top of page
Search

Arsenal vs Chelsea - Bikarúrslitaleikur

Keppni: Enska bikarkeppnin (FA Cup)

Dag- og tímasetning: 1. ágúst 2020 kl. 16:30

Leikvangur: Wembley-leikvangurinn

Hvar er leikurinn sýndur? Stöð 2 Sport, Sportbarnum Ölveri, BBC One, BT Sport 1 og eflaust víðar.

Upphitun eftir: Árna St. Stefánsson

Inngangur Það er fátt skemmtilegra en úrslitaleikir að vori (reyndar um hásumar í þetta skiptið). Við Chelsea-aðdáendur eru orðnir nokkuð góðu vanir í þeim efnum og sem betur fer fáum við ósk okkar uppfyllta í ár. Og það er enginn smá viðureign sem bíður okkar í þetta skiptið - úrslitaleikur í stærstu og sögufrægustu bikarkeppni heims gegn erkifjendum okkar í Arsenal.

Þessi sögufræga keppni, sem nær aftur til ársins 1871, hefur reynst okkar mönnum happadrjúg undanfarna tvo áratugi en frá því að liðið vann Middlesbrough í úrslitunum 1997 hefur liðið komist alls átta sinnum í úrslitaleikinn og þar af unnið bikarinn í sex skipti. Það leiðinlega við þessa annars glæsilegu tölfræði er hins vegar að báðir tapleikirnir hafa komið gegn verðandi mótherjum okkar á laugardaginn. Ekkert lið unnið FA Cup oftar en Arsenal, alls 13 sinnum og þá hefur ekkert lið komist oftar í úrslitaleikinn en Arsenal. Við eigum sannalega harm að hefna frá tapinu árið 2017 þegar Arsenal sigraði Chelsea 2-1 í úrslitaleiknum, en á móti kemur að við niðurlægðum Gunners í úrslitum Europa League í fyrra og höfðum jafnframt yfirhöndina gegn þeim í deildinni í vetur (sigur og jafntefli).


Chelsea Leið Chelsea í úrslitaleikinn var nokkuð sannfærandi en langt frá því greið. Liðið byrjaði á að vinna Nottingham Forrest í janúar og á eftir fylgdi sigur gegn Hull í fjórðu umferð keppninnar. Í umferðinni þar á eftir tóku okkar menn sig til og slógu út feykilega sterkt lið Liverpool og í kjölfarið kom sætur 1-0 sigur gegn Leicester. Í undanúrslitum var komið að því að leiða Rauðu djöflana í sláturhúsið, þar sem okkar menn léku á alls oddi og unnu 3-1 sannfærandi sigur.


En þá að morgundeginum. Chelsea eru í fínum málum hvað meiðsli varðar og eru Gilmour og Loftus-Cheek í raun þeir einu sem verða pottþétt ekki með. Lampard staðfesti á blaðamannafundi fyrir leikinn að Kante verði klár til að byrja en hann hefur æft á fullu að undanförnu eftir að hafa misst af síðustu sex leikjum. Sömu sögu er að segja um Willian, sem missti af leiknum gegn Wolves, hann er klár í slaginn gegn Arsenal. Það verður forvitnilegt að sjá hvaða leikkerfi Lampard mun byrja með í leiknum en eins og margir e.t.v. muna þá breytti Lampard um leikkerfi í sigurleiknum gegn Arsenal í desember síðastliðnum, þ.e. fór í 4-3-3 eftir að hafa byrjað leikinn í 3-4-3. Eftir rúman hálftíma í þeim leik skipti hann sömuleiðis Jorginho inn fyrir Emerson og það er skemmst frá því að segja að þessar breytingar svínvirkuðu - liðið byrjaði að pressa mun betur og Jorginho stóð uppi sem maður leiksins í flottum sigri. Lampard hefur gert marga góða hluti með liðið í vetur en eitt af því sem hann hefur ekki náð er að “finna sitt lið”. Það er því erfitt að segja hvaða byrjunarliði hann mun stilla upp á morgun. Ef hann ætlar að vera samkvæmur sjálfum sér þá byrjar hann með Caballero í markinu enda hefur gamli Argentínumaðurinn byrjað alla leiki í bikarkeppninni hingað til ef undan er skilinn leikurinn gegn Liverpool. Ef Lampard freistast til að halda uppteknum hætti frá sigurleiknum í desember mun hann stilla upp fjögurra manna varnarlínu og ég spái því að reynslan verði höfð í fyrirrúmi með þá Rudiger og Christensen í miðvörðunum og Azpi og Alonso í bakvörðunum. Á miðjunni verður að sjálfsögðu Kovacic og líklega Kanté þar sem hann er orðinn heill heilsu. Erfiðara er að spá fyrir um hver verður þriðji maðurinn á miðjunni. Mount er líklegastur til að byrja en Barkley og Jorginho geta líka gert tilkall. Barkley kemur eflaust inn á sem varamaður enda hefur verið einn okkar besti maður í FA Cup á á þessu tímabili og skorað þrjú góð mörk, þar á meðal sigurmarkið gegn Leicester. Ég á von á að þrír fremstu menn Chelsea í leiknum verði þeir Pulisic, Willian og Giroud.Arsenal Gengi Arsenal hefur verið ansi brösótt á leiktíðinni og endaði liðið í 8. sæti í deildinni sem er versti árangur liðsins í ein 25 ár. Gengi liðsins í ensku bikarkeppninni hefur aftur á móti verið gott þó svo að færa megi rök fyrir því að leið liðsins í úrslitaleikinn hafi verið töluvert auðveldari en hjá Chelsea. Liðið byrjaði að sigra Leeds í janúar, þegar Arteta var tiltölulega nýtekinn við liðinu, og í kjölfarið fylgdi sigur gegn Bournemouth. Í fimmtu umferð keppninnar sló liðið út League One-lið Portsmouth áður en liðið hafði sigur gegn Sheffield United í 8-liða úrslitunum. Í undanúrslitunum gerðu lærisveinar Arteta sér svo lítið fyrir og slógu út Man City, verðskuldað. Meiðslalisti Arsenal er talsvert lengri en hjá okkar mönnum en skv. mínum heimildum eru Mustafi, Martinelli, C. Chambers og B. Leno allir meiddir. Þá er Arteta líklegur til að frysta áfram þá Ozil og Guendouzi á kostnað K. Tierney og B. Saka.


Spá Í Blákastinu um daginn spáði ég algjörum “naglbít” og að Giroud muni tryggja okkur titilinn með 1-0 sigurmarki í framlengingu eftir mjög jafnan leik. Ég verð víst að vera samkvæmur sjálfum mér halda mig við þá spá, en á móti vona ég að félagi Jón Kristjánsson verði sannspárri en undirritaður því öfugt við mig þá spáir hann einum skemmtilegasta og besta leik tímabilsins með tilheyrandi markaveislu og að sjálfsögðu sigri okkar manna. En hvernig sem leikurinn mun þróast þá er númer eitt, tvö og þrjú að við lyftum dollunni góðu í enn eitt skiptið á morgun!


Ég vil að endingu nota tækifærið og þakka lesendum fyrir tímabilið sem er að líða og vona að það næsta verði enn skemmtilegra og árangursríkara. Þá vil ég jafnframt þakka ritsjórn CFC.is fyrir einkar skemmtilega og metnaðarfulla upphitunarpistla og þá sér í lagi Jóhanni Má fyrir að halda frábærlega utan um þetta verkefni.


KTBFFH

Comments


bottom of page