top of page
Search

Sarri fær Ranieri í heimsóknChelsea mæta grönnum sínum í Fulham stundvíslega kl 12:00 nk. sunnudag í ensku Úrvalsdeildinni. Leikurinn verður leikinn á okkar ástkæra Stamford Bridge.

Fulham

Fótbolti getur oft á tíðum verið furðuleg íþrótt. Eina stundina ertu bragð mánaðarins og öllum líkar vel við þig, örskotsstundu síðar ertu atvinnulaus þjálfari - Slavisa Jokanović er búinn að fara í gegnum þennan tilfinninga rússíbana undanfarin misseri.

Eftir að hafa komið Fulham upp í deild þeirra bestu fékk hann nýjan samning og var meira að segja orðaður við stjórastöðuna hjá Chelsea um tíma. Jokanović lét Fulham spila leiftrandi sóknarbolta og planið var að halda því áfram í Úrvalsdeildinni. Eigandi Fulham opnaði veskið með miklum myndarbrag keypti hvorki fleiri né færri en 12 nýja leikmenn, sumir hverja þekkta eins og Jean Seri, André Schürrle og Mitrovic.


Í raun var það þannig að Fulham eyddi hvað mestum fjárhæðum í síðasta leikmannaglugga, yfir 100 milljónum punda. En eins og fyrr segir, gekk nákvæmlega ekkert upp hjá Jokanović kallinum, Fulham voru að leka mörkum eins og engin væri morgundagurinn auk þess sem liðið breytti ótt og títt um leikkerfi. Jokanović var að lokum rekinn og í hans stað kom gamli Chelsea stjórinn og kraftaverkamaðurinn frá Leicester, Claudio Ranieri.

Ég er 100% viss um að Ranieri mun stýra Fulham úr fallbaráttunni. Fulham eru með höku góðan leikmannahóp og um leið og Ranieri nær að stilla vörnina betur saman byrja þeir að safna stigum, í raun eru þeir þegar byrjaðir því Fulham vann sinn fyrsta sigur í óratíma með góðum 3-2 sigri á Southampton í síðustu umferð.

Ranieri mun pott þétt fara með liðið "back to basics". Hann er ítalskur og elskar góðan varnarleik. Við megum því eiga von á þéttum varnarmúr fyrir framan mark Fulham á sunnudag.

Chelsea

Það var kærkomið að horfa á Chelsea vinna sannfærandi 4-0 sigur á PAOK á fimmtudagskvöldið. Hins vegar þarf að hafa í huga að PAOK léku manni færri auk þess sem mikill gæðamunur er á þessum liðum. Callum Hudson-Odoi tókst að sýna gæði sín auk þess sem Olivier Giroud skoraði kærkomna tvennu. Menn leiksins voru engu að síður (að mínu viti) Fabregas og Loftus-Cheek. Cesc lagði upp tvö mörk og lék virkilega vel og Loftus-Cheek var gjörsamlega frábær að bera boltann upp miðjuna og taka menn á um allan völl. Það er mín bjargfasta trú að Loftus-Cheek eigi að vera þriðji miðjumaðurinn okkar, hann hefur mestu sköpunargáfuna og hefur þann sjaldgæfa eiginleika að geta búið til eitthvað úr engu.

Ég spái byrjunarliðinu svona á sunnudag:


Ég held að eina breytingin frá leiknum á sunndag verði sú að Giroud komi inn á kostnað Morata. Ef ég fengi að ráða myndu bæði Christensen og Loftus-Cheek koma inn á kostnað Kovacic og David Luiz. Það er alveg spurning hvort Willian eða Pedro byrji, ég ætla að geta mér til að það verði Willian. Sarri virðist vera mjög fastheldinn og sú staðreynd að Kovacic spilaði ekki eina mínútu gegn PAOK gefur til kynna að hann verði í byrjunarliðinu. Annað kæmi alla vega á óvart.

Spá

Eftir hörmungina gegn Spurs að þá mega stuðningmenn Chelsea ekki við frekari sárum á stoltinu. Það dugar ekkert annað en sigur gegn Fulham en þeir eru jú okkar næstu nágrannar. Það verður hins vegar fróðlegt að sjá hvernig Chelsea leysir úr þeim vandamálum sem önnur lið hafa verið að skapa okkur. Það er alveg bókað mál að Jorginho mun áfram fá á sig yfirfrakka og reynt verður að einangra hann frá uppspilinu. Sarri hefur talað um hina einföldu lausn að sýna meira hugrekki og spila hraðar - það verður virkilega áhugavert að sjá hvernig okkar menn bregðast við þessum áskorunum. Svo þarf Eden Hazard (sem á víst að vera leikfær) að sýna sínar réttu hliðar aftur en hann hefur ekki skorað í 5 síðustu leikjum liðsins.

Ég spái 2-1 sigri.

KTBFFH


bottom of page