Keppni: Enska úrvalsdeildin
Tími, dagsetning: 1. desember kl: 13:30
Leikvangur: Stamford Bridge, London, England
Dómari: Stuart Attwell
Hvar sýndur: Síminn Sport
Upphitun eftir: Hafstein Árnason
Ferðin til Suður-Þýskalands í liðinni viku var vel heppnuð. Sigur vannst á FC Heidenheim, sannkölluðu fyrirmyndarfélagi. Sigurinn var langt frá því að vera auðveldur og vörðust Þjóðverjarnir af miklum dug og áttu mjög hættulegar sóknir hvað eftir annað. Filip Jörgensen átti hreint út sagt stórleik í markinu og var að mínu mati maður leiksins. Leikarnir enduðu 2-0 með mörkum frá Mudryk og Nkunku. Jadon Sancho heldur áfram að bæta stoðsendingum á ferilskrána. Hann er núna búin að jafna stoðsendingarnar sem hann átti fyrir Manchester United, yfir öll árin í þessum fáeinu leikjum með liðinu. Chelsea-B heldur því áfram að blómstra í Sambandsdeildinni og þetta lítur nokkuð bærilega út. Einn leikur er eftir á heimavelli gegn írsku Íslandsvinunum í Shamrock Rovers. Krafan er fullt hús í riðlakeppninni og það markmið virðist takast.
Rétt fyrir leikinn fengum við enn og aftur slæmar fréttir af meiðslum Reece James. Bakslag eftir bakslag og þessi vöðvi aftan í lærinu, núna eftir róttæka aðgerð virðist ekki ætla vera til friðs. Meiðslin eru sögð vera út þetta ár, en ef reynslan ætti að segja okkur eitthvað, þá myndi það ekki koma manni á óvart ef það togaði út einn eða tvo mánuði til viðbótar. Það er búið að fara sparlega með manninn. Það var verið að álagsstýra honum með meiðslin til hliðsjónar en allt kemur fyrir ekki. Það líður eflaust ekki að löngu þar til efasemdaraddir fara heyrast hvort ferillinn hans sé í hættu. Ef þetta dregst á langinn verður þetta þriðja árið af stöðugum meiðslum. Í flestum liðum væri það heill samningstími og áleitin spurning um hvort kostnaðarblæðingin ætti að stöðva? Við getum ekki annað gert en að vona það besta og við óskum fyrirliðanum skjóts bata.
Framundan er leikur við Aston Villa. Þetta er klárlega stórleikur. Cole Palmer hefur verið ískaldur í undanförnum leikjum og núna er tækifærið til að sýna sitt rétta andlit. Áhugavert verður að sjá hvernig Maresca ákveður að stilla upp. Noni Madueke hefur ekki verið að sýna sitt besta, og hefur, satt best að segja, ekkert náð að skína eftir öfluga byrjun. Það værí óskandi að sjá Palmerinn fá aftur stöðuna sína á hægri kantinum og leyfa öðrum að fá að vera í holunni, eins og Joao Felix. Nicholas Jackson hefur eiginlega eignað sér framherjastöðuna og ef ég ætti að veita verðlaun, þá væri hann fyrsta nafnið á blaði fyrir mestu framfarinar. Slúttið hjá honum í síðasta deildarleik minnti ógurlega mikið á Didier Drogba. Við munum þegar hann byrjaði átti hann í bölvuðu brasi með akkurat þetta. Að klára færin. Núna virðist tölfræðin vera á þann veg að hann sé að para xG tölfræðina sína. Við viljum að sjálfsögðu sjá hann “yfirperformera” xG tölurnar um helst 5 til 10 mörk. Það væri tölfræði fyrir heimsklassa framherja. Maður hreinlega veltir því fyrir sér hvort við þurfum Victor Osimhen? A.m.k. Verður ákallið ekki jafn mikið þegar við erum frábæran afrískan framherja sem svífst einskis framan við netmöskvana. Jackson getur auðvleldega náð 20 mörkum í deildinni á þessu tímabili sem yrði mjög ásættanleg niðurstaða.
Vandamál Chelsea eru þó aftar á vellinum. Maresca gerir hvað hann getur til að bakka upp Robert Sanchez í markinu, en maður fær alltaf hland fyrir hjartað þegar hann spilar boltanum eða staðsetur sig í áhlaupum andstæðinga. Wesley Fofana er ekki enn farinn að sýna okkur að hann sé 80 milljón punda miðvörður. Ég verð einnig að taka undir með félaga mínum í CFC, Björgvini Óskari, að Malo Gusto er ekki heppilegur þessu miðjumannahlutverki úr bakvarðastöðunni. Það verður að segjast að ef Cucurella byrjar vinstramegin, þá er hann töluvert skárri aðili á meðan Gusto getur bombað upp kantinn. Gallinn er sá að það má andskotann ekkert gerast fyrir bakverðina okkar án þess að skipulagið riðlist. Aston Villa hefur átt í basli að undanförnu og sitja núna í 9. sæti í deildinni, en þó aðeins tveimur stigum á eftir okkur. Villa misstu síðasta leik sinn gegn Crystal Palace í jafntefli og voru óheppnir að vinna ekki Juventus í meistaradeildinni, nánast ósanngjarnt fengu mark dæmt af í VARsjánni. Villa liðið leynir vel á sér og Chelsea þurfa að hafa sig alla við til að sigra þá.
Ég spái því að Maresca stilli þessu liði upp. Sanchez í markinu, Cucurella í vinstri bakverði, Fofana og Colwill miðverðir, Malo Gusto hægri bakvörður. Moises Caicedo og Enzo verða á miðjunni. Lavia er líklega ennþá of tæpur til að byrja, en hann er þó ekki skráður meiddur. Neto, Palmer og Madueke byrja líklega, en maður vildi helst sjá Nkunku í holunni, Palmer hægra megin og Neto vinstra. Maresca sennilega að rótera. Jackson verður pottþétt frammi.
Hvernig fer leikurinn? Eigum við ekki að vera bjartsýnir og segja að hann fari 2-0 þar sem Palmer og Jackson skora?
Áfram Chelsea!
P.s. við minnum fólk á að skrá sig í Chelsea klúbbinn á Íslandi. Þannig getið þið fengið hagkvæma miða á leiki með Chelsea og jafnvel forkaupsrétt með aðstoð klúbbsins. Allar leiðbeiningar um skráningar í klúbbinn má finna á www.chelsea.is
Comments