Keppni: Enska úrvalsdeildin
Dag- og tímasetning: Miðvikudagur 11. Maí kl 18:30
Leikvangur: Elland Road
Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport
Upphitun eftir: Finnur Marinó Þráinsson
Þá er ein svakalega viðburðarík vika liðin hjá bláa liðinu í London. Nýir eigendur staðfestir, hræðilegt jafntefli á móti Úlfunum, búið að staðfesta munnlegt samþykkja Rudiger við Real Madrid, Alonso settur í frystiklefann og tekinn úr honum aftur og nýir eigendur farnir að setja niður drög að leikmannakaupum fyrir næsta leiktíð.
Okkar nýi maður Todd Boehly var mættur í stúkuna á Stamford Bridge síðustu helgi og ég viðurkenni að mér leist bara nokkuð vel á hann! Hann virðist allavega vera með passion fyrir liðinu.
Nú eru fréttamiðlar víðsvegar um heim farnir að ræða um plön Tuchel og Chelsea varðandi hvaða leikmenn liðið ætlar að reyna að fá. Það segir sig sjálft að liðið verður að kaupa leikmenn. Rudiger er að fara, Christensen er að fara, orðrómur um að Pulisic sé að fara og jafnvel einhverjir fleiri.
En hvaða leikmenn ætlum við að reyna við?
Samkvæmt fréttum vill Tuchel fá tvo miðverði, miðjumann og backup í vængbak. Einnig segja þessir sömu fréttamiðlar að Boehly stjórnin sé nú þegar búin að setja tvo miðverði og eitt svokallað statement signing í forgang. Nokkur nöfn heyrast oftar og hærra en önnur og þar ber að nefna varnarmennina Jules Kounde, Kalidou Koulibaly, Josko Gvardiol, Gleison Bremer og Pau Torres. Þegar kemur að miðjumönnum heyrast nöfn þeirra Aurelien Tchouameni, Declan Rice og Christopher Nkunku hæst.
Fyndnara finnst mér að fylgjast með slúðrinu varðandi statement signingið sem Boehly á að hafa talað um. Þar hafa nöfnin NEYMAR og Ousmane Dembele heyrst meira en önnur. Klúbburinn er víst frekar pirraður að hafa ekki náð að leysa úr eigendaskiptum fyr og náð að keppa við Manchester City um undirskrift Haaland. Ég gæti reyndar alveg séð fyrir mér að Tuchel myndi reyna að fá Dembele á Brúnna en hvort það væri sniðugt veit ég ekki.
Vonandi ganga skiptin á eigandanum smurt fyrir sig og við getum farið að dýfa okkur á markaðinn sem fyrst.
En að leiknum!
Leeds
Eins og flestir vita þá eru þeir hvítu í bullandi fallbaráttu og mæta alveg pottþétt snaróðir til leiks. Leikjaplanið hjá þeim hefur ekki verið auðvelt upp á síðkastið þar sem þeir mættu Manchester City og grút töpuðu 4-0 á heimavelli og fóru síðan til London og töpuðu 2-1 fyrir Arsenal. Nú er komið að okkur…
Það eina sem ég bið um er að breytast ekki í Charity FC eina ferðina enn og gefa liðum stig. Við verðum, verðum að klára þennan leik. Ég nenni ekki að missa Arsenal fyrir ofan okkur í töflunni, það er alveg á hreinu.
Leeds eru í ágætis málum varðandi meiðsli en þá má helst nefna að fyrrum Chelsea maðurinn Patrick Bamford er meiddur og spilar ekki.
Chelsea
Hjá okkur eru það ennþá Chilwell og Hudson-Odoi sem verða fjarverandi. Á blaðamannafundinum í dag talaði Tuchel um að það yrði tæpt að Kante og Jorginho nái að spila. Það er því orðið ansi þunnt hjá okkur á miðjunni.
Tuchel var einnig spurður hvort að búið væri að sættast á milli hans og Alonso eftir að honum var skipt út af í hálfleik á móti Wolves. Alonso á víst að hafa látið nokkur ófögur orð falla um þjálfara sinn þegar að Tuchel tók smá hárblásara á hann eftir ömurlega sendingu.
Tuchel segir málið leyst… Ég veit ekki… Væri málið leyst ef við hefðum annan vinstri bakvörð? Sennilega ekki. Þetta er annar þjálfarinn í röð sem hendir honum úr liðinu eftir einhvern kjaft í honum. Það er nú orðið víðfrægt þegar að Lampard henti honum út í liðsrútuna í miðjum leik. Ég held að tími Alonso sé liðinn, takk og bless, ekki flóknara en það.
Byrjunarlið
Ég held að Tuchel neyðist til þess að byrja með Alonso í vinstri vængbakverði. Ég trúi því ekki að hann láti agamál gera það að verkum að Malang Sarr byrji þarna í svona mikilvægum leik, eins mikið og ég held að hann vilji það.
Það er nokkuð auðvelt að spá fyrir um varnarlínuna. Það eina sem ég er pínu efins með er hvort að hann setji Azpi í bakvörðin og James í vængbak eða öfugt. Vonandi það fyrra, ég segi ekki meir.
Miðjuna skipa svo Kovacic og Loftus-Cheek. Vonandi verður svo Kante klár á bekkinn.
Þá er það sóknin. Ég trúi því ekki að ég sé að skrifa þetta en seinni hálfleikur Lukaku á móti Wolves minnti mig á Lukaku hjá Inter. Maðurinn hreyfði sig! Öskraði á boltann og tók nokkur flott hlaup á bakvið vörnina. Ég held að hann fái að byrja á morgun með Werner og Mount.
Spá
Það liggur við að ég þori ekki að skrifa það að ég sé bjartsýnn en nú er að duga eða drepast. Við verðum að fara að tryggja þetta þriðja sæti. Vonandi mætum við krafti Leeds af fullri alvöru og leyfum þeim ekki að komast af fullri alvöru inn í leikinn. Ég er alveg viss um að Leedsarar mæta brjálaðir í þennan leik.
Við klárum þennan leik 2-1. Það er bókað að það verði einstaklingsmistök hjá okkur sem leiða af sér mark. Það virðist vera orðin venjan. Við klárum þetta samt. Lukaku heldur áfram að skora og setur 1 mark. Mount klárar svo leikinn.
KTBFFH
Finnur Marinó Þráinsson
Comments