top of page
Search

Heimsókn til ÚlfannaÞað besta við desember eru ekki jólin eða jólahlaðborðin, nei það er allur þessi blessaði fótbolti sem við fáum að njóta. Áður en desember er á enda mun Chelsea hafa leikið 11 leiki í öllum keppnum sem er gríðarlegt magn á einum mánuði. Næsti leikur er heimsókn til nýliða Wolves. Leikurinn er á miðvikudagskvöld og hefst hann kl 19:45.

Wolves

"Úlfarnir," eins og þeir eru jafnframt kallaðir hér á landi, hafa á að skipa áhugaverðu liði. Þjálfarinn þeirra er portúgalskur og heitir því einfalda nafni Nuno Espírito Santo. Hann er 44 ára, fyrrum markvörður og lék hann til að mynda með liðum eins og Porto, Dinamo Moskvu og Osasuna. Hann fór hins vegar strax út í þjálfun af ferlinum loknum og þykir öflugur þjálfari. Hann hefur þjálfað bæði Valencia og Porto á ferli sínum og náði m.a. 4 sætinu með Valencia árið 2015 sem þótti góður árangur.


Hann lenti hins vegar í öðru sæti á sínu eina tímabili með Porto í bæði deild og bikar og það þykir ekki nægilega gott á þeim bænum, því var hann rekinn þaðan í maí 2016. Á sama tíma voru Wolves að fá nýja eigendur og markmiðið var að koma liðinu í deild þeirra bestu. Þeir buðu Santo starfið og aðeins viku eftir að hann var rekinn frá Porto var hann ráðinn þjálfari Wolves.

Santo gerði frábærlega á sínu fyrsta tímabili með Wolves. Þeir burstuðu hina krefjandi Championship deild, enduðu með 99 stig úr 46 leikjum. Hann fékk til sín sterka leikmenn eins og hinn unga Ruben Neves sem flestir voru sammála um að væri einfaldlega of góður fyrir Championship deildina.

Wolves voru mjög virkir á leikmannamarkaðnum síðastliðið sumar og fengu til sín ellefu nýja leikmenn sem kostuðu samtals yfir 70 milljónir punda. Af þessum nýju leikmönnum voru fjórir Portúgalir, margir hverjir öflugir landsliðsmenn eins og Moutinho, markvörðurinn Rui Patricio og svo framherjinn Raul Jiménez.

Wolves byrjuðu leiktíðina mjög sterkt og spáðu margir að þeir yrðu eitt af spútník liðum deildarinnar en enska Úrvalsdeildin er erfið deild og síðustu vikur hafa reynst Wolves erfiðar. Þeir hafa aðeins fengið 1 stig af síðustu 18 mögulegum og sitja núna í 12. sæti með 16 stig. Þeir töpuðu síðasta leik gegn Cardiff 2-1 eftir að hafa komist yfir í leiknum, það er augljóslega lítið sjálfstraust í þeirra herbúðum þessa stundina. Þeirra helsti höfuðverkur hefur verið að koma tuðrunni í netið, þeir hafa aðeins skorað 13 mörk í þessum 14 leikjum en aðeins fjögur lið í deildinni hafa skorað jafnmikið eða minna. Þeir eru hins vegar mjög skipulagðir varnarlega og hafa aðeins fengið á sig 17 mörk. Spilamennska Wolves undir Santo minnir um margt á leikstíl Chelsea undir Antonio Conte. Þeir notast við leikaðferðina 3-4-3 þar sem vængbakverðirnir halda mikilli breidd og þeir vilja spila stutt úr vörninni þegar færi gefst en taka engu að síður ekki mikla sénsa varnarlega. Þeir vilja hreyfa boltann hratt upp í gegnum miðjuna þar sem bæði Neves og Moutinho eru góðir á boltann og reyna setja upp 1 vs 1 stöður hjá fremstu mönnum Wolves - hljómar einfalt en er alls ekki auðvelt í útfærslu. Það er til marks um gæðin í Wolves að þeir náðu góðu jafntefli gegn Man City á Molineux vellinum fyrr í vetur og voru verulega óheppnir að hreinlega vinna ekki Man Utd á Old Trafford.

Chelsea

Sigurinn á Fulham var lífsnauðsynlegur í þeirri hörðu baráttu sem framundan er um meistaradeildarsæti. Sigur Arsenal á Spurs sprengdi þetta alveg í loft upp og eru Chelsea Spurs og Arsenal nánast öll á sama fermetranum í deildinni. Arsenal á erfiðan leik gegn Man Utd á Old Trafford en Spurs fær líklega gefins 3 stig gegn Southampton. Ef Chelsea ætlar sér að halda í þetta þriðja sæti verðum við að vinna leiki eins og á útivelli gegn Wolves.

Spilamennskan gegn Fulham var á köflum slök sóknarlega. Sérstaklega í ljósi þess að okkar menn fengu draumabyrjun með marki Pedro eftir 4 mínútur. Vörnin var þó nokkuð örugg og bæði Kanté og Jorginho spiluðu vel. Ég hef talað um það núna nokkrar færslur í röð að Loftus-Cheek eigi að fá sæti í byrjunarliðinu og vona að Sarri verði mér sammála fyrir þennan leik. Leikur Chelsea batnaði til mikilla muna er hann kom inn á fyrir Kovacic og að sjálfsögðu nældi hann sér í mark. Loftus-Cheek er allt öðruvísi en bæði Kovacic og Barkley þar sem hann getur ráðist á varnir andstæinganna og skapað mikinn usla, hann virðist líka ná vel saman við Hazard. Vonandi byrjar hann gegn Wolves. Ég spái byrjunarliðinu svona:


Þar sem þetta er umferð í miðri viku verður líklega eitthvað um hræringar í liðinu. Ég spái því að Christensen fái sinn fyrsta byrjunarliðsleik í deildinni og að Loftus-Cheek og Willian komi inn fyrir Pedro og Kovacic. Ég væri til í að sjá Fabregas fá leik á kostnað Jorginho eða jafnvel Emerson á kostnað Alonso en held að það verði ekki raunin.

Spá

Wolves hafa sýnt það og sannað að þeir spila yfirleitt vel gegn sterkum liðum, sérstaklega á heimavelli. Ég á því seint von á einhverri flugeldasýningu en held að okkar menn nái að kreista fram sigur og að það verði Giroud með dramatískt sigurmark í 0-1 sigri.

KTBFFH


bottom of page