top of page
Search

Goðsögnin Frank Lampard snýr aftur á Stamford BridgeÞað er þétt spilað þessa dagana. Næsti leikur Chelsea er strax á miðvikudagkvöld gegn Derby County. Liðinu er stýrt af Chelsea goðsögninni Frank Lampard sem væntanlega mun fá hlýjar móttökur þegar hann snýr aftur. Leikurinn hefst kl: 19:45

Sorgarfréttir


Chelsea vann frábæran sigur á Burnley um liðna helgi þar sem okkar menn léku á alls oddi og skoruðu fjögur góð mörk. Hins vegar var þessi helgi mjög harmþrungin fyrir stuðningsmenn enskrar knattspyrnu þar sem eigandi Leicester City, Vichai Srivaddhanaprabha, fórst ásamt fjórum öðrum í hræðilegu þyrluslysi skömmu eftir leik Leicester og West Ham á laugardagskvöld. Þetta slys rifjar upp sárar minningar um Chelsea öðlingin Matthew Harding sem einnig fórst við svipaðar aðstæður árið 1996. Vichai var gríðarlega vinsæll innan Leicester og segja má að hann hafi átt stóran hluta í mesta knattspyrnukraftaverki sögunnar er Leicester City vann ensku Úrvalsdeildina árið 2016 – megi Vicai hvíla í friði.

Því miður voru þessar fregnir ekki þær einu slæmu sem bárust þennan dag. Glenn Hoddle, fyrrum þjálfari og leikmaður Chelsea, fékk hjartaáfall er hann var að undirbúa sig undir útsendingu hjá BT Sport fyrri part laugadags. Snar handtök starfsfólk BT Sport tryggðu að Hoddle lifði af og er ástand hans núna metið stöðugt. Vonandi jafnar hanm sig sem allra fyrst.

Derby County

Eins og fyrr segir stýrir Frank Lampard Derby County. Lamps tók við liðinu núna í sumar og er þetta hans fyrsta starf í þjálfun. Derby eru með mikinn metnað og er stefnan tekin á Úrvalsdeildarsæti. Lampard hefur heilt yfir gengið vel en eins og flestir vita er enska Championship deildin gríðarlega erfið deild þar sem allir virðast geta unnið alla og stutt á milli liða. Derby er sem stendur í 6. sæti en eru aðeins fjórum stigum frá toppsætinu og hefur leikur liðsins verið vaxandi. Þeirra stærsti sigur í vetur kom klárlega í enska Deildarbikarnum er Lampard gerði sér lítið fyrir og sló Jose Mourinho og Manchester United út úr keppninni og það á Old Trafford.


En Lampard er ekki eina tenging Derby við Chelsea. Aðstoðarmaður Lampard er Jody Morris og svo leika með liðinu tveir lánsmenn frá Chelsea þeir Fikayo Tomori (21 árs) og Mason Mount (19 ára). Báðir eru þeir lykilmenn í liðinu og hafa spilað flest alla leiki liðsins. Undirritaður sá síðasta leik Derby gegn Middlesbrough og í þeim leik var Tomori einmitt maður leiksins. Mason Mount hefur svo verið að spila frábærlega, hann hefur spilað 15 leiki á tímabilinu, skorað 5 mörk og verið einn besti leikmaður liðsins, gríðarlegt efni þessi piltur. Það vill svo skemmtilega til að báðir þessir leikmenn munu vonandi spila gegn okkar mönnum en Chelsea gaf Derby sérstaka heimild til að leyfa þeim að taka þátt í leiknum, mjög flott hjá Sarri að leyfa þeim það.

Leikstíll Derby hefur vakið verðskuldaða athygli en Lampard er mjög sókndjarfur þjálfari sem vill spila boltanum á jörðinni. Þeir pressa líka andsæðingana stíft og reyna yfirleitt að spila stutt úr markspyrnum. Það tók smá tíma fyrir leikmenn liðsins að ná tökum á þessu en eins og fyrr segir hefur verið mikill stígandi í liðinu. Auk þeirra Mount og Tomori ættu flestir að muna eftir markmanni Derby, honum Scott Carson og svo eru þeir með leikmenn eins og David Nugent, Tom Huddlestone, Matt Lawrence og efnilegan strák á láni frá Liverpool að nafni Harry Wilson.

Chelsea

Ég ætla að spá byrjunarliðinu svona:


Sarri viðist vera að gefa Caballero þessa keppni og er það hið besta mál. Líklega mun svo öll varnarlínan skiptast út rétt eins Sarri gerði gegn BATE og það með fínum árangri. Miðjan er svo hörkusterk með þeim Fabregas, Kovacic og markahróknum Loftus-Cheek. Framlínan er svo örlítið spurningamerki, Pedro fór meiddur af velli gegn Burnley og er ólíklegur í þennan leik, Hazard er ennþá að jafna sig á meiðslum og Willian lék allan leikinn gegn Burnley og þyrfti helst að fá hvíld. Þetta þýðir að vonandi fáum við að sjá Hudson-Odoi spreyta sig frá byrjun auk þess sem Moses gæti komið inn á hægri vænginn. Giroud mun svo leiða línuna.

Spá

Þetta Derby lið er gott Championship lið og eflaust eru þeirra gæði svipuð og hjá liðum eins og Huddersfield og Cardiff. Við erum að spila á veikara liði en vanalega svo það má ekki voga sér að vanmeta Derby. Þeir hafa engu að tapa og munu bókað koma með sitt sterkasta lið og láta vaða á okkur rétt eins og þeir gerðu gegn Man Utd. Að því sögðu eigum við alltaf að vinna þetta lið svo framarlega sem allir leikmenn gera skila sínu sómasamlega. Ætla að spá okkur erfiðum 2-1 sigri þar sem Giroud tekur upp á því að skora.

KTBFFH


bottom of page