top of page
Search

Gylfi Sig og félagar heimsækja Stamford Bridge



Chelsea tekur á móti Everton á Stamford Bridge á sunnudag í 12. umferð ensku Úrvalsdeildarinnar. Leikurinn hefst kl 14:15. Það er gaman að segja frá því að undirritaður verður á leiknum ásamt nokkrum öðrum íslenskum Chelsea stuðningsmönnum – vonandi fær hópurinn að sjá allar bestu hliðarnar á okkar mönnum og örugg þrjú stig.

Everton

Gylfi Sig og félagar eru á ágætis siglingu með þrjá sigra í síðsutu fjórum leikjum. Everton sitja fyrir leikinn í 9. sæti deildarinnar með 18 stig, þeir hafa unnið 5 af 11 leikjum sínum, gert 3 jafntefli og tapað 3 leikjum. Að mínu viti má færi mjög sterk rök fyrir því að Everton séu með besta hópinn í deildinni að undanskildum „stóru 6“ liðum deildarinnar. Á síðsutu tveimur árum hafa nýir eigendur tryggt liðinu umtalsverða fjármuni sem þeir hafa nýtt til þess að styrkja hópinn verulega. Þeirra dýrasti leikmaður er auðvitað Gylfi Þór Sigurðsson en hann ásamt Brassanum Richarlison eru þeirra bestu menn.

Everton lenti í tómu rugli í fyrra og það þrátt fyrir mikil fjárútlát sem fólust m.a. í kaupunum á Gylfa, Rooney, Jordan Pickford og Michael Keane. Liðið byrjaði tímabilið afleitlega og Ronald Koeman fékk að taka pokann sinn. Sam Allardyce var fenginn til þess að taka við liðinu við litlar vinsældir stuðningsmanna Everton. Eftir tímabilið losaði Everton sig við „Big Sam“ og fengu hinn efnilega Portúgala, Marco Silva, til að taka við starfinu. Silva bætti vel í hópinn og virðist vera að búa til hörku gott Everton lið sem á að hafa alla burði til þess að lenda í 7. sæti deildarinnar.

Sé mið tekið af síðustu leikjum má búast við þessu byrjunarliði hjá Everton:


Everton mun verða án okkar manns, Kurt Happy Zouma, en hann er ólöglegur í leiknum enda í eigu Chelsea. Zouma hefur verið að byrja undanfarna leiki hjá Everton og þótt standa sig ágætlega. Miðlar eru sammála um að Kolumbíumaðurinn Yerri Mina muni byrja leikinn í stað Zouma. Brassinn Richarlison er einnig tæpur fyrir leikinn en hann hefur átt frábæra leiki fyrir Everton og skorað 6 mörk í 9 leikjum í deildinni. Ef hann byrjar ekki má gera ráð fyrir að annað hvort Tyrkinn Cenk Tosun eða hinn efnilegi Calvert-Lewin taki stöðu hans sem fremsti maður.

Everton hafa bæði gæði og hraða á vængjunum þar sem annar Brassi að nafni Bernard spilar ásamt Theo Walcott. Potturinn og pannan í þessu liði er samt Gylfi Þór og hefur hann verið funheitur upp á síðkastið, m.a. var hann tilnefndur sem leikmaður október mánaðar.

Marco Silva er alvöru þjálfari og einkennist leikstíll hans að miklu jafnvægi milli varnar og sóknar. Eins og sést hér að ofan hafa Everton verið að spila 4-2-3-1 þar sem Idrissa Gueye og Andre Gomes sitja djúpir á miðjunni og styðja við varnarlínuna. Ég vænti þess að Everton verði varkáir í leiknum en þeir munu ekki bara sitja til baka, þeir munu reyna að pressa okkur, sérstaklega í uppspilinu þegar við eigum markspyrnur. Everton liðið hefur líka mikla hlaupagetu með títtnefndan Gylfa fremstan í flokki svo mögulega mun Gylfi vera settur sem yfirfrakki á Jorginho eða í það minnsta reyna að setja verulega pressu á okkar mann þegar Chelsea sækja. - Eitt er víst, Everton munu mæta vel undirbúnir til leiks.

Chelsea

Að mínu viti náðu okkar menn ekki að hvíla nægilega marga leikmenn gegn BATE í miðri viku. Jorginho spilaði allan leikinn, auk þess sem Pedro, Willian og Hazard spiluðu allir slatta. Það góða við þetta var að Kanté fékk hvíld en þurfti þó að taka þetta langa ferðalag út af veikindum Fabregas.

Ég spái byrjunarliðinu svona:


Eins og staðan er í dag eru í raun bara tvö spurningarmerki, þ.e. hvort Kovacic eða Barkley byrja vinstra megin á miðjunni og hvort Willian eða Pedro byrja á hægri vængnum. Í þessum leik geri ég ráð fyrir að Kovacic og Willian fái kallið.

Hazard mun koma aftur inn í byrunarliðið en hann átti engu að síður dapran dag gegn BATE á fiimmtudag, eins og reyndar flestir af sóknarmönnum Chelsea. Það verður einnig virkilega fróðlegt að sjá hvort Morata haldi áfram á beinu brautinni – ég hef látið hafa það eftir mér að Chelsea sé einum heimsklassa markaskorara frá því berjast við Man City um titilinn, kannski, bara kannski (!) er Morata sá markaskorari eftir allt.

Spá

Síðast þegar Chelsea átti útileik í Evrópudeildinni og þá gerði liðið jafntefli við West Ham. Það er meira en að segja það að spila á fimmtudegi og svo strax aftur á sunnudegi eftir langt ferðalag. Þá fær liðið í raun bara einn dag í undirbúning sem er laugardagurinn. Vissulega tókst Chelsea að hvíla slatta af mönnum svo vonandi dugar það til svo leikjaálagið komi ekki niður á spilamennskunni.

Ég ætla að spá dramatískum 2-1 sigri Chelsea í leik sem verður okkur erfiðari en margur heldur.

KTBFFH


bottom of page