Það er Lundúnaslagur af bestu gerð nk. sunnudag er Chelsea mætir West Ham á hinum umdeilda London Stadium. Leikurinn hefst kl 12:30.
Síðustu leikir
Chelsea hafa verið í fantaformi upp á síðkastið og unnið alla sex leiki tímabilsins. Síðasti deildarleikur var verulega góður 4-1 sigur þar sem Eden Hazard setti þrennu. Chelsea fór svo til Grikklands á fimmtudag sigraði þar tilþrifalítið lið PAOK 1-0 í leik þar sigurinn átti að vera stærri. Fyrir leikinn gegn PAOK gerði Sarri 5 breytingar á byrjunarliðinu, sumir hefðu viljað sjá meiri breytingar, aðrir ekki. Það er skiljanlegt að Sarri hafi ekki viljað taka neina sénsa á útivelli gegn liði sem fyrir fram var álitið það næst sterkasta. Chelsea lék á köflum vel í leiknum gegn PAOK en eins og áður tókst Alvaro Morata ekki að finna netmöskvana og því var markið hans Willian það eina í leiknum.
West Ham
Eigendur West Ham, þeir Gold og Sullivan, hafa alltaf verið umdeildir náungar. Bæði er ástæðan sú viðskiptafortíð sem þeira eiga en einnig hvernig þeir hafa verið að reka West Ham og þær ákvarðanir sem þeir hafa látið félagið taka undanfarin misseri. Flutningur liðsins af Upton Park yfir á London Stadium hefur misheppnast algerlega og eru stuðningsmenn West Ham ósáttir á sínum nýja heimavelli sem þeir segja einfaldlega ekki vera knattspyrnuleikvang heldur frjálsíþróttavöll. Hvað sem því líður þá ákváðu þeir Gold og Sullivan að snúa vörn í sókn fyrir þetta tímabil eftir mikil vonbrigði á síðasta tímabili. David Moyes var látinn taka pokann sinn og mjög farsæll stjóri, Manuel Pelleigrini, ráðinn í staðinn. Chilemaðurinn Pellegrini er gríðarlega reynslumikill og hefur stýrt bæði Manchester City og Real Madrid á sínum ferli og hefur alltaf spilað góðan fótbolta. Auk þess að ráða Pellegrini var gríðarlegum fjármunum eytt í styrkja leikmannahópinn eins og meðfylgjandi tafla sínir glögglega.
Kaupin á Felipe Anderson frá Lazio þóttu vera gríðarlega metnaðarfull enda er þetta leikmaður sem hafði lengi vel verið orðaður við félög eins og Chelsea, Man City og FC Bayern. Heilt yfir keypti West Ham 5-6 leikmenn sem allir voru hugsaðir beint í byrjunarliðið. Það var því skiljanlega mikil eftirvænting fyrir tímabilinu en því miður breyttust þær vonir í martröð því liðið tapaði fyrstu fjórum leikjum sínum í deildinni, m.a. gegnum liðum eins og Bournemouth og Wolves. Þeim tókst þó að vinna síðasta leik sinn 3-1 gegn Everton á útivelli sem verður að teljast sterkur sigur.
Undir stjórn Pellegrini spilar West Ham spilar 4-3-3 og framlínan er ansi öflug með þá Anderson og Yarmolenko á vængjunum og Arnautovic sem fremsta- og jafnframt þeirra hættulegasta mann. Ekki amaleg framlína. West Ham hefur verið að leka mikið af mörkum og hafa nýju miðverðirnir þeirra, Balbuena og Diop, ekki virkað neitt sérstaklega traustir – Giroud á að geta valdið þeim miklum usla.
Chelsea
Segja má að núna reyni á Sarri að fullum þunga. Leikjaálagið er að aukast og núna þarf að spila rétt úr spilunum. Ef þessi leikur gegn West Ham klikkar er er alveg á hreinu að Sarri mun fá gagnrýni fyrir að hvíla ekki fleiri leikmenn gegn PAOK. Það er erfitt að spila á útivelli á fimmtudegi og svo aftur á sunnudegi, tala nú ekki um þegar liðið þarf að ferðast langar vegalengdir. Til að bæta gráu ofan á svart þurftu okkar menn að gista auka nótt í Grikklandi vegna þess að fluginu til London var frestað vegna óveðurs. Allt þetta kemur niður á undirbúningnum á West Ham leiknum sem er verulega slæmt.
Ég ætla að spá byrjunarliðinu svona:
Þarna eru auðvitað forsendur að Kovacic sé orðinn heill og leikfær. Mér finnst hann hafa komið frábærlega inn í liðið og eins og sakir standa er klassa munur á honum og bæði Loftus-Cheek og Barkley. Giroud á að sjálfsögðu að halda sínu sæti í framlínunni og Luiz og Hazard koma inn í liðið eftir hvíldina góðu gegn PAOK. Willian er búinn að skora í tveimur leikjum í röð og fær því traustið á kostnað Pedro sem er einnig tæpur fyrir þennan leik. Þetta er í grunninn sama liðið og hefur verið að vinna þessa leiki fyrir okkur.
Spá
Þessir Lundúnaslagir eru alltaf erfiðir leikir. West Ham hefur fengið hellingssjálfstraust eftir sigurinn á Everton og verða því hætturlegir. Eins og kemur fram hér að ofan er þetta hæfileikaríkt lið sem er að byrja að stilla saman strengi sína. Chelsea hefur tapað síðustu þremur leikjum sínum á útivelli gegn West Ham sem segir sitt, þessi leikur verður langt frá því að verða auðveldur. Ég persónulega er skíthræddur um að Chelsea eigi eftir að gera jafntefli í þessum leik en ætla að skjóta á 2-1 sigur þar sem (lang)besti leikmaður deildarinnar dregur okkur yfir línuna í lokin með dramatísku sigurmarki.
2-1 fyrir Chelsea – Hazard með sigurmarkið.
KTBFFH