Þessi undanúrslitaleikur á Wembley spilaðist eins og maður hafði búist við nema með öfugum formerkjum. Í stað þess að City væri með boltann og herjaði á andstæðinginn, eins og í flestum leikjum liðsins á þessu tímabili, var það þveröfugt, okkar menn voru með tögl og haldir mestan hluta leiksins. City menn voru að mestu í vörn, nema síðustu 20 mín leiksins þegar þeir reyndu að ná jöfnunarmarkinu án þess að fá til þess nokkur alvöru færi.
Þessi leikur var frábærlega uppsettur af hálfu Thomas Tuchel og hlýtur hann að verðskulda mikið hrós fyrir hans upplegg, en þetta er hans fyrsti sigur gegn Pep í sjö viðureignum þeirra.
Það þarf ekki að fjölyrða um gang leiksins, okkar menn voru með undirtökin mest allan leikinn og sköpuðu sér mun betri og fleiri færi og flestir okkar
manna áttu mjög góðan leik og héldu skipulaginu út í ystu æsar.
Sigurmarkið kom á 55. mín. eftir skyndisókn þar sem Mount stakk boltanum upp kantinn á Werner sem gaf fyrir á Ziyceh sem klárði færið mjög vel úr erfiðri
stöðu. City sótti talsvert síðasta hálftimann án þess að skapa sér alvöru færi fyrir utan eitt atvik þegar Sterling skaut yfir úr dauðafæri, en hefði hann skorað hefði það mark alltaf verið dæmt af vegna rangstöðu í aðdraganda færisins.
En niðurstaðan frábær og sanngjarn sigur, sem kom mörgum á óvart og ljóst er
að nágrannar City, Man Utd-menn geta andað léttar, met þeirra verður ekki slegið í þetta sinn þ.e. 4 titlar á einu tímabili, City getur bara jafnað það, en við höfum vonandi eitthvað um það að segja í maí!
xG- Bardaginn
Einkunnir
Kepa -7
Stóð sig með stakri prýði, nýklipptur og fínn og ekkert út á hans frammistöðu að setja, hann átti raunar mjög þægilegan dag.
Azpilicueta - 8,5
Fyrirliðinn átti framúrskarandi leik eins og yfirleitt, gekk vasklega fram og lét finna vel fyrir sér. Fékk á endanum gult spjald í lokin en leiðtogahæfileikar Azpi fara vaxandi með hverjum leiknum.
Silva - 8
Frábær frammistaða án þess að það bæri kannski mikið á því, steig ekki feilspor í vörninnni og nýtti alla sína reynslu til hins ýtrasta. Þurti að fara af velli vegna bakmeiðsla undir lok leiksins en vonandi er það ekki alvarlegt því við þurfum sannarlega á honum að halda í næstu leikum.
Rudiger - 8
Mjög góður leikur gerði enginn mistök og lét finna vel fyrir sér. Er orðinn einn af lykilmönnum okkar í þessari þriggja manna vörn.
James - 7
Fín frammistaða, fékk gult spjald snemma leiks en lenti aldrei í verulegum vandræðum með kantmenn City. Ógnaði líka vel fram á við - er hægt og bítandi að breytast í heimsklassa leikmann fyrir augum okkar.
Jorginho - 8,5
Upprisa Jorginho undir stjórn Tuchel er virkilega áhugaverð. Hann var stórkostlegur í leiknum, gaf Rodri, De Bruyne og Fernandinho ekkert eftir og var í raun með KDB í vasanum þann tíma sem hann var inni á vellinum.
Kante - 8,5
Frábær frammistaða, er að nálgast sitt besta form og var nálægt því að vera maður leiksins.
Chilwell - 7
Stóð sína vakt vel jafnt í vörn sem sókn, alltaf hættulegur sóknarlega og stóð sína vakt vel varnarlega - hefði getað skorað í fyrri hálfleik en skaut framhjá.
Mount - 7,5
Átti fínan leik, alltaf vinnusamur og átti lykilsendinguna sem skóp sigurmarkið. Var tekin af velli um miðbik seinni hálfleiks, líklega til að hafa hann ferskan gegn Brighton - er alger lykilmaður í liðinu.
Werner - 7,5
Var sprækur í leiknum, skapaði talsverðan usla með hraða sínum og lagði upp sigurmarkið. Hefði getað farið betur með nokkur upphlaup en er vonandi hægt og rólega að finna sitt besta form.
Ziyech - 8
Átti mjög góðan leik og stóð undir orðum sínum í viðtölum fyrir leikinn
að hann væri maður stórleikjanna. Skoraði sigurmarkið úr flókinni stöðu,
skoraði líka mark í fyrri hálfleik sem var réttilega dæmt af vegna rangstöðu og
var óheppinn að bæta ekki marki við í seinni hálfleik.
Varamenn:
Pulisic (70) - 7
Kom sprækur inn undir lok leiksins og skoraði gott mark sem var því
miður dæmt af vegna rangstöðu.
Havertz (79) - 6
Emerson (79) - 6
Zouma (88) - N/A
Maður leiksins: Thomas Tuchel - ég veit að ég er að svindla hérna, en Tuchel gjörsamlega nelgdi þetta hjá okkar mönnum og tók Man City liðið algerlega úr sambandi. Þvílík taktískt snilld - fullkomin tía hjá Tuchel og verðskulduð nafnbót; Maður leiksins.
KTBFFH
- Jóhann Már Helgason
Comments