top of page
Search

Aston Villa vs Chelsea - jólaleikurinn 2021!

Keppni: Enska Úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: Sunnudagurinn 26. Desember 2021 kl: 17:30

Leikvangur: Villa Park

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir: Markús Pálma PálmasonNú getur maður ekki annað en byrjað þessa upphitun á því að óska öllum stuðningsmönnum Chelsea Football Club gleðilegra jóla, og farsældar á komandi ári.


Þetta ár hefur reynst okkur hreint út sagt frábærlega, og gerðum við hið ómögulega og hirtum Meistaradeildartitilinn árið 2021. Þetta tímabil hefur verið upp og niður hjá okkar mönnum og hafa síðustu vikur reynst okkur verulega erfiðar. Það er hins vegar ekkert annað í boði en að njóta hátíðanna með fólkinu sínu, með sjálfum sér, og í anda hins sanna stuðningsmanns Chelsea. Ef við horfum aðeins fram á við, þá erum við að fara inn í næst síðasta leik okkar manna á þessu ári, og verður það gegn hinum nautsterku, þaulskipulögðu og stórhættulegu Villa mönnum. Bara til þess að slá á skemmtilega tölfræði svona korter í leik, á er þetta í sjötta skipti sem þessi lið mætast á þessum degi, eða „Boxing Day“, þar sem okkar menn eru ósigraðir í þessum 5 viðureignum hingað til.


Talað er um að margir leikmenn séu að snúa aftur eftir meiðsli, covid-19, veikindi eða hvað sem það var sem tók frá mönnum spilatíma, en stærstu fréttirnar eru líklegast þær að okkar eini sanni Romelu Lukaku, Stóri Rom frá Antwerp, maðurinn með mörkin, hetjan okkar í framlínunni, er að snúa aftur. Lukaku byrjaði frábærlega, skorandi í hverjum leik, en meiðsli settu strik í reikningin hjá okkar manni og síðan kom það upp að menn voru frá vegna covid-19. Ég trúi ekki öðru en að Lukaku byrji þennan leik og Tuchel reyni að koma honum af stað yfir áramótin.


Dómari leiksins verður svo Martin Atkinson, með Stuart Attwell og Dan Cook í Var skjánum.


Chelsea

Nú er að duga eða drepast. Eins og staðan er núna, sitjum við í 3 sæti deildarinnar, 6 stigum á undan Arsenal, og 6 stigum á eftir City í toppsætinu. Liverpool er svo 3 stigum fyrir ofan okkur. Okkar form í seinustu 5 deildarleikjum er 2 sigrar, 2 jafntefli og 1 tap. Á sama tíma eru Liverpool með 4 sigra og 1 jafntefli, og City með 5 sigra. Í seinustu 2 leikjum gerðum við jafntefli við Wolves og Everton, en rétt mörðum Leeds á Brúnni, þar sem fulltrúar Blákastsins voru á vellinum.


Okkar stærsta vandamál í seinustu leikjum í deildinni er það að skora mörk úr opnum leik. 6 af síðustu 13 mörkum komu úr föstum leikatriðum, og á móti liðum eins og Everton og Leeds. Ég krefst þess að við skorum meira en 2 mörk í þessum leik, og að við hirðum þessi 3 stig sem eru í boði. Aston Villa er ekta svona „upset“ lið, þannig þeir munu koma glorhungraðir í þennan leik og sérstaklega ef þeir halda að við séum nógu vængbrotnir til að vera sigraðir.


En við stoppum stutt í þessari dapurð, þar sem við rífum okkur upp úr skítnum og skellum í alvöru veislu á morgun. Mín spá fyrir byrjunarliðið er, að minni eigin sögn, mjög áhugaverð, því ég fór á bakvið allar þær reglur sem ég lifi við sem stuðningsmaður þessa frábæra félags. Þeir sem eru á meiðslalistanum eru Chilwell, Havertz, Loftus-Cheek og Werner . Hins vegar er Lukaku klár og ekki hægt að búast við öðru en að hann byrji.


Svona er mín spá:Ég spái ekki mínum mönnum Kovacic eða Ziyech byrjunarliðsleik á morgun, en að því sögðu, djöfull er gott að fá suma af þessum mönnum aftur!


Aston Villa

Andstæðingar okkar á morgun eru Aston Villa, The Villains, The Lions, með Steven Gerrard í fararbroddi. Eins og er, situr Aston Villa þægilega í 10. sæti, þar sem þeir eru með 3 sigra og 2 töp í seinuastu leikjum. Villa menn eru nýkomnir úr svaka prógrammi, þar sem þeir rétt töpuðu fyrir City 1-2, unnu Leicester 2-1, rétt töpuðu fyrir Liverpool 1-0 og unnu svo fínan útisigur gegn Norwich. Þessi úrslit segja lítið annað en að þeir eru með svaka gæði í liðinu, geta haldið út gegn stóru liðunum, og eru á síðustu metrunum með að vera í baráttu um Evrópudeildarsæti.


Lið Aston Villa er mjög líklega að fara vera svipað og í síðustu leikjum. Mín spá væri svona:


GK – Martinez

RB – Cash

CB – Konsa

CB – Mings

LB – Targett

CM – McGinn

CM – Luiz

CM – Nakamba

RW – Buendia

ST – Watkins

LW - Young


Spá

Alvöru leikur að detta í gang. Ég býst við veislu og svona leikir, á þessum tíma árs, eru oftar en ekki mjög skemmtilegir að mínu mati. Ég ætla negla í alvöru spá, 4-2, hvorki meira né minna. Lukaku kemur inn með sprengju, og skorar 2 mörk í þessum leik, ásamt því að Mount skorar og Alonso setur eitt í viðbót í grímuna á mér, það er eiginlega orðið að ávana hjá honum að sokka mig endalaust. Watkins klórar í bakkann í fyrra skiptið fyrir Villa menn, en svo kemur ein sárabót undir lokin fyrir Buendia.


Nú er bara að jafna sig á öllum jólamatnum sem fólk er búið að vera að kjamsa á síðustu 48 klukkustundirnar, henda sér í Chelsea treyjuna, mögulega setja á sig eina jólasveinahúfu, setjast fyrir framan sjónvarpið, og skemmta sér konunglega yfir þeirri skemmtun sem bíður okkar á morgun!


Eina jólagjöfin sem ég þarf er góður sigur, og mark frá gulldreng Chelsea, Mason „the Moneyman“ Mount!


KTBFFH!

- Markús Pálmason


Commenti


bottom of page