Keppni: Carabao Cup
Tími, dagsetning: 24. september kl:18:45
Leikvangur: Stamford Bridge, London
Dómari: Oliver Langford
Hvar sýndur: Viaplay
Upphitun eftir: BFR - Bjarni Reynisson
Blásið í lúðrana og látið sprengjubjöllurnar óma um torg og stræti því að borgarastyrjöldin á Brúnni er í bullandi gangi. Samband Todd Boehly og Clearlake Capital, þá helst Behdad Eghbali, er langt um gott þar sem að báðir aðilar vilja kaupa eignarhlut hins. Ásakanir um hver ber ábyrgð á óreiðukenndu ástandi klúbbsins og slæmu gengi fljúga á báða bóga og innkaupastefna félagsins undanfarna glugga hefur þá einnig verið í eldlínunni ásamt vandamálum tengdum fyrirhugaðri stækkun á Stamford Bridge. Margt vatn er þó runnið til sjávar síðan að þessar fregnir báru dagsins ljós í byrjun mánaðar, og sáust þeir tveir mátar saman á leik helgarinnar gegn West Ham. Í eignartíð Roman Abramovich þá voru ákvarðanir á félagsskipta markaðnum mjög auðveldar. Marina Granovskaia sá um samningsmálin og Abramovich um fjármagnið. Undir BlueCo, samnefnari yfir Boehly og Clearlake, þá virðist sem að klúbburinn hafi prófað nokkrar mismunandi nálganir á markaðnum. Fyrsti glugginn undir BlueCo einkenndist af komum stórra nafna eins og Raheem Sterling, Kalidou Koulibaly og Aubameyang sem settir voru á premium laun. Menn með reynslu sem áttu að koma beint inn í byrjunarliðið og gjörbreyta gengi okkar. Í sumar glugganum 23/24 var önnur nálgun á gluggan þar sem að fjárfest var í vonarstjörnum (meðalaldurinn 21 árs) og gefið þeim langa samninga á tiltölulega lágum launum með árangurstengdum bónusgreiðslum. Hvað árangur á vellinum varðar þá hafði hvorugur gluggi tilætlaðan árangur, en nýja samninga stefnan hefur lækkað meðallaun leikmanna okkar um 30 þúsund pund á viku ef borið er saman núverandi laun við launin tímabilið 21/22. Hvort sem að þú ert að Boehly vagninum eða Eghbali þá er raunin sú að líklega helst eignarhaldið óbreytt og ég tel að sættir náist auðveldlega með áframhaldandi góðu gengi klúbbsins.
Fjölmiðlar eiga það til að einblína á það neikvæða þegar kemur að Chelsea og borgarastyrjöld innan stærsta klúbbs Lundúna er safaríkur biti en vonandi var þetta bara stormur í vatnsglasi. Því jafnvel þó hægt sé að deila um gengi klúbbsins á undanförnum tveimur tímabilum þá er að komast glæsilegt jafnvægi á liðið og leikmannahópurinn með öll sín gæði er farinn að smella. Þetta jafnvægi er hægt að rekja beint til Enzo Maresca. Það er ekki bara taktíkin á vellinum sem að hefur heillað mig hingað til heldur líka hversu snöggur hann var að velja sitt besta byrjunarlið, hvernig hann minnkaði leikmannahópinn niður í þann kjarna sem að hann ætlaði að vinna með og hvernig hann höndlar leikmannahópinn og fjölmiðlana heilt yfir. Ákvarðanir varðandi miðvarðarparið (Colwill og Fofana), markmanninn (Sanchez) og framlínuna (Madueke, Palmer, Jackson og líklega Sancho) skilar sér í auknu sjálfstrausti þar sem þeir vita að þeir hafa traust stjórans. Dýptin upp á topp er í heimsklassa og nýjasta fjöðrin í hattinn er klárlega Jadon Sancho sem að lítur út fyrir að vera algjört rán frá Man Utd. Ég kallaði eftir stöðugleika, betri varnarleik, jafnvægi inn á miðjuna og fleiri mörkum úr opnum leik í upphitunnar pistli mínum fyrir leikinn gegn Wolves og hefur liðið heldur betur uppfyllt allar mínar óskir.
English Football League (EFL) bikarinn eða Carabao bikarinn er keppnin, en fyrir þau ykkar sem að þekkja ekki vel til, eða rugla þessum bikar oft saman við FA bikarinn (eins og ég…) óttist ekki. Í Carabao bikarnum etja kappi lið úr efstu fjórum deildum á Englandi. Mótið er sjö umferðir í heildina þar sem eingöngu er spilaður einn leikur í hverri umferð að utanskildum undanúrslitunum. Úrslita leikurinn er svo spilaður á Wembley og eru verðlaunin ekki einungis bikarinn heldur einnig þátttökuréttur í Sambandsdeildinni. Að öllu jöfnu gengur okkar mönnum vel í þessari keppni. Fimm sinnum höfum við lyft bikarnum, síðast tímabilið 14/15 undir stjórn José Mourinho, en undanfarin sex tímabil höfum við spilað þrisvar til úrslita, án þess þó að bera sigur úr býtum.
Skjaldarmerki Barrow A.F.C. sem sýnir kafbát þar sem breskir kafbátar eru smíðaðir í Barrow.
Davíð og Golíat? Já við gætum notað þá myndlíkingu er Chelsea tekur á móti Barrow A.F.C á Brúnni, en litli kallinn mun ekki vinna til neins frama í þetta skiptið þar sem að þetta ætti að vera þæginlegt verkefni fyrir okkar menn. Engu að síður má aldrei vanmeta andstæðinginn, og eru Barrow líklega einu stjörnu fjárfestinga pari eins og Ryan Reynolds og Rob McElhenney frá því að vera næsta stórlið Bretlandseyja. En Barrow hefur líkt og Wrexham, eytt dágóðum tíma í utandeildinni. Frá tímabilinu 71/72 eyddu þeir 48 tímabilum í Conference deildinni og Þjóðdeildinni (e. National League) sem þeir hjálpuðu að koma á laggirnar árið 1979. Frá árinu 2020 hafa þeir spilað í League two (fjórðu deild) og enduðu í áttunda sæti á síðustu leiktíð. Viðureignin við Chelsea verður þriðji leikur Barrow í keppninni, en þeir léku gegn Port Vale í fyrstu umferðinni og höfðu þar 3-2 sigur og lék svo gegn fyrrum lærisveinum Lampard, Derby County, þar sem þeir unnu í vítaspyrnu keppni með sömu markatölu.
Litið yfir Barrow, heimavöllurinn fyrir miðju með skípasmíðastöðina í bakgrunni.
Chelsea mætir til leiks eftir að hafa flengt West Ham með þremur mörkum gegn engu. Þó að líklegast sé að við sjáum gjörbreytt byrjunarlið gegn Barrow en við sáum í deildinni á laugardaginn þá er ég fullur trausts og spenningi. Það hlakkar í mér að sjá meira frá Nkunku, Felix, Neto svo dæmi séu nefnd og ég vona að Maresca leyfi þessum mönnum óspart að spila mikilvæg hlutverk í þessari keppni, FA bikarnum og Sambandsdeildinni. Okkar menn eru yfirgnæfandi sigurstranglegri aðillinn samkvæmt veðbönkunum með stuðulinn 1,03. Á meiðsla listanum eru Malo Gusto, Reece James og Romeo Lavia en hér er mín spá um byrjunarliðið:
Mark - Jörgensen
Vörn - Acheampong, Disasi, Badiashile, Veiga
Miðjan - Caicedo, Felix, Dewsbury-Hall
Framherjar - Nkunku, Neto, Sancho
Caicedo er sá eini úr byrjunarliðinu gegn West Ham sem heldur sætinu sínu þar sem hann er búinn að vera algjörlega magnaður. Gömlu Monaco mennirnir Disasi og Badiashile fá að spreyta sig sem miðverðir og Josh Acheampong byrjar í hægri bakverðinum í fjarveru Gusto og James.
Þetta verður algjört blóðbað fyrir Barrow og við munum sökkva þeim neðar en kafbáturinn sem prýðir merkið þeirra með 6 - 0 sigri.
Áfram Chelsea og KTBFFH!!
P.s. Við viljum svo minna fólk á að skrá sig í Chelsea klúbbinn á Íslandi, sérstaklega ef þið lesendur góðir hafið áhuga á að fara á leiki með Chelsea í vetur, þá er Chelsea klúbburinn besti milligönguliðurinn með að útvega miða. Allar nánari upplýsingar á www.chelsea.is
Comments