top of page
Search

Bournemouth - Chelsea

Keppni: Enska úrvalsdeildin


Tími, dagsetning: Laugardagur 6. maí kl: 14.00


Leikvangur: Vitality Stadium


Hvar er leikurinn sýndur: Síminn sport


Upphitun eftir: Þráinn Brjánsson






Þá er komið að 35. umferð í efstu deild enska boltans og nú liggur leiðin á Vitality völlinn í Dorset þar sem við mætum Bournemouth. Gary O´Neil og kirsuberin sitja þessa stundina í 13 sæti deildarinnar með jafnmörg stig og okkar menn og það er algerlega ljóst að ekkert annað en sigur er ásættanlegur ef við ætlum að taka okkur saman í andlitinu og klára þetta með snefil af reisn.


Það er ekki hægt að segja að síðasti leikur okkar manna hafi gefið einhver fyrirheit um betri tíð en Arsenal afgreiddi okkur í fyrri hálfleik með 3 mörkum en Madueke klóraði ögn í bakkann og lak inn marki sem í sjálfu sér skipti engu máli. Þetta andlega þrot sem virðist ráða ríkjum í klúbbnum okkar er orðið skelfilega þreytt en leikmenn koma í viðtöl eftir hvern hörmungarleikinn á fætur öðrum og tala um að mannskapurinn sé í djúpri holu og þeir spili langt undir getu en þeir virðast þó ekki hafa hinn minnsta áhuga á að reyna þó allavega.


Maður veltir því fyrir sér hvaða ára er að grassera í klúbbnum? Jú auðvitað er þetta búið að vera hörmung í vetur og langur meiðslalisti og stjóraskipti og nákvæmlega ekkert hefur gengið upp en ég velti þó fyrir mér af hverju leikmenn koma hvað eftir annað í viðtöl og tala um að þetta sé ekki viðunnandi og það verði að gera betur en svo þegar á hólminn er komið þá er algert andleysi og metnaðarleysi í leik liðsins.



Mín persónulega skoðun er sú að það hafi verið hrikaleg mistök að ráða Lampard til að klára þetta tímabil því eins mikið og hann hefur gert fyrir þennan klúbb þá er hann svo óralangt frá því að vera maður til að stýra svona stóru dæmi, við verðum bara að fara að átta okkur á því.

En nóg af svartsýnisröflinu og horfum aðeins áfram.


Ekki er enn búið að ganga frá ráðningu á nýjum stjóra og mér þykir það að mörgu leyti skrítið og veltir maður fyrir sér hvort eitthvað beri á milli í þeim viðræðum en þó renna öll vötn ennþá til Pottechino og mér heyrist og sýnist að menn séu þokkalega ánægðir með það ef af verður.





Það er þó ljóst að hann fær úr allnokkrum efnivið að moða þar sem menn eins og Nkunku, Andrey Santos og Malo Gusto koma inn og einnig hefur heyrst að Poch hafi áhuga á að nota Lukaku sem fremsta mann með Jóa Fel en Belgíska vafflan er víst ekkert yfir sig hamingjusamur með að koma aftur heim í heiðardalinn.

Einnig held ég að það gæti orðið erfitt að sannfæra stórar kanónur og markaskorara að koma þar sem sæti í Meistaradeild er úr sögunni og það freistar ekki.


En nýr stjóri hefur jú sínar hugmyndir og við verðum að vona það besta. Einnig er ljóst að einhverjir leikmenn þurfa að taka á sig verulegar launalækkanir þannig að mórallinn gæti farið að súrna með sumrinu. En nú er bara að taka bjartsýnina á þetta og vona að nýr stjóri komi með ferskar hugmyndir og lausnir á þessum svartadauða sem virðist vera að herja á menn. Ég er ekkert viss um að leikurinn gegn Bournemouth verði nein skemmtun en ég held þó enn í vonina um að þessi laugardagur geti orðið hinn ágætasti og ef leikmenn fara inn í leikinn með réttu hugarfari þá erum við til alls vísir.


Chelsea:


Á blaðamannafundi talaði Lampard um að ekki hefðu komið upp nein meiðsli frá leiknum gegn Arsenal en þegar hefur komið fram að Reece James og Mason Mount eru frá og Badiashile er tæpur en “nálgast” eins og hann orðaði það. Koulibaly og Cucurella eru einnig fjarri góðu gamni.

Það verður fróðlegt að sjá hvaða taktík Super Frank ætlar að bjóða upp á á laugardaginn en hlutirnir gengu fjarri því upp gegn Arsenal. Spurning hvort Mudryk fái fleiri mínútur en hann stóð sig einna best á Emirates þó hann hafi verið með græna laserinn í grímunni meira og minna.


Hann var þó að skapa eitthvað og kom með hraða og smá vilja inn í leikinn. Silva var jú traustur eins og raunar alltaf og er klárlega verðugur þess að vera kosinn leikmaður tímabilsins og finnst mér það lýsa ástandinu aðeins þegar 38 ára leikmaður á helst tilkall til þess titils. Kepa er búinn að sýna góða leiki en líður fyrir að vera afskaplega mistækur en aðrir hafa bara ekki náð að sýna sitt rétta andlit og er árangurinn eftir því. En kannski er komið að því að liðið sýni loksins sitt rétta andlit og vinni góðan sigur, hver veit?





Bournemouth:


Bournemouth hefur átt svosem fínt tímabil og hefur verið að tína inn stig frá sterkum andstæðingum og hafa sigrað m.a Liverpool, Tottenham og Fulham. Þetta er lið sem hefur ekki mikið af stórum nöfnum innanborðs en O´Neill virðist hafa hitt naglann á höfuðið oftar en okkar stjórar í vetur. En ég vil þó trúa því að við ættum á góðum degi að geta náð ásættanlegum úrslitum. Annars er þetta lið sem siglir lygnan sjó og virðist aldrei líklegt til stórafreka en kemur þó á óvart.


Byrjunarlið og spá:


Þetta er alltaf erfitt og ekki gott að sjá fyrir hvað Frank er að spá en þetta er nú sá hluti pistilsins sem er frekar til gamans gerður. Þar sem liðsuppstilling hans gekk öngvan vegin upp gegn Arsenal held ég að hann fari aftur í 4-3-3 og Kepa verður klárlega á milli stanganna og fyrir framan hann verða þeir Aspi, Fofana, Thiago og Chilwell.

Þar fyrir framan verða þeir Enzo, Kanté og ætli Gallagher verði ekki bara þarna líka. Fremstir verða þeir Felix, Havertz og Mudryk þar sem ég vil hraða og læti. Við sjáum hvað setur og vonum það besta og það þýðir ekkert annað en að krossa fingur og fara í happanærbuxurnar fyrir leik.





Ég leyfi mér enn og aftur að spá sigri og held að við löndum þessu með einu marki frá Felix.


Áfram Chelsea!!!!










Comments


bottom of page