top of page
Search

Chelsea vs Fulham - Upphitun og þáttur af Blákastinu

Keppni: Enska Úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Laugardagurinn 1. maí 2021 kl 16:30

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir: Jóhann M. HelgasonNeðst í færslunni er hægt að hlusta á glóðvolgan þátt af Blákastinu sem tekinn var upp í kvöld.


Chelsea fá nágranna sína í Fulham í heimsókn á Stamford Bridge seinni part laugardags. Leikurinn er gríðarlega þýðingarmikill fyrir bæði lið, Chelsea verður að vinna til þess að halda hinu mikilvæga fjórða sæti og Fulham eru í bráðri fallhættu þar sem ekkert annað en sigur kemur til greina.


Þessi leikur kemur inn á milli leikjanna gegn Real Madrid og þess vegna hafa margir áhyggjur af því að einbeitingin verði meira á Meistaradeildinni. Thomas Tuchel tók fyrir allt slíkt tal á blaðamannafundinum í dag - Fókusinn verður á þessum leik.


Tuchel staðfesti að bæði Mateo Kovacic og Toni Rudiger væru meiddir í þessum leik og væru einnig báðir mjög tæpir fyrir leikinn gegn Real í næstu viku - þetta er mikið áfall. Það kom bakslag í meiðsli Kovacic sem gera það að verkum að hann verður lengur frá en fyrst var talið. Minna er vitað um meiðsli Rudiger - vonandi nær hann leiknum gegn Real.


Varðandi liðsuppstillinguna að þá mun Tuchel líklega halda sig við 3-4-2-1 leikkerfið. Ég spái því að Azpilicueta fari aftur í "sína" stöðu í vörninni og að með honum verði þeir Christensen og Zouma, þannig Silva fær pásu í þessum leik. Ég held að Tuchel komi á óvart og setji Hudson-Odoi í hægri vængbakvörð og að Alonso fái startið vinstra megin.


Miðjan er örlítið vandamál. Það virkaði engan vegin að láta Mount spila þar gegn Brighton, enda er hann ekki hreinræktuð "sexa". Jorginho er búinn að spila mjög mikið og var farinn að sýna þreytumerki gegn Real Madrid í seinni hálfleiknum. Ég sé samt ekki neitt annað í stöðunni en að Tuchel spili bara Kante og Jorginho því hann virðist einfaldlega ekki treysta Billy Gilmour - ég vona samt að Billy byrji og verði þá á miðjunni ásamt eða Kante. Hann hefur líka valkost á að nota Reece James á miðjunni, en ég tel það ekki líklegt.


Tuchel á svo fjölmarga valkosti í framlínunni. Eitthvað segir mér að hann hvíli Mason Mount í þessum leik og spili Havertz, Ziyech og Pulisic. Mögulega gætum við séð Tammy eða Giroud uppi á topp en það kæmi á óvart m.v. hvað þeir hafa spilað lítið upp á síðkastið.Fulham

Ég hef haldið pínulítið með Fulham á þessu tímabili, þeir reyna að spila skemmtilegan fótbolta og hafa sterka Chelsea tengingu í Ola Aina, Loftus-Cheek og auðvitað Scott Parker. Því miður hefur þetta tímabil verði "stöngin út" hjá litla bróður okkar í London og lítið annað en fall sem blasir við þeim. Fulham sitja í 18. sæti, heilum sjö stigum á eftir Brighton sem eru í 17. sætinu. Það eru aðeins fimm leikir eftir, og því er staðan ansi dökk.


Það er helst sóknarleikurinn sem er búinn að svíkja Fulham á þessu tímabili, þeir hafa aðeins skorað 25 mörk í 33 leikjum, aðeins Sheffield Utd státa af verri sóknarleik. Vörnin þeirra hefur hins vegar staðið sig mjög vel með Danann Joachim Andersen og markvörðinn Areloa fremsta í flokki. Þeir hafa tólftu bestu vörnina og hafa t.d. fengið á sig jafn mörg mörk og West Ham.


Þeirra hættulegustu menn fram á við eru klárlega hinn eldsnöggi Ademola Lookman og Bobby Decordova-Reid. Aleksandar Mitrović hefur verið að koma aftur inn í liðið eftir að hafa þolað mikla bekkjarsetu í vetur.


Spá

Þessi leikur á að vera "walk in the park" fyrir okkar menn en eftir harmleikinn gegn WBA og hina döpru frammistöðu gegn Brighton veit maður aldrei við hverju skal búast. Eins og kemur fram hér að ofan eru Fulham þéttir fyrir og geta á sínum degi spilað hörkugóðan fótbolta.


Ætla að spá 2-0 sigri þar sem Ziyech og Havertz skora mörkin.


KTBFFH

- Jóhann Már


Comentários


bottom of page