top of page
Search

Crystal Palace mæta á Stamford BridgeChelsea tekur á móti Crystal Palace í ensku Úrvalsdeildinni á morgun, sunnudag og hefst leikurinn kl 16:00. CFC.is hvetur allt Chelsea fólk að mæta á aðalfund Chelsea klúbbsins sem hefst kl 14:30 þennan sama dag í Hvammi á Grand Hótel. Eftir hefðbundin aðalfundarstörf og aðra dagskrá verður svo horft á leikinn.

Crystal Palace

Andstæðingar okkar að þessu sinni eru í töluverðri brekku. Palace unnu síðast leik í deildinni þann 15. september gegn Huddersfield. Þeir höfðu tapað þremur leikjum í röð þangað til þeir náðu í gott 2-2 jafntefli gegn Arsenal í síðustu umferð. Aðal höfuðverkur Palace hefur verið að skora mörk en mörkin sem liðið skoraði gegn Arsenal voru þau fyrstu á heimavelli þeirra í vetur. Það segir kannski sitt að Christan Benteke er eini framherjinn í ensku Úrvalsdeildinni sem er með verri færanýtingu en Alvaro Morata en hann er einmitt dýrasti leikmaður Crystal Palace.

Þeirra lang besti leikmaður er Wilfried Zaha og hefur sá kappi oft reynst okkur Chelsea mönnum erfiður viðureignar enda hörkuspilari sem gæti vel spjarað sig hjá stærra liði. Það þarf að passa vel upp á hann í leiknum á morgun. Roy Hodgson hefur þótt skila góðu starfi eftir að hann tók við liðinu af Frank De Boer í fyrra, hann stýrði þá liðinu til ellefta sætis í deildinni eftir að hafa tekið við þeim á botni deildarinnar. "King Roy" eins og margir Liverpool menn kalla hann spilar ekkert voðalega flókinn fótbolta. Hann vill sækja hratt og beinskeitt, nýtir vel vængmennina en passar líka vel upp á markið sitt með því að spila með varnarlínu sem liggur frekar aftarlega og er þétt fyrir.

Chelsea

Okkar menn hafa verið að vinna leiki og skora mörk upp á síðkastið og er það frábært. Síðasti leikur gegn Derby var ögn sérstakur þar sem Derby tókst oft og reglulega að skapa stórhættu við mark Chelsea - Christansen og Cahill gerðu sjálfum sér engan greiða í þeim leik.

Einu forföll Chelsea fyrir leikinn eru Ethan Amapdu og Olivier Giroud. Eden Hazard mun taka þátt í leiknum en það er óvíst hvort hann byrji leikinn. Ég ætla að spá byrjunarliðinu svona:


Vörnin er orðin þaulæfð og Sarri er aldrei að fara breyta neinu þar. Barkley er okkar heitasti maður og mun byrja vinstra megin á miðjunni þannig að bæði Loftus-Cheek og Kovacic þurfa að sætta sig við bekkinn. Ef Hazard byrjar ekki leikinn er líklegt að Pedro og Willian byrji þá á vængjunum nema að Sarri leyfi Loftus-Cheek áfram að spreyta sig á hægri vængnum.

Spá

Crystal Palace sýndi hörkuleik gegn Arsenal og voru í raun óheppnir að vinna hreinlega ekki þann leik. Þeir eru vel mannaðir með leikmenn eins og van Aanholt, Luka Milivojevic, Sakho ásamt títtnefndum Zaha. Svo ungur strákur að nafni Aaron Wan-Bissaka búin að slá í gegn hjá þeim í vetur. Það er nú samt þannig að þessi leikur á að vera skyldusigur fyrir Chelsea, sérstaklega á heimavelli. Það mikilvægasta í þessu fyrir Chelsea er að skora snemma og ná þannig að vanka Crystal Palace sem eru með takmarkað sjálfstraust fyrir.

Ætla að spá áframhaldandi velgengni og góðum 2-0 sigri.

KTBFFH


bottom of page