top of page
Search

Chelsea - Man Utd á Stamford Bridge

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 22. Okt kl 16:30

Leikvangur: Stamford Bridge

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn sport, Ölver

Upphitun eftir: Snorra Clinton

Chelsea

Það er þétt spilað þessa dagana í deild þeirra bestu. Á laugardaginn kemur munum við spila okkar þriðja leik á sex dögum og álagið á okkar mönnum því gífurlegt því ofan í það mun Chelsea ferðast til Salzburg í miðri viku og mætir þar heimamönnum í meistaradeild Evrópu. Potter þarf því að vanda valið gríðarlega vel fyrir átökin sem fram undan eru því liðið má ekki við meiri meiðslum.


Síðasta viðureign okkar manna var á móti býflugum í Brentford. Margir voru eflaust handvissir um að Potter myndi sigla þessum heim en ég var alls ekki svo sannfærður um það þó svo að ég hafi trú á eiginleikum Potters sem knattspyrnustjóra. Ef við lítum á viðureignir þessara liða í deildinni í fyrra þá vorum við ljónheppnir að ná stigunum þremur á útivelli, tala nú ekki um leikinn sem allir Chelsea menn vilja gleyma endanlega. Ég er auðvitað að vitna í leikinn á Stamford Bridge þegar við vorum svo flengdir svo illa í 1-4 tapi að börn leikmanna fundu fyrir rassskellinum.


Val Potters á byrjunarliðinu kom mér svosem ekkert á óvart þegar litið er á allan þann fjölda leikja sem á undan var, og þá sem framundan eru. Helst kom þá á óvart, að Pulisic fékk ekki tækifæri á að byrja leikinn eftir flottar frammistöður þegar hann hefur fengið mínútur. Það var þó gríðarlega gaman að sjá Armando Broja byrja sinn fyrsta leik og það er óhætt að segja að framtíð hans er björt. Það helsta sem má taka úr þessum leik var annar stórleikur Kepa í markinu, þvílíkt sem drengurinn er búinn að stimpla sinn inn hjá nýja stóranum. CP10 átti einnig geggjaða innkomu í leiknum og er farinn að banka heldur fast á byrjunarliðsdyrnar. Því miður var ekki mikið jákvætt til að tala um eftir þennan leik. Býflugurnar héldu okkur þvílíkt í skefjum með pressunni sinni og voru snöggir að þétta allar varnarlínur þegar okkur tókst að komast í sókn. Brentford voru hreinlega töluvert betri í þessum leik.


En nóg um þessa hvellskitu og vippum okkur í næsta erindi, Manchester United. Ef það eitthvað sem ég er búinn að fá mig fullsaddan af, þá er að jafntefli eða tap á móti þessu liði. Chelsea hefur ekki unnið United í deildinni síðan í nóvember 2017!! Það hefur engu breytt þegar við erum að mæta þeim, þegar þeir eru að eiga hryllilegt rönn. Okkur tekst alltaf að skíta í lakið á móti þeim og annað hvort tapa leiknum eða rétt svo kreista út jafntefli. Ef þessi leikur fer á þann veginn, þá fer ég út og rispa bílinn hjá nágrannanum og tússa Hitlers skegg á hundinn hans. Potter er búinn að sýna okkur það að það er erfitt að segja til um hvernig hann stillir upp liðinu. Hann ætlar að reynast okkur sófaspekingnum ekkert minni fantasyböðull en okkar heitt elskaði Tuchel. Ég er samt það vitlaus að ég mun samt halda áfram að reyna hitta á rétt lænup.
Í búrinu verður spænski kötturinn hann Kepa. Hann er bara búinn að vera svo frábær að heyrst hefur að Mendy sé farinn að spyrjast fyrir um verkefni í mötuneytinu svo hann hafi eitthvað að gera karlgreyið. Við erum enn án King James og Fofana vegna meiðsla þannig að það þynnist vel úrvalið í varnarlínunni okkar. Faðir vor, Thiago Silva, er alltaf að fara spila þennan leik. Honum til halds og trausts verða Vottur Chalobah og Koulibaly. Ég væri til í að sjá Potter fara svo í smá tilraunarstarfsemi með vængbakverðina okkar, og hafa Cucu og Chilly sitthvorumegin. Það hefur gengið ágætlega hjá mér í FIFA þannig að það er ekkert víst að það gangi ekki upp í raunveruleikanum. Miðjan verður svo skipuð af þeim kumpánum Kovacic og RLC. Gallagher hefði eflaust verið frábær en það gleymdist að rassamæla hann fyrir síðasta leik, þar sem hann var tekinn snemma af velli sökum veikinda. Fremstu þrjá myndi ég svo vilja sjá Pulisic, Mount og Auba.


Manchester United:

Rauðu djöflarnir eru búnir að koma sér á ágætis strik og hafa náð þó nokkrum sigrum í röð, núna síðast á móti Spurs. Ten Haag virðist vera búinn að finna einhverja formúlu með liðið sem kallar fram vinnings frammistöður. Svo virðist sem formúlan hafi ekki verið flóknari en það að henda pappakössunum Harry Big Mac Maguire og CR7 á tréverkið. En ef við eigum að vera fullkomlega heiðarleg við okkur sjálf, þá hafa þeir verið að spila á móti einhverjum lúðum héðan og þaðan. Þess vegna er ekki alveg hægt að segja með 100% sannfæringu að þeir séu á eldi.

Kannski það helsta að frétta úr herbúðum United er það að Ronaldo hljóp í fýlu af bekknum og beint heim áður en leikurinn var flautaður af á móti Spurs. Heimildir herma að hann hafi neitað að fara inn á. Þær fréttir bárust svo í gær að Erik Ten Haag hafi refsað pissudúkkunni með því að henda honum úr liðinu fyrir leikinn gegn okkur. Persónulega væri ég alveg til í að hafa hann í hóp á móti bara til að eitra klefann og gera allt vitlaust. Svona fýlusvip hef ég ekki séð síðan dóttir mín var 12 ára, þegar ég neitaði að kaupa handa henni nýjan iphone. Löngu kominn tími á að Ten Haag skipti um bleyju á honum, gefi honum duddu og segir honum að grjótþegja.


Spá:

Ég er búinn að segja þetta núna 2-3 ár í röð en ég hlýt að fara detta inn á rétt móment, en nú hlýtur að koma að því að við tökum þetta United lið í sundur, líkt og við gerðum undir stjórn Antonio Conte í 4-0 leiknum, sælla minninga! Þetta verður samt helvítis barningur. Ég ætla samt að hafa trú á að við siglum þessu heim með 2-1 sigri. Mörkin koma frá Pulisic og Auba.

Comments


bottom of page