top of page
Search

Framtíð Eden Hazard og Hudson-OdoiEitt stærsta vandamál sem Chelsea Football Club stendur frammi fyrir þessa dagana eru samningamál Eden Hazard og Callum Hudson-Odoi. Í þessum pistli ætla ég að reyna greina stöðu beggja leikmanna og leggja mat á hvað Chelsea þurfi að gera til þess að sannfæra báða þessa leikmenn að skrifa undir nýja samninga við félagið.

Eden Hazard

Ef við byrjum á belgíska snillingnum að þá hefur það ekki verið launungamál að hann dreymir um að spila fyrir Real Madrid og hefur gert það frá blautu barnsbeini. Þrátt fyrir þráláta orðróma undanfarin 2-3 ár hafa Real Madrid aldrei komið með alvöru tilboð og Hazard hefur aldrei ýtt á eftir því að fara frá Chelsea - mögulega verður breyting þar á næsta sumar.

Eden Hazard er um margt mjög sérstakur persónuleiki. Hann er mjög afslappaður og léttur á bárunni, alltaf brosandi og virkar stundum eins og knattspyrna hafi ekkert alltof mikil áhrif á hann. Hann er óeigingjarn á velli og sumir hafa gengið svo langt að segja hann skorta siguvilja eða þetta drápseðli sem t.d. Ronaldo og Messi hafa. Það er líka óvenjuleg staðreynd að Eden Hazard hefur aldrei haft umboðsmann, nema mögulega pabba sinn sem er ekki menntaður sem slíkur eða starfandi innan þess geira að neinu leiti. Dæmi um þetta er þegar Hazard skrifaði undir síðasta samning sinn við Chelsea, þá mætti hann einsamall - ekki einu sinni með lögfræðing með sér til að fínpússa einhver atriði eins og oft er venja í slíkum aðstæðum.


En það er eitt sem ekki nokkur maður efast um; Eden Hazard elskar Chelsea Football Club. Hann elskar að búa í London þar sem hann hefur fest rætur og allri fjölskyldu hans líður vel í borginni. Þannig hefur Hazard sagt að það sé ekkert vandamál hans vegna ef hann fari ekki til Real Madrid, hann er hamingjusamur hjá Chelsea.

Þó að Hazard segi þetta út á við verður að taka aðra hluti með inn í reikninginn. Hann hefur lýst yfir metnaði sínum til að vinna Meistaradeildina og vill að Chelsea sýni samskonar metnað - eitthvað sem er fjarlægur draumur með núverandi leikmannahóp og yfirvofandi félagaskiptabann. Þegar þetta er skrifað er Chelsea í harðri baráttu um að komast hreinlega í Meistaradeildina á næsta tímabili. Þannig fyrsti augljósi punkturinn til að sannfæra Hazard um að vera áfram er að tryggja sér sæti í Meistaradeildinni á þessu tímabili.

Chelsea þarf einnig að leggja upp raunhæft 2-3 ára plan um að komast aftur í hóp þeirra bestu með Hazard sem okkar aðal leikmann, og það þrátt fyrir þetta félagaskiptabann. Það eru efnilegir leikmenn að koma upp hjá félaginu en Hazard þarf meira, hann þarf loforð frá okkar æðstu stjórnendum þess efnis að Chelsea muni reyna að kaupa heimsklassa leikmenn til að styrkja hópinn og fara aftur að berjast um stóru titlana.

Lokapunkturinn er svo að höfða til samvisku Hazard, gera hann að fyrirliða félagsins og gera honum grein fyrir því hvers konar goðsögn hann getur orðið hjá Chelsea. Undirritaður var beðinn um að velja þrjá bestu leikmenn í sögu Chelsea og valdi ég hann þann þriðja besta, svo góður fótboltamaður er hann að mínu viti. En til að koma sér í hóp með Terry og Lampard þarf Hazard að skrifa undir nýjan fimm ára samning og verða þannig goðsögn hjá einu stærsta liði Englands - það eru ekki margir fótboltamenn sem geta afrekað það.

Jafnvel þó Chelsea lofi öllu fögru, bjóði honum svimandi há laun, alvöru leikmannahóp og tryggi sér sæti í Meistaradeildinni mun það mögulega ekki duga til. Það eru ekki margir leikmenn í nútíma fótbolta sem hafna Real Madrid. Svo einfalt er það. Ég var þokkalega bjartsýnn á að Hazard myndi framlengja þegar Real var í bullinu með Solari sem þjálfara og allt virtist eitthvað hálf ómögulegt þar á bæ. En með endurkomu Zidane eru ferskir vindar að blása um þetta stórveldi auk þess sem Florentino Perez og Zidane hafa boðað rótækar breytingar á leikmannahópnum. Real Madrid eru aftur orðinn verulega spennandi kostur og leikmaður eins og Hazard ætti örugglega erfitt með að segja nei ef kallið kæmi.

Þá er það bara loka spurningin - mun kallið koma frá Madrid? Ef eitthvað er að marka slúðurblöðin þá virðist Hazard vera einn af mörgum leikmönnum sem koma til greina hjá Zidane. Mbappe, Neymar, Mané og Hazard er allir nefndir sem þessi næsta stórstjarna, en þó að Real Madrid séu efnaðir að þá geta þeir í mesta lagi keypt einn af þessum leikmönnum því það hefur lekið út að það verði keypt í fleiri stöður eins og miðjumaður og annar hreinræktaður framherji til að leysa Benzema af hólmi.

Niðurstaða: Ef Hazard fær sénsinn á að fara til Real Madrid, þá mun hann líklega gera það, því miður. Möguleikar Chelsea felast fyrst og fremst í því að Perez takist að kaupa Mbappe eða Neymar frá PSG og þannig þurfi þeir ekki lengur á Hazard að halda. Vonum það besta.

Callum Hudson-Odoi

Vefsíðan Goal.com tók saman mjög vandaðn og vel unnin list yfir efnilegustu unglinga í heiminum. Hægt er að nálgast listann með því að ýta hér. Í fyrsta sæti listans er undrabarnið Jadon Sancho, í öðru sæti er hinn stórbrotni Vincius Jr. hjá Real Madrid, í þriðja sæti er svo okkar eini sanni Callum Hudson-Odoi. Ég held að CHO (eins og við köllum hann) geti, eftir nokkur ár, orðið einn besti fótboltamaður í heimi, ég hef aldrei séð viðlíka hæfileika hjá okkar félagi á þessum aldri. Auvðitað þegar það gerist að slíkt efni kemur upp hjá Chelsea þá er yfirstjórninni og stjóranum búið að takast að klúðra málunum þannig að leikmaðurinn sjálfur hefur beðið um sölu og vill komast til FC Bayern.

Fólk þarf að átta sig á því að CHO hefur verið hjá Chelsea frá því að hann var átta ára gamlall! Það hefur verið hans draumur að spila með Chelsea og vinna titla með Chelsea. Það er hins vegar þannig að hann vill fá sanngjarna samkeppni. Núna er ég auðvitað ekki á æfingasvæði Chelsea og veit ekki hvernig hann hefur verið að standa sig þar en það er mér fullkomlega hulin ráðgáta hvernig Sarri hefur tekist að styggja Hudson-Odoi með því að nota Pedro og Willian ítrekað í hans stað. Sarri hefur tönglast á því að leikmenn eins og CHO þurfi að fá að þroskast osfrv. Þessi blessaði leikur er nú samt bara þannig að ef þú ert nægilega góður, ertu nægilega gamall.


Núna á föstudagskvöld gerði Gareth Soutgate Hudson-Odoi að yngsta Englendingi í sögunni til þess að spila alvöru keppnisleik fyrir enska landsliðið. Southgate hefur hrósað CHO mikið fyrir að vera þroskaður og segir hann klárlega tilbúinn til þess að spila meira en hann hefur verið að gera. Þetta eru skýr skilaboð til Sarri.

Hudson-Odoi á ekki nema 16 mánuði eftir að núverandi samningi. Til þess að halda honum þarf Sarri að byrja á því að spila honum í nánast öllum leikjum sem eftir eru af tímabilinu og láta hann finna fyrir mikilvægi sínu. Hann og Hazard eiga bara að byrja í þessum vængframherja stöðum og ef hann stendur sig ekki nægilega vel getum við alltaf sett Pedro eða Willian inn í leikina. Ef Hudson-Odoi fær traustið sem hann á skilið er ég fullviss um að hann muni að lokum krota undir nýjan samning. Hann er enskur og vill spila á Englandi með sínum uppeldisklúbbi, hann hefur gefið það sterklega í skyn. En hann getur bara ekki sætt sig við að spila nánast ekki neitt þegar menn eins og Willian og Pedro eru að eiga frekar slaka leiki en eru ítrekað teknir fram yfir hann. Ég get ekki annað sagt en að skilji CHO vel þegar risaklúbbur eins og FC Bayern kemur með fögur loforð, stóran samning og tilbúnir að borga 35 milljónir punda fyrir leikmann sem hefur ekki einu sinni byrjað leik í ensku Úrvalsdeildinni. Þetta hljómar eins og Bayern hafi meiri trú á CHO heldur en Chelsea!

Næsta sumar þarf klúbburinn að sýna það í verki að ætlunin sé að nota hann. Chelsea er búið að kaupa Christan Pulisic sem er vængmaður, þetta þýðir að Chelsea þarf að losa sig við annað hvort Pedro eða Willian, fari svo að Hazard og CHO verði báðir áfram. Það er líka algert lykilatriði að halda CHO, ef Hazard ákveður að fara til Real Madrid! Bara svo ég undirstriki trú mína á þessum dreng að þá myndi ég frekar kjósa það að hann myndi framlengja við okkur heldur en Eden Hazard - ég held bara að hann geti orðið það góður.

Niðurstaða: Ef Hudson-Odoi fær traustið og félagið býður honum risastóran samning er ég nokkuð viss um að strákurinn framlengi við okkur, en það er algerlega háð því að Sarri byrji að nota hann og það strax. Það er okkar að sannfæra hann um hversu mikilvægur hann er og klukkan er að tifa.

Lokaorð

Með góðri útsjónarsemi og smá heppni gæti Chelsea endað með að halda bæði Hazard og Hudson-Odoi innan raða félagsins. Með óheppni og klaufaskap gæti liðið auðvelda misst þá báða. Marina Granovskaia og Maurizio Sarri, þið eigið leik og í guðanna bænum - ekki klúðra þessu!

KTBFFH


bottom of page