top of page
Search

Chelsea vs. Liverpool - Fyrsti stórleikur tímabilsins


Keppni: Enska Úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 20. setpember kl 15:30

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur: Síminn Sport, Sky Sports ofl.

Upphitun eftir: Snorra Clinton og Garðar Axel Torfason (gestapenni)

Chelsea

Í fyrstu umferð fóru okkar menn í heimsókn til Brighton & Hove Albion. Frank Lampard frumsýndi þar tvo af nýju mönnunum sem komu í sumar, þá Timo Werner og Kai Havertz. Leikurinn verður þó seint sakaður um að hafa boðið upp á flugeldasýningu og var frekar látlaus á köflum. Í raun mætti segja að ótrúlegt sé að Chelsea hafi unnið 1-3 þar sem liðið var langt frá því að vera sannfærandi, þetta eiginlega bara mjakaðist áfram án þess að líta út eins og mikil keppni. Brighton byrjaði leikinn af miklum krafti og einhvern veginn, gegn gangi leiksins, gáfu þeir víti og eftir það var ekki litið til baka. Það er einn leikmaður hjá Brighton sem leit fáranlega vel út. Það var fyrrum Chelsea maðurinn Tareq Lamptey. Þessi ungi maður olli miklum usla í vörn Chelsea og Alonso okkar réð bara ekkert við hann. Alonso greyið leit oftar út eins og belja á svelli þegar Lamptey nálgaðist boxið okkar og þurfti hann að treysta ítrekað á hjálp frá Mason Mount. Það verður gaman að fylgjast með honum vaxa hjá suðurstranda liðinu.


Þó svo að spilamennska okkar manna í þessum leik fari í sögubækurnar og sumir leikmenn vilja eflaust gleyma honum sem fyrst, þá fengum við að sjá glitta í góða hluti sem við getum verið spenntir fyrir sem stuðningsmenn liðsins. Timo Werner fiskaði vítaspyrnu og sýndi alveg hreint magnaða vinnusemi sem vonandi á eftir að smitast betur í liðsheildina. Er það mitt mat að hann hefði sett mark í leiknum ef RLC hefði ekki átt hroðalegan leik, en þeir tveir komu sér í frábæra stöðu til að setja mark á heimamenn en ekki fór svo vel þar sem sending frá RLC til Werner var ekki nægilega góð.


Kai Havertz fór einnig í treyjuna í fyrsta skipti fyrir Chelsea. Ég held að góð væntingastjórnun skipti sköpum yfir hvernig má meta hans framistöðu í leiknum. Hann var ekki að spila í sinni bestu stöðu og er enn að tengjast liðinu og byggja upp sína dínamík með nýjum liðsfélögum, n.b. þá er Werner þegar búinn að vera æfa í 3 mánuði áður en hann spilaði sinn fyrsta leik með Chelsea. Gefum stráknum þolinmæði og ég er sannfærður um að hann eigi eftir að vera goðsögn hjá klúbbnum, sanniði til.


Þá er það meiðslalistinn. Lampard staðfesti það á blaðamannafundi að Werner væri klár eftir smá högg í vikunni sem eru frábærar fréttir. Á sama tíma staðfesti hann að leikmenn eins og Chilwell, Pulisic, Ziyech og Silva yrðu ekki með sökum meiðsla, í tilfelli Silva er hann einfaldlega ekki kominn í leikform enda stutt síðan hann hóf æfingar með liðinu. Við aðdáendurnir verðum því að bíða aðeins lengur eftir því að sjá þessa menn stíga inn á völlinn fyrir þá bláklæddu. Góðu fréttirnar eru þó að Kovacic snýr aftur úr banni og verður tiltækur fyrir Super Frank.Þá er það hugsanlegt byrjunarlið Chelsea. Þar sem ekki er búið að ganga frá kaupum á Mendy þá mun Kepa standa á milli stanganna í þessum leik (krossleggjum puttana og vonumst til að hann eigi stórleik). Lampard mun ekki gera neina breytingu á miðvarðarpari frá því í síðasta leik þar sem Zouma og Christensen stóðu sig með prýði og fá þeir að launum að halda stöðu sinni alla vega í næsta leik. Miðað við hvað Lamptey rassskellti Alonso þá hef ég enga trú á að hann fái að byrja þennan leik, ég spái því að Lampard færi „Dave“ yfir í vinstri bakvörðinn og Reece James haldi áfram uppteknum hætti í stöðu hægri bakvarðar, en hann átti frábæran leik á móti Brighton og var valinn maður leiksins í kjölfarið. Havertz heldur áfram í byrjunarliði Chelsea og mun vera fremstur á miðjunni með þá Kante og Kovacic fyrir aftan sig. Fremstir verða svo auðvitað Turbo Timo frammi, Mount á vinstri vængnum og Odoi á þeim hægri.


Liverpool

Gesta penni CFC.is í þessari viku er Liverpool maðurinn Garðar Axel Torfason. Hann hefur stutt við bakið á Liverpool frá blautu barnsbeini og því enginn annar sem kom til greina en hann til að taka saman nokkur orð fyrir hönd Liverpool en hann. Bjóðum hann velkominn til leiks 😊


Liverpool fékk Leeds í heimsókn í fyrsta leik tímabilsins og sá leikur hafði uppá allt að bjóða. Sem betur fer endaði hann með sigri Liverpool. Vörnin var ekki uppá sitt besta í þeim leik en menn verða vonandi búnir að hrista það af sér á móti Chelsea. Það er ljóst að ekki má mikið útaf bregða til að eiga möguleika á sigri á Brúnni. Leikirnir á móti Chelsea hafa verið magnaðir oft á tíðum og mikil skemmtun og reikna má að þessi leikur verði ekkert öðruvísi. Chelsea er búið að styrkja sig mikið með topp leikmönnum. Vonin er sú að Lampard verði ekki búinn að slípa þetta lið saman eftir einungis einn leik því hópurinn er mjög spennandi hjá Chelsea. Mín spá er 1-3 fyrir Liverpool. Held að sú staðreynd að Liverpool er með hóp sem hefur spilað lengur saman og þekkjast vel á eftir að skila sér en Liverpool verður samt að passa sig á sókninni hjá Chelsea sem er gríðarlega sterk og því verður vörnin að standa sig 100%.

Ég spái að Klopp stilli upp byrjunarliði sínu svona:


Spá

Spáin hjá honum Garðari hér á undan er vonandi algjör þvæla 😊. Aftur á móti fer hann ekki með rangt mál hvað varðar gæði og spilamennsku sinna manna. Þrátt fyrir að fyrsti leikur hafi unnist 3-1 verða okkar menn að vera mun skæðari fyrir framan markið og töluvert einbeittari í varnarleiknum ef við ætlum okkur stig úr þessum leik. Á síðustu leiktíð höfum við átt fínt tök á Liverpool og alls ekki langt frá því að vinna þá í nokkrum leikjum. Ég ætla að spá því að loksins náum við að krækja í stigin 3 með mörkum frá Werner og Mount, Liverpool mun leiða 0-1 í hálfleik með marki frá Salah en lokatalan verður 2-1 fyrir þeim bláu.

- Snorri Clinton

Comentários


bottom of page