Keppni: Enska úrvalsdeildin
Dag- og tímasetning: 14. Desember kl 15:00
Leikvangur: Stamford Bridge
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport, NBCSN
Upphitun eftir: Snorra Clinton
Chelsea
Í síðasta leik okkar mann mættum þeir franska liðinu LOSC Lille Métropole í Meistaradeild Evrópu. Fyrir þennan leik var Bláa lestin heldur betur búin að vera hikstandi, aðeins einn sigur í síðustu fjórum leikjum og þar af töp á móti liðum eins og West Ham og Everton, en þau lið hafa verið í frjálsi falli. Af því sögðu var kannski ekki skrýtið að maður hafi verið með hnút í maganum fyrir leikinn á móti Lille, þar sem tap hefði kostað okkur frekari þátttöku þetta árið.
Það gladdi eflaust marga stuðningsmenn að sjá menn á borð við Emerson og Jorginho aftur í liðinu og það gladdi sérstaklega að sjá Rudiger snúa aftur í hópinn og það í byrjunarliðinu. Það vantaði ekki drifkraftinn í Chelsea fyrstu 70 mín eða svo. Strákarnir hans Super-Frank stjórnuðu leiknum í einu og öllu og voru duglegir við að skapa færi. Með smá herslumun hefði Chelsea getað farið inn í hálfleikinn með meiri mun en raunin varð. Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri og um algjöra einstefnu var um að ræða. Þegar líða tók á hálfleikinn fengu frönsku gestirnir blóð á tennurnar þegar fyrrum leikmaður Chelsea, Loic Remy minnkaði muninn fyrir gestina. Því miður gáfum við þeim færi á að komast aftur inn í leikinn með markinu og voru þeir staðráðnir að ná stigi af Brúnni. Á þessum tímapunkti voru okkar menn einu marki bæði frá því að vinna riðilinn eða sitja eftir með sárt ennið. Ajax var undir í Amsterdam og með jöfnunarmarki hefðu þeir sent Valencia heim og við unnið riðilinn. Aftur á móti ef Lille hefði náð að jafna á Brúnni hefði það tryggt Ajax og Valencia farmiðana í 16-liða úrslitin.
Þar sem Rudiger er snúinn til baka út meiðslum minnkar meiðslalistinn okkar enn frekar. Í raun er það bara Ruben Loftus-Cheek sem við stuðningsmenn bíðum ólmir eftir að fá til baka. Ég trúi því að Lampard geri ekki allt of miklar breytingar fyrir leikinn á móti Bournemouth. Aðal skúrkurinn okkar, hann Kepa, verður áfram á milli stanganna og varnarlínan verður óbreytt frá Lille leiknum fyrir utan þess að James kemur inn fyrir Emerson og Azpi fer yfir á vinstri kantinn. Á meðan Kovacic heldur áfram að spila eins og Króatíski Iniesta mun hann halda öðrum á bekknum. Ég skýt á það að miðjan hjá okkur verði óbreytt frá síðasta leik þeas Kovacic – Jorginho - Kanté og sömuleiðis sóknarlínan Pulisic – Tammy – Willian.
Bournemouth
Eins og fyrr segir munu Eddie Howe og lærisveinar hans gera sér ferð á Brúnna á laugardaginn kemur og hefst leikurinn kl 15:00. Fyrir leikinn sitja þeir í 15. sæti deildarinnar með 16 stig. Hefur liðið aðeins unnið tvo leiki af síðustu tólf í öllum keppnum og þar af tapað 5 leikjum í röð í deildinni. Síðasti sigur liðsins kom á móti Man Utd í byrjun nóvember. Undir venjulegum kringumstæðum myndu flestir fagna og sjá gott til glóðarinnar út af stöðu andstæðingsins fyrir leik. Verður þetta fjórði leikurinn í röð í deildinni þar sem við mætum liði sem er að daðra við fallsæti (West Ham – Aston Villa – Everton) og höfum við aðeins náð þrem stigum af 9 í þeim leikjum. Af því gefnu gefur augaleið að gestirnir verða sýnd veiði en ekki gefin. Lampard hefur réttilega sagt í viðtölum eftir síðustu leiki að bláliðar eiga enn langt í land hvað varðar að spila á því leveli sem hann vill, færin eru ekki vel nýtt, margar sóknir of flóknar ásamt því að við erum að fá á okkur allt of mikið af klaufalegum mörkum. Ef ekki á að fara fyrir okkur líkt og á móti West Ham og Everton þarf liðið að leysa þessi vandmál fyrir laugardaginn kemur. Ég hef fulla trú á að Lampard nái að vinna úr þessum vandamálum gegn Bournemouth og sigla þrem stigum í hús á laugardaginn kemur.
Mín spá; 3-1 Tammy með 2 og Pulisic með það þriðja. Callum Wilson mun ná að klóra í bakkann fyrir gestina rétt fyrir hálfleik.
Comments