top of page
Search

Lundúnaslagur á Stamford BridgeChelsea tekur á móti West Ham United á mánudagskvöld í 33.umferð ensku Úrvalsdeildarinnar. Leikurinn hefst kl 19:00 og er sýndur í beinni á Stöð 2 Sport.

Chelsea

Í leik gegn Brighton sl. miðvikudagskvöld átti sá fágæti viðburður sér stað að Maurizio Sarri ákvað að treysta á "æskuna" í liði Chelsea. Andreas Christansen og Ruben Loftus-Cheek fengu verðskulduð byrjunarliðssæti en rúsínan í pylsuendanum var sú að undabarnið Callum Hudson-Odoi fékk einnig að hefja leikinn og það í fyrsta sinn í deildinni. "CHO", eins og hann er jafnan kallaður var ekki lengi að svara kallinu, hann lagði upp fyrsta mark leikins á Frakkann Giroud sem einnig fékk sjaldgæft tækifæri í byrjunarliðinu.


Það skemmilega við þennan 3-0 sigur á Brighton var að Chelsea liðið lék skemmtilegan og djarfan fótbolta. Tilkoma RLC og CHO inn í liðið gerir það að verkum að Chelsea sýnir mun meiri áræðni á síðasta þriðjung vallarins. Ungu drengirnir taka meiri sénsa og á það sérstaklega við í tilfelli RLC, hann er einfaldlega einum klassa ofar en Kovacic og Barkley. Þetta losar meira um Eden Hazard, sem þar að leiðandi verður mikið mun hættulegri.

Það var einnig allt annað sjá til Jorginho í leiknum, að mínu viti var þetta hans besti leikur í treyju Chelsea og skiptir þar miklu að liðið var mikið mun hreyfanlegra og ekki eins fyrirsjáanlegt eins og undanfarna mánuði. Myndin hér til hliðar sýnir vel hversu mikil áhrif Jorginho hafði á leikinn - það fór bókstaflega allt í gegnum hann.

Fyrir mér fann Sarri þarna blönduna sína - þetta er liðið sem hann á að treysta á það sem eftir er af mótinu. Auðvitað þarf hann að rúlla liðinu eitthvað enda, margir leikir á skömmum tíma út af þátttöku Chelsea í Evrópudeildinni. En þetta lið sem við sáum gegn Brighton á að vera sem oftast inni á vellinum það sem eftir lifir tímabilsins.


Þá kemur stóra spurningin, hvað gerist gegn West Ham. Sarri gaf ekki mikið upp á blaðamannafundi, hann var eins og vanalega spurður út í það hvort CHO myndi byrja leikinn. Hann svaraði því til að hann vissi það ekki, því hann þyrfti að hafa leikinn gegn Slavia Prag í huga. Ég ætla að spá þessu liðinu hér til hliðar gegn West Ham.

Ruben Loftus-Cheek er víst tæpur eftir leikinn gegn Brighton og finnst mér ólíklegt að Sarri fórni honum í þetta verkefni. Ég tippa á að Barkley komi í hans stað og að Christansen missi einnig sæti sitt til Rudiger. Þetta eru einu breytingarnar sem ég sé í kortunum. Ég vona innilega að Sarri haldi CHO inni í liðinu og láti Pedro og Willian bara ferska í leikinn gegn Prag á fimmtudag.

Ef Sarri er í breytingarham gæti vel verið að hann hvíli Jorginho og láti Kovacic spila í hans stað. Einnig gæti Alonso komið aftur í vinstri bakvörðinn. Svo er spurning hvort Huguain fái aftur traustið, Sarri virðist hafa gríðarlega mikla trú á honum þrátt fyrir heldur daprar frammistöður þess argentíska.

Sjáum hvað setur.

West Ham

"Hamrarnir" eru frekar skrítið fótboltalið. Þeir hafa gríðarlega hæfileikaríka fótboltamenn (sérstaklega fram á við) innan sinna raða. En þeir virðast bara mæta til leiks í öðrum hverjum leik, eða janvel þriðja hverjum leik. Leikmenn eins og Felipe Anderson, Arnautovic, Lanzini, Chicarito og Antonio skortir ekki hæfileikana, heldur fyrst og fremst stöðugleikann.

Það voru miklar væntingar gerðar til West Ham fyrir tímabilið. Kaupin á Anderson, Issa Diop og Yarmolenko (sem meiddist snemma á tímabilinu) voru öll talin mjög sterk. Einnig réði liðið hinn farsæla Manuel Pellegrini í stað hins óvinsæla David Moyes. West Ham byrjaði tímabilið illa en rétti svo fljótt úr kútnum. Sem stendur sigla þeir lygnan sjó í 11. sæti deildarinnar með 42 stig.

Pellegrini vill sækja og því kristallast veikleiki West Ham. Þeir eru með sjöttu verstu vörnina í deildinni og markvörðurinn þeirra, Lukaz Fabianski, er í þriðja sæti yfir þá markmenn sem hafa varið flest skot í deildinni - þeir eru að fá fullt af færum á sig.

Jákvæðasti punktur West Ham á tímabilinu er Declan Rice. Þessi tvítugi strákur hefur sprungið út og er einn efnilegasti djúpi miðjumaður í heimi. Það er jafnvel talið að Pep Guardiola sjái hann fyrir sér sem arftaka Fernandinho hjá Man City.

Spá

Eins og fyrr segir er West Ham mjög óstöðugt lið. Þeir gætu verið á vondu dögunum sínum og þá getað mjög lítið. Eða þá að þeir ákveði að mæta til leiks og sýna hvað í þeim býr. Eitt er víst, það má ekki gefa þessum hæfileikaríku leikmönnum eitt né neitt. Cardiff leikurinn var gott dæmi um leik þar sem Chelsea var hvað eftir annað að gefa andstæðingnum góðar leikstöður, en Cardiff skorti hreinlega gæðin til þess að nýta sér það. West Ham mun nýta slíkar gjafir.

Hitt er svo annað mál að við eigum að geta skorað fullt af mörkum á þetta lið ef við byrjum með réttu mennina inn á. Ef Hazard, CHO og Giroud byrja hef ég ekki áhyggjur og spái okkur góðum 2-0 sigri.

KTBFFH


bottom of page