top of page
Search

Úrslitaleikur Evrópudeildarinnar - Chelsea vs Arsenal



Þá er komið að því! Chelsea leikur til úrslita í Evrópudeildinni nk. miðvikudag. Mótherjarnir eru erkifjendur okkar í Arsenal sem gerir leikinn þeim mun gómsætari. Leikurinn fer fram, eins og frægt er orðið, í Baku í Aserbaídsjan og hefst hann kl: 19:00.

Umdeildur úrslitaleikur

Það má með sanni segja að gustað hafi hressilega í kringum þennan blessaða úrslitaleik og hefur hvert hneykslismálið rekið annað. Til að byrja með urðu allir stuðningsmenn liðanna brjálaðir þegar ljóst varð að hvort liðið um sig fengi aðeins 5.900 miða á leikinn á velli sem tekur 70.000 manns. Var það vegna þess að flugvöllurinn í Aserbaídsjan þoldi ekki frekara álag(!). Þegar stuðningsmennirnir (og fjölmiðlar) fóru svo að skoða ferðalagið til Baku var öllum ljóst að þessi staðsetning í Aserbaídsjan var fullkomin martröð og hægara sagt en gert fyrir hinn venjulega stuðningsmann að komast þessa leið nema að millilenda á 1-2 stöðum og bíða í fjölda klukkustunda á hvorum stað fyrir sig. Einnig er ferðalagið gríðarlega kostnaðarsamt. Það varð því að lokum þannig að Chelsea seldi aðeins 2.900 miða og Arsenal 3.200 miða - restinni var einfaldlega skilað til UEFA. Bæði Chelsea og Arsenal hafa gagnrýnt UEFA fyrir val á staðsetningu en sú gagnrýni fékk ekki mikinn gaum hjá UEFA.

Svo er það þetta mál með Henrikh Mkhitaryan, leikmann Arsenal. Mkhitaryan er Armenni og það andar köldu milli Armeníu og Aserbaídsjan, í raun er ástandið þannig að Armennar eru hreinlega ekki velkomnir til Aserbaídsjan og öfugt. UEFA var hins vegar búið að gefa það út að þeir gætu tryggt Mkhitaryan vegabréfsáritun inn í landið og gætt að öryggi hans. Eftir að hafa metið valkosti sína ákvað Mkhitaryan að gefa ekki kost á sér í leikinn. Það er afar döpur niðurstaða að leikmaður treysti sér ekki að mæta í fótboltaleik af pólitískum ástæðum og sýnir enn og aftur hvað það var galin ákvörðun hjá UEFA að velja Baku sem leikstað fyrir þennan úrslitaleik - ekki er nú skortur á flottum leikvöllum í Evrópu!

Chelsea

Eins og vanalega er nóg að gerast hjá Chelsea. Ég mun gera upp tímabilið í sér færslu nokkrum dögum eftir að leikurinn gegn Arsenal klárast. Þar mun ég einnig ræða og leggja mat á framtíð Sarri og komandi félagaskiptabann. En þangað til verður bara einblínt á þennan úrslitaleik gegn Arsenal.

Það er óhætt að segja að þessi æfingaleikur sem Chelsea spilaði í Boston hafi verið dýru verði keyptur. Ruben Loftus-Cheek meiddist illa í leiknum og verður hann frá í allt að 6-8 mánuði. Eru þetta alveg svakaleg vonbrigði þar sem Loftus var endanlega búinn að slá í gegn hjá Chelsea og var ætlað stórt hlutverk á næsta tímabili. Einnig tóku meiðsli N'Golo Kanté sig upp á æfingu um daginn og er afar ólíklegt að hann taki þátt í leiknum. Chelsea munu því vera án tveggja byrjunarliðsmanna á miðjunni auk þess sem Rudiger og Hudson-Odoi eru meiddir. Það er smá meiðsla krísa í gangi hjá okkur!


Eins og fyrr segir herma nýjustu fregnir að Kanté missi af leiknum. Það þýðir að Chelsea "neyðast" til að byrja með Jorginho, Barkley og Kovacic á miðjunni. Vörnin er nokkuð sjálfvalin, Christansen og Luiz verða í hjartanu, Azpilicueta í hægri bakverði og svo spurning hvort Alonso eða Emerson verði vinstra megin - ég ætla að giska á Emerson.

Í framlínunni verður svo Hazard á sínum stað í líklega sínum síðasta leik fyrir liðið. Ég ætla að tippa á að Giroud og Pedro verði með honum.

Arsenal

Það er nákvæmlega allt undir hjá Emery og hans mönnum í Arsenal. Því auk þess að spila upp á titil, þá eru þeir einnig að spila upp á sæti í Meistaradeild Evrópu. Það má því segja að pressan sé meiri á þeim en okkur.

Það var alltaf vitað að þetta tímabil yrði ár breytinga hjá Arsenal. Emery fékk það vandasama hlutverk að koma í stað Arsene Wenger og má segja að hann hafi verið að breyta öllum kúltúrnum hjá liðinu. Það hefur gengið á ýmsu, liðið endaði í 5. sæti ensku Úrvalsdeildarinnar þar sem þeir áttu vonlausar síðustu umferðir eins og Man Utd og Spurs. Að mínu viti er Arsenal með þann leikmannahóp sem er í hvað mestu ójafnvægi. Þeir hafa heimsklassaleikmenn eins og Aubameyang og Lacazette en treysta svo mikið á leikmenn eins og Mustafi og jafnvel Lichtsteiner. Svo eru spilarar eins og Iwobi og Mkhitaryan sem skortir stöðugleika. Að lokum eru þeir svo með stórstjörnu sem heitir Mesut Özil en hann er einfaldlega búinn að vera í lægð og á ekki mikið skap með Unai Emery.


Það eru nokkrir leikmenn fjarverandi vegna meiðsla hjá Arsenal, Ramsey er meiddur og munar þar um minna. Einnig eru Bellerín, Denis Suarez og Rob Holding allir frá vegna meiðsla.

Emery hefur verið að spila 3-4-3 megnið af þessu tímabili og búast flestir við því sama á miðvikudag. Það er einkar áhugavert að okkar gamla goðsögn Petr Cech mun spila þarna sinn síðasta leik á ferlinum og það gegn Chelsea. Til að flækja málin ennþá frekar eru óstaðfestar fréttir að berast þess efnis að Chelsea sé búið að ráða Cech sem nýjan yfirmann knattspyrnumála hjá félaginu. Ef það er satt þá tel ég það mikið heillaskref hjá félaginu þar sem Cech er gríðarlega virtur innan raða Chelsea og þykir greindur og vandaður einstaklingur.

Spá og pælingar

Ég veit ekki alveg hversu bjartsýnn ég er fyrir þennan leik. Ef N'Golo Kanté er heill heilsu og spilar leikinn þá gerir það heilmikið fyrir okkar möguleika. En það er töluvert af gæðum farið úr Chelsea liðinu þegar Rudiger, Kanté og Loftus-Cheek eru ekki í liðinu.

Viðureignir liðanna í deildinni voru býsna ólíkir leikir. Chelsea vann sinn heimaleik 3-2 í mjög opnum fótboltaleik. Arsenal tóku okkur síðan í bakaríið á Emirates, 2-0, þar sem okkar menn sáu aldrei til sólar. Ég þykist vita að Emery vilji nálgast þennan leik með svipuðum hætti og sigurleikinn á Emirates. Þar mættu Arsenal með mikla hápressu á okkar menn og sáu til þess að Jorginho fengi akkurat engan tíma á boltanum - eins og svo oft áður á þessu tímabili virðist sú taktík svínvirka, sérstaklega þegar allt liðið er taktlaust eins og í umræddum leik.

Fari svo að Kanté byrji ekki leikinn þá verða bæði Barkley og Kovacic að stíga upp og eiga toppleik. Byrjunarlið Chelsea er alls ekkert verra en byrjunarlið Arsenal þrátt fyrir meiðsli Chelsea. Við erum líka með besta leikmanninn á vellinum sem heitir Eden Hazard og getur klárað svona leiki upp á sitt einsdæmi ef hann er í stuði. Vörnin og miðjan þurfa að halda hjá okkar mönnum, ef það gerist þá eru gæðin okkar umtalsverð í framlínunni til að klára þennan úrslitaleik og tryggja okkur flottan titil.

Ég ætla að spá þessum leik 1-1 og að Chelsea sigri í vítaspyrnukeppni. Hazard skorar að sjálfsögðu markið og kveður klúbbinn með stæl og leyfir okkur stuðningsmönnum Chelsea að fara skælbrosandi inn í sumarið.

KTBFFH


bottom of page