top of page
Search

Annríki á Anfield

Keppni: Enska úrvalsdeildin

Dag- og tímasetning: 21. Janúar kl 12:30

Leikvangur: Anfield

Hvar er leikurinn sýndur? Síminn Sport

Upphitun eftir: Snorra Clinton


Chelsea

Jæja börnin góð, komið full langt síðan ég var plataður til að rita niður einhver baráttuorð fyrir Chelsea leik og því vel við hæfi að það sé fyrir Liverpool leik. Upp á síðkastið hefur gengið yfir myrkur og mannaskítur hvað varðar gengi liðsins undir Graham Potter. Gengið hefur verið það slakt að þetta tímabil hefur einkennst af mikilli gerendameðvirkni af minni hálfu. Chelsea hefur beitt mig svo miklu andlegu ofbeldi með sínum frammistöðum undanfarið að ég er farinn að segja við gesti og gangandi að ég sé í ofbeldissambandi. Meðvirkni mín lýsir sér svo á þann að ég trúi hinu góða og ver klúbbinn fyrir heiminum og trúi því að hann geri betur næstu helgi, alltaf tekst þeim samt sem áður að buffa mig andlega. Meðvirknin tekur svo alltaf hástökk þegar nýir leikmenn koma inn og maður gleymir öllu ruglinu sem búið er að láta mann ganga í gegnum og maður verður ekkert eðlilega peppaður og bjartsýnn fyrir komandi tíð. En nóg komið að svona blaðri, þetta er ekki viðtalstími hjá Stígmótum heldur UPPHITUN!Það er aldeilis hasar á Ed Böbblý og félögum upp á skrifstofu þessa dagana. Það er hreinlega verið að versla ALLA sem álitnir eru mikið efni og hafa ekki náð 23 ára aldri. Hæst ber auðvitað að nefna þjófnaðinum á Úkraínska undarbarninu honum Mudryk. Sjálfur er ég ótrúlega spenntur fyrir þessum dreng en mest er ég ánægður með hvað við stálum honum frá Arsenal um hábjartan dag. Um er að ræða leikmann sem elskar að keyra á varnarmenn og skilja þá eftir í rykinu. Gæinn hefur hraðast mælst á 36,6 km hraða. Hver hleypur svona hratt??? Ég er nú enginn dýralæknir en ég er nokkuð viss að hann er sprettharðari en strútur. Ég er sannfærður um að hann eigi eftir að plumma sig vel í enska boltanum og heyrst hefur að íslensk ungmenni í Garðabænum séu farinn að greiða í píku og bóka tíma í Jesús hálstattoo, slík er trúin á þessum dreng.


Við bjóðum Mudryk velkominn í bláu treyjuna

Annað nýtt í fréttum er svo eins og þruma úr heiðskíru lofti en Böbbly & Co voru í þessum töluðu orðum að ganga frá kaupum á öðrum ungum leikmanni frá PSV í hollensku hasskökudeildinni. Ber sá maður nafnið Noni Madueke (ég veit ekki heldur hver það er). Það eina sem ég veit um hann er að hann vill spila með töffaraband um hausinn líkt og Saint Maximin hjá Newcastle. Sem betur fer fyrir lúða eins og mig er hægt að fletta svona gæjum upp á netinu til að fræðast meira um þá. Samkvæmt Transfermarkt spilar hann mest á hægri vængnum, en getur líka verið í holunni. Það sem af er tímabils hefur hann spilað fimm leiki í hollensku og skorað í þeim eitt mark. Við sjáum á mappinu hér að neðan hvernig æðri knattspyrnumáttar hafa staðsett Madueke. Hann hefur hlotið titilinn „Chaos Master“, ef sú nafngift er rétt þá er þetta akkúrat týpan af leikmanni sem okkur hefur vantað.
Svo má auðvitað ekki gleyma Joao Felix sem kom til okkar á láni frá Atletico Madrid. Hann fór beint í byrjunarliðið á móti Fullham og var líklega besti maðurinn á vellinum áður en hann prjónaði yfir sig úr spenningi og fékk beint rautt. Þó að ég hafi nú fyrirfram ekki haft mikla trú á honum í enska boltanum þá sýndi hann samt takta sem gefa það til kynna að ég hafi rangt fyrir mér. Hann fær næst tækifæri til að sokka mig þann 11. febrúar á móti West Ham. Það er spurning með öllum þessum gaurum, sem eru að koma inn, hvort það sé einfaldlega verið að senda leikmönnum í sömu stöðum einföld skilaboð??? Eitt er þó ljóst að það stefnir í útsölu hjá Chelsea!


Það eru góðar fréttir úr herbúðum okkar manna, Chilwell, James og Fofana eru allir að æfa á fullu og líklegt er að þeir verða orðnir leikhæfir þegar við mætum Fullham í febrúar. Graham Potter staðfesti á blaðamannafundi fyrr í dag að Chilwell og James yrðu ekki með á móti Liverpool þar sem þeir væri ekki alveg 100%. Aðrir leikmenn á borði við Sterling, Pulisic, Kante, Zakaria, Mendy og Broja eru allir fjarri góðu glensi.


Þrátt fyrir gengi liðsins þá er ég fáránlega peppaður yfir því að sjá Mudryk, Felix og Master of Chaos keyra á varnir mótherjanna á næstunni. Svo minni ég á að við þennan hóp bætist Nkunku í sumar, þannig að framtíðin er björt og það er ekki bara gerandameðvirknin mín að tala.


Byrjunarliðið:

Þetta verður ekki flókið gisk. Sérstaklega þegar við lítum á meiðslalistann okkar. Ég spái nákvæmlega sama byrjunarliði og á móti Palace. Við eigum bara ekki fleiri leikmenn. En svona til að rifja það upp fyrir þá sem taka ekki þátt í meðvirkninni og því fylgdust ekki með síðasta leik, þá verður liðið einhvern veginn svona: Kepa verður í markinu og í CB verða þeir Faðir Vor og Badiashile. Sá drengur átti frábæran leik á móti Palace um síðustu helgi. Hann var smá stressaður og óöruggur í byrjun, en vann sig vel inn í leikinn. Miðað við þá frammistöðu er hann MIKLU betri kostur en Koulibaly. Lewis Hall heldur líka sínu sæti þar sem Cucurella er bara ekki sami leikmaðurinn og var hjá Brighton, hálfgerð vörusvik þar á ferð. Ætli við verðum ekki ennþá með Vottinn hægra megin, þar sem við eigum engan annan. Azpi karlinn ræður ekki við þetta lengur. Ég spái að Kova komi inn fyrir Jorginho, einfaldlega því ég nenni ekki að horfa á fleiri leiki með hann inn á vellinum. Gallagher verður með honum en sá drengur var frábær í síðasta leik. Við skulum vona að hann sýni svipuð gæði í þessum leik. Fremstu þrír verða svo Havertz, Zyiech og Mount. Ég þori ekki að leyfa mér að dreyma um start hjá Mudryk þar sem hann hefur ekki spila mínútu síðan í nóvember og því virðist það vera ólíklegt. Ef marka má orð Potter mun hann samt spila hlutverk í þessum leik.Liverpool:

Mótherjar okkar frá bítlaborginni hafa verið að ganga í gegnum svipaða hvellskitu hvað varðar úrslit í leikjum. Vörnin og markið hafa gjörsamlega míglekið upp á síðkastið og þeir hafa fengið á sig níu mörk í síðustu leikjum. Fyrir umferðina sitja þeir í 10. Sæti og eru fyrir ofan okkur á markatölunni einni. Þetta verður því grjóthörð barátta um 9. sætið. Meiðslalistinn hjá þeim hefur líka verið að gera þeim erfitt. Lykilleikmenn á borð við Jota, Diaz, Van Dijk og Firmino eru meiddir og samkvæmt Fotmob eru kauðar á borð við Nunez, Elliot og Tsimikas ólíklegir til að taka þátt.


Nú er kominn tími til að hysja upp um sig buxurnar og raðflengja þetta Liverpool lið. Frá árinu 2014 höfum við bara sigrað EINN leik á Anfield í deildinni!!! Eitt er víst að síröflandi trúðurinn hann Jörgen Klopp er búinn að undirbúa sína menn vel fyrir þessa viðureign. Það vita það allir að hvorugt liðið má við tapi í þessum leik ef það á að ná í skottið á liðunum í topp 4.


Spá:

Þetta verðu þungur róður fyrir okkar menn þar sem Anfield er alltaf erfiður völlur heim að sækja. Ég ætla samt að leyfa mér að halda meðvirkni minni áfram og spá okkur sigri. Ég held að með öllum þessum leikmanna kaupum sé komið byr undir báða vængi hjá okkar mönnum sem hefur lyft leikgleði og andrúmsloftinu á hærra plan. Þessi leikur fer 0-2 fyrir okkar mönnum og koma mörkin frá Thiago Silva og það seinna frá Mudryk undir lok seinni hálfleiks. Ef þessi spá springur í andlitið á mér þá er kannski kominn tími til að panta viðtalstíma hjá Stígamótum. UPP MEÐ SOKKANA OG KTBFFH!!!

Comments


bottom of page