search

Chelsea vs Morecambe

Keppni: FA Bikarinn

Dag- og tímasetning: Sunnudagurinn 10. Janúar kl 13:30.

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur: Stöð 2 Sport 3

Upphitun eftir: Stefán Marteinn Stefánsson

Chelsea

Það er komið að því!

FA bikarinn fer að rúlla og Úrvalsdeildarfélögin eru að mæta til leiks og þar á meðal eru okkar menn, silfur lið keppninar frá því á síðasta tímabili.


Gengið síðustu vikur hefur ekki verið sérlega gott, svo vægt sé til orða tekið. Það vita allir hver staðan er og óþarfi að eyða orðum í það, í það minnsta hefur undirritaður meiri áhuga á að horfa fram veginn og fókusera á bjartsýnu hliðina í lífinu. Ég ætla þess í stað að taka stutta yfirferð yfir sigra Chelsea í FA bikarnum í gegnum tíðina.


Chelsea hefur 14 sinnum leikið til úrslita um FA bikarinn og hrósað sigri í 8 af þeim skiptum. Chelsea vann keppnina í fyrsta skiptið tímabilið 1969-70 þegar við lögðum sterkt lið Leeds af velli í 2 leikjum. Keppnisfyrirkomulagið þarna var ekki komið í vítaspyrnukeppni heldur var framlengt og ef það var jafnt eftir framlengingu þá var bara annar leikur. Við byrjuðum á því að gera 2-2 jafntefli í fyrri leik liðana en sigruðum svo Leedsarana 2-1 eftir framlengingu í seinni leiknum þar sem David Webb reyndist hetja okkar manna með sigurmarkið á 104’min.


Löng bið var eftir næsta FA bikar en hann kom tímabilið 1996-97 undir stjórn Ruud Gullit en þar bárum við sigurorð af liði Middlesbrough 2-0 með mörkum frá Roberto Di Matteo sem skoraði stórkostlegt mark strax á 1.min (mæli með að skoða það á youtube) og Eddie Newton.


Næsti FA bikar kom svo 2 árum síðar þar sem við sigruðum Aston Villa 1-0 með marki frá Roberto Di Matteo.


Næstir á svið voru svo gullöldin okkar eða “The Roman Empire” sem sigruðu keppnina 4 sinnum á 6 árum. Við bárum sigurorð af Manchester United 1-0 2006-07 tímabilið með marki frá Didier Drogba í uppbótartíma. Við sigruðum Everton 2-1 árið 2009 með mörkum frá Didier Drogba og Frank Lampard. Við vörðum svo bikarinn árið eftir með því að leggja Portsmouth af velli 1-0 með marki frá Didier Drogba. Við sigruðum svo Liverpool 2011-12 tímabilið 2-1 með mörkum frá Ramires og Didier Drogba. Já, Didier Drogba elskaði úrslitaleiki FA bikarsins. Síðasti FA bikar kom svo tímabilið 2017-18 þegar Eden Hazard tryggði okkur bikarinn af punktinum gegn Manchester United.


Þess má til gamans geta að Chelsea er 3. sigursælasta lið keppninnar (jafnir 8 sigrum með Tottenham) á eftir Arsenal sem hefur unnið keppnina 14 sinnum og Manchester United sem hefur unnið keppnina 12 sinnum.Liðið

Ég á ekki von á neinu öðru en að Frank Lampard nýti þennan leik í að gefa “minni spámönnum” mínútur undir beltið. Ég rakst á áhugaverða staðreynd um Chelsea U23 sem hefur spilað gegn League 1 og 2 liðum í EFL Trophy síðan 2016. Þeir hafa unnið eða gert jafntefli í 11 af 18 leikjum sínum þar sem meðalaldur leikmanna sem spilað hafa þessa leiki hefur verið ekki mikið meira en 19 ára.


Það er því ljóst að sama hvaða liði Frank Lampard teflir fram þá á þetta að vera klár skyldusigur og þægilegur að auki.


Ég reikna með að Kepa fái að taka fram hanskana í þessum leik. Azpilicueta mun leiða liðið út á völl og taka stöðu hægri bakvarðar. Antonio Rudiger og Fikayo Tomori manna miðvarðarstöðurnar. Emerson leysir Chilwell af í vinsti bakverði. Miðjan mun svo saman standa af Billy Gilmour, Lewis Bate og Kai Havertz. Fremstu þrír reikna ég með að verði Callum Hudson-Odoi hægra meginn, Tino Anjorin vinstra meginn og Timo Werner uppi á topp.Simon Johnson blaðamaður fyrir The Athletic greindi frá því fyrir áramót að Lewis Bate væri farinn að æfa með aðalliðinu og væri horft til þess að hann gæti fengið “debut” í þessum leik gegn Morecombe og Lampard staðfesti á blaðamannafundi fyrir leik að yrði í hóp ásamt Henry Lawrence, Tino Livramento og Jude Sounsoup-Bell.


Morecambe

Okkar allra bestu menn í Morecambe eru á rönni þessa dagana og hafa t.a.m. unnið 4 af síðustu 5 í deild og sitja sem stendur í 7.sæti League 2 deildarinnar á Englandi. Þeir eru með gælunafnið “rækjurnar” eða “The Shrimps”. Sluppu við fall síðasta tímabil þegar deildin var flautuð af en þeir enduðu í 22.sæti af 24 eða einu sæti fyrir ofan fallsvæðið. Undirritaður getur ekki sagt að hann þekki til leikmanna í liðinnu og get því ekki lagt mat á það hverja þarf að varast.


Spá

Frank Lampard þarf að fara lægja öldurnar og þarf því nauðsynlega á þægilegum sigri að halda. Allt undir 3ja marka sigri telst óásættanlegt og því ætla ég að gerast það brattur og spá 7-0. Menn mæta æstir og ómlir í að sanna sig og uppskera þægilegan sigur. Timo Werner kemst á bragðið þegar hann bregður af vananum með stöngin út skoti og nær að færa sig yfir í sko sem endar í stönginni og inn. Billy Gilmour kemst á blað áður en Werner klárar þrennuna fyrir leikhlé. Kai Havertz kemst á blað í seinni hálfleik ásamt Callum Hudson-Odoi. Timo Werner fær svo heiðursskiptinu fyrir Tammy sem rekur síðasta naglann fyrir leikslok.


KTBFFH

- Stefán Marteinn

Comments


bottom of page