Í dag spilar Chelsea lokaleik sinn í ensku Úrvalsdeildinni tímabilið 2018/19. Leikurinn er leikinn á King Power Stadium þar sem við mætum heimamönnum í Leicester. Leikurinn hefst kl 14:00.
Chelsea
Stuðningsmennina Chelsea fóru í mikla rússíbanareið gegn Eintracht Frankfurt. Eftir góðan fyrri hálfleik þar sem Loftus-Cheek kom Chelsea yfir bönkuðu gamlir draugar upp í síðari hálfleik. Liðið virtist missa allan takt og Frankfurt menn gengu á lagið. Hinn frábæri Luka Jovic jafnaði metin og í kjölfarið fór leikurinn í framlengingu og svo vítakeppni þar sem Kepa var hetja okkar manna með því að verja tvær vítaspyrnur (aðra þeirra með afar skrautlegum hætti).
Þessi úrslit þýða að Chelsea er komið í úrslitaleik Evrópudeildarinnar þar sem andstæðingar okkar verða erkifjendur okkar í Arsenal. Leikurinn fer fram í Baku í Azerbaijan og verður leikinn þann 29. maí.
Vindum okkur í leik dagsins. Chelsea eru að fara spila við Leicester City, með sigri tryggja okkar menn sér þriðja sætið í ensku Úrvalsdeildinni. Fyrir mér er það frábær árangur, sérstaklega miðað við allt sem á undan er gengið eins og 6-0 tap gegn Man City og 4-0 tap gegn Bournemouth. Chelsea fer inn í þessa lokaumferð einu stigi á undan Spurs og mikið væri nú gaman að lenda fyrir ofan Spursaranna. Tottenham er að spila við Everton og verða vonandi með mikla Meistaradeildar-þynnku.
Það sást bersýnilega í Frankfurt leiknum að nokkrir leikmenn eru orðnir ansi þreyttir enda tímabilið búið að vera langt og strangt. Það er því spurning hvort Sarri gefi einhverjum leikmönnum frí til að jafna sig. Hins vegar eru heilir 17 dagar í úrslitaleikinn svo Sarri getur mögulega leyft sér að stilla upp sínu sterkasta liði. Christansen meiddist í leiknum gegn Frankfurt og verður líklega ekki með, Loftus-Cheek er í stanslausum vandræðum með bakið á sér og þurfti að láta skipta sér út af í síðasta leik. Ég ætla því að spá að Alonso og Zappacosta komi inn í vörnina, það myndi þýða að Azpilicueta og Luiz verða miðverðir (ég held að Cahill fái ekki mínútur). Jorginho, Kovacic og Barkley verða líklega á miðjunni og framlínan verður svo líklega skipuð Higuain, Hazard og Pedro. Sarri gæti freistast til þess að hvíla Hazard og þá væri Willian auðvitað sá sem kæmi inn í liðið.
Leicester
Eftir að Leicester City tóku þá ákvörðun um að reka Claude Puel og ráða í hans stað Brendan Rodgers hefur liðið tekið miklum framförum. Leikmannahópur Leicester er sterkur og hefur Rodgers fundið réttu blönduna af byrjunarliði. Leicester City hefur spilað átta leiki undir stjórn Rodgers, unnið fimm, tapað tveimur og gert eitt jafntefli.
Sem fyrr er hættulegast leikmaður Leicester City hinn eldsnöggi Jamie Vardy sem er búinn að vera í miklu stuði eftir áramót. Vardy er búinn að gera 18 mörk í deildinni, það skilar honum í 5. sæti yfir markahæstu menn Úrvalsdeildarinnar. Aðrir frábærir leikmenn eru leikstjórnandinn James Maddison og miðjumennirnir Ndidi og Youri Tielemans. Vörnin er svo virkilega vel skipuð með þá Ricardo Pereira og Ben Chillwell í bakvörðunum og Harry Maguire og Johnny Evans í miðvörðunum - Leicester City er með hörku gott fótboltalið!
Spá
Okkar menn eru þreyttir eftir maraþonleik í miðri viku, þessi leikur verður því strembinn. Ég ætla spá 1-1 jafntefli þar sem Chelsea halda í þá misjöfnu hefð að spila bara vel í örðum hvorum hálfleiknum. Ég held að Spurs mistakist að vinna Everton, þannig við höldum þriðja sætinu og kveðjum þannig þetta tímabil skælbrosandi.
KTBFFH