top of page
Search

MOL Vidi heimsækir Stamford Bridge


Evrópudeildin heldur áfram að rúlla nk. fimmtudag er ungversku meistararnir í Mol Vidi mæta á Stamford Bridge. Leikurinn hefst kl 19:00 og er sýndur á Stöð 2 Sport.


Hverjir eru MOL Vidi?

Mol Vidi eða Vidi FC eins og þeir eru kallaðir í daglegu tali eru núverandi ungversku meistararnir og koma frá borginni Székesfehérvár sem er staðsett í vestur Ungverjalandi. Allt fram til ársins 2017 hét liðið hinu skemmtilega nafni Videoton FC en eftir að olíufélagið MOL keypti liðið var ákveðið að breyta nafninu í MOL Vidi FC - eitthvað sem þótti afar umdeilt með stuðningsmanna liðsins. Regluverk UEFA um eignarhald fyrirtækja á knattspyrnuliðum er nokkuð stíft og þess vegna má liðið ekki nota MOL Vidi nafnið þegar það leikur í Evrópudeildinni. Sömu sögu er að segja um Red Bull Leipzig en þeir heita einfaldlega R.B. Leipzig í bókum UEFA. Þess vegna kallast liðið einfaldlega Vidi FC inni á heimasíðu Evrópudeildarinnar. Nýir eigendur hafa dælt peningum inn í Vidi FC og eru m.a. að byggja nýjan og glæsilegan völl sem verður tekinn í notkun á þessu ári (nánar um það þegar við spilum útileikinn).

Eins og fyrr segir sigraði Vidi ungversku deildarkeppnina á síðasta tímabili og höfðu þar betur gegn öðrum topp liðum eins og Ferencváros og Debrecen. Ungverska deildin heitir því skemmtilega nafni Nemzeti Bajnokság I og er 12 liða deild. Það er hins vegar spiluð þreföld umferð svo leikirnir eru 33 talsins. Deildarkeppnin var hörkuspennandi í fyrra og vann Vidi FC titilinn með aðeins tveggja stiga mun á Ferencváros, fengu 68 stig og skoruðu 65 mörk í þessum 33 leikjum - ekki amalegt. Með sigrinum í deildarkeppninni fóru Vidi inn í forkeppni Meistaradeildarinnar þar sem þeir duttu að lokum út gegn Grísku meisturunum í AEK.

Þjálfari Vidi er hinn 39 ára gamli Serbi, Marko Nikolić. Þrátt fyrir að vera frekar ungur stjóri þjálfaði hann Partizan Belgrade á árunum 2013-15 og aftur árið 2016/2017 en á síðasta tímabilinu sínu þar vann hann tvennuna. Á sínu fyrsta ári með Vidi vann hann því titilinn, þetta er greinilega alvöru þjálfari. Marko kýs að spila leikkerfið 4-3-1-2 með hinn reynslumikla framherja Danko Lazovic sem þeirra hættulegasta mann. Lazovic var markahæsti leikmaður Vidi í fyrra og hefur leikið með liðum eins og PSV, Zenit St. Petersborg og Bayer Leverkusen á sínum ferli.

Vidi hefur farið ágætlega af stað á þessu tímabili, eru með 15 stig eftir 8 leiki og sitja í þriðja sæti deildarinnar.

Chelsea

Á blaðamannafundi fyrir leikinn gaf Maurizio Sarri nokkrar sterkar vísbendingar um liðsval sitt fyrir leikinn gegn Vidi. Sarri talaði um að hann myndi gera breytingar á byrjunarliðinu því leikirnir gegn Liverpool hafi tekið sinn toll og að leikurinn gegn Southampton væri skammt undan. Sarri nánast staðfesti að Loftus-Cheek myndi koma inn í liðið en vildi ekkert gefa upp um það hvort Hudson-Odoi eða Ampadu fengu mínútur.

Það er erfitt að lesa í það hvernig Sarri ætlar að stilla upp en ég ætla að giska/vona að þetta lið mæti til leiks:


Ef þetta yrði raunin myndi Sarri skipta út öllu byrjunarliðinu svo eflaust er ég pínu bjartsýnn. Ef ég fengi sjálfur að ráða myndi ég leyfa Ampadu og Hudson-Odoi að byrja á kostnað Moses og Cahill en Sarri veit hvað er okkur fyrir bestu svo við treystum honum. Mögulega verður Kanté enn og aftur í liðinu og þá á kostnað Barkley og svo virðist Sarri ekki vilja missa út bæði Alonso og Azpilicueta í sama leiknum - þannig mögulega verður annar hvor þeirra einnig í liðinu. Vonandi fá bara lykilmenn eins og Hazard og Jorginho verðskuldaða hvíld og verða ferskir í leiknum gegn Southampton.

Spá

Vidi tapaði fyrsta leiknum í riðlinum gegn BATE Borisov. Ungverska deildin er ekki sú sterkasta um þessar mundir og það segir sitt að þetta lið var í fjórða styrkleikaflokki þegar dregið var í riðlana. Chelsea á að vinna þetta lið, jafnvel þó myndum spila C-liðinu okkar með Zola frammi. Hins vegar þarf að klára svona verkefni og það fagmannlega, vonandi mæta þeir leikmenn sem spila leikinn með 100% einbeitingu. Þetta er líka rétti leikurinn fyrir þá leikmenn sem minna spila að sýna sig og gera Sarri erfitt fyrir í liðsvalinu í næstu leikjum.

Ég spái 3-0 sigri okkar manna - Morata rífur sig í gang og setur 2 mörk!

KTBFFH


bottom of page