top of page
Search

Chelsea vs. Arsenal - Nágrannaslagur á Stamford Bridge

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Þriðjudagurinn 21. janúar

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport, NBCSN, BT Sport 1 og BT Sport

Upphitun eftir: Snorra Clinton



Chelsea

Á þriðjudagskvöldið fáum við nágranna okkar, Arsenal í heimsókn rétt rúmum þrem vikum eftir að við stálum sigrinum á Emerates stadium. Ef ætti að nota einungis eitt orð til að lýsa okkar ástkæra klúbbi síðustu tvo mánuði væri það orð „óstöðugleiki“. Aðeins tveir sigrar í síðustu fimm leikjum í deildinni og dýrmæt stig farið út um gluggann á móti minni spámönnum sem á blaði er aðeins spurning um að mæta til að krækja í þrjú stig.


Það var því lítil breyting upp á teningnum á laugardaginn var þegar Chelsea gerði sér ferð norður til Newcastle. Leikurinn spilaðist nokkurn veginn eins og flestir stuðningsmenn spáðu, strembinn leikur á móti liði sem varla hleypur í sókn nema það sé skyndisókn. Steve Bruce er greinilega gríðarlega hrifinn af þessum leikstíl og ekki bara á móti okkar mönnum líkt og í fyrri leik liðanna á Brúnni. Samtals hafa framherjar Newcastle skorað eitt já EITT mark og hafa varnarmenn liðsins skorað 10 af 22 mörkin liðsins það sem af er tímabilsins og liðið aðeins með boltann rúmlega 33% að meðaltali í leik. Þetta virðist þó vera virka ágætlega fyrir Steve Bruce og hans lærisveina því þetta er að skila liðinu meiri árangri en oft áður. Þessi spilamennska tryggði það að þeir héldu hreinu og náðu að krækja sér í stigin þrjú þegar loka mínúta uppbótartímans var að líða. Þetta tap sveið sárt í ljósi þess að skallinn frá Hayden var laflaus og hægt er að færa mjög sterk rök fyrir því að „lélegasti markvörður“ deildarinnar (skv. tölfræði) hefði átt að verja. Ég leyfi lesendum að dæma um það á eigin spýtur.

Hvað varðar liðsvalið hjá Lampard fyrir þennan leik kemur mér lítið á óvart. Bjóst ég þó við að Kovacic byrjaði leikinn en þar sem Lampard vildi eflaust fá meiri sóknarþunga á miðjuna til að svara þéttum varnarleik Newcastle fannst mér rökrétt að Mount tæki hans stað í byrjunarliðinu að þessu sinni. Aftur á móti ætla ég að leyfa mér að segja það hreint út að mér fannst galið að setja Barkley inn á í stað Kovacic. Drengurinn virðist ekkert ætla þróast sem leikmaður og hefur í besta falli verið efnilegur síðustu árin, það mætti segja að hann sé okkar Jesse Lingard.


Ef við færum okkur yfir í jákvæðu hliðar leiksins þá var unun að fylgjast með James og Odoi á hægri kantinum. Það var mikið líf í þeim félögum og fyrirgjafirnar frá James voru til fyrirmyndar og sköpuðu mikið vesen fyrir varnarmenn Newcastle. Undirritaður var nánast farinn að búast við marki við hverja spyrnu frá honum. Hver veit, ef James hefði ekki þurft að fara af velli vegna meiðsla hefðum við jafnvel getað sett á þá mark. Einnig fannst mér Christensen sýna meiri ákefð og hörku en undanfarið, hann hefur kannski tekið til sín orð Lampard á blaðamannafundi að hann þurfi að vera mun líkamlegri í þessari deild.


Ég tel mig knúinn að bæta örlítið við þennan pistil og ræða leikmannamarkaðinn. Hann fer einmitt gríðarlega hægt af stað og ekki virðist vera hreyfing á neinum leikmönnum hvorki til eða frá félagsins. Það hafa mörg nöfn verið nefnd í slúðurpakkanum í tengslum við klúbbinn núna í janúar t.d. Timo Werner, Dembele, Alaba, Sancho svo einhverjir séu nefndir. Í dag birtust fréttir þess efnis að Cavani sé búinn að fara fram á sölu núna í janúar og voru fjölmiðlar fljótir að grípa það á lofti og tengja hann við Chelsea. Persónulega væri ég til í að fá hann á 18 mánaða samning til að létta undir Tammy. Janúarglugginn er alltaf snúinn og sjaldan um góða bita til að berjast um, en vonandi nær klúbburinn að gera betri hluti í þessum glugga en í janúarkaupum síðustu ára. Það væri gaman að skapa umræðu um þennan glugga út frá því í hvaða stöður okkur vantar leikmenn og hverjir eru raunhæfir kostur.


Arsenal

Sú rómantík að ráða fyrrum leikmenn sem knattspyrnustjóra virðist vera smitandi í ensku deildinni og er ráðning Mikel Arteta til Arsenal ágætis vitnisburður um það. Hann var frábær leikmaður fyrir félagið og í miklu uppáhaldi hjá stuðningsmönnum. Það verður samt seint hægt að segja að Mikel Arteta sé að upplifa draumabyrjun sína í fyrsta stjóra starfinu sínu. „Nýr stjóri, sömu gömlu vandamálin“ segja fyrirsagnirnar á Englandi, í fyrstu fimm leikjunum hefur Arteta aðeins stýrt sínum mönnum til sigurs einu sinni, eitt tap og þrjú jafntefli í deildinni og aðeins fundið netmöskvana sex sinnum. Síðustu tveir leikir Arsenal hafa voru á móti Crystal Palace og Sheffield United, báðum þessum leikjum lauk með jafntefli og því dýrmæt stig tapast í baráttunni um meistaradeildarsæti. Ekki hefur það bætt úr skák að markahæsti leikmaður liðsins Aubameyang er að taka út þriggja leikja bann um þessar mundir. Eitt er víst að Chelsea mun taka á móti vængbrotnu liði á þriðjudagskvöldið en það sama má segja um okkar menn, auk þess að heimavallar tölfræðin okkar er ekki að vinna með okkur eins og stendur. Eitt er nú víst, ég trúi því að bæði liðin munu mæta með blóðbragð í munninum og staðráðin í að taka stigin þrjú. Þó svo að Arteta sé nýbyrjaður í starfi trúi ég ekki öðru en að hann sé farinn að finna fyrir pressu frá stuðningsmönnum um að ná í sigur á móti „topp 6“ liði og halda sér i baráttunni um fjórða sætið. Svipað má jafnvel segja um Frank Lampard, þó svo að liðið sitji í fjórða sæti með fimm stig á Man Utd, þá er mikilvægasta verkefni hans um þessar mundir að ná stöðugleika í liðið og koma í veg fyrir að Manchester nái að minnka forskotið.



Ég geri ekki ráð fyrir miklum breytingum á byrjunarliði Chelsea frá síðasta leik. Persónulega væri ég frekar til í að sjá Willy í markinu (eða fuglahræðu) í stað Kepa en tel það ekki líklegt þar sem hann hefur ekki verið bekkjaður hingað til. Ég spái að Lamps geri þrjár breytingar, Emerson og Tomori koma inn í liðið fyrir James og Christiansen. Króatíski Iniesta, hann Matteo Kovacic, mun koma inn í staðinn fyrir Mount. Framar á vellinum er liðið frekar þunnskipað vegna meiðsla og frammistöðu sem réttlætir ekki byrjunarliðs sæti.


Eitt er víst að stuðningsmenn þessara liða munu fá opinn og hörku spennandi leik. Mér hefur lítið tekist að vera sannspár það sem af er tímabils og vona að það haldi áfram þar sem ég spái að leikurinn fari 2-2. Rudiger skorar fyrra markið úr hornspyrnu og Jorginho setur eitt úr víti. Fyrir gestina mun enginn annar en David Luiz skora úr föstu leikatriði og Özil potar honum inn úr skyndisókn.

Comments


bottom of page