top of page
Search

Arsenal mætir á Stamford Bridge


Það er skammt stórra högga á milli, eftir frábæran sigur á Huddersfield í fyrstu umferð ensku Úrvalsdeildarinnar mæta erkifjendur okkar í Arsenal á Stamford Bridge í fyrsta heimaleik deildarinnar. Leikurinn er á laugardaginn kemur og hefst kl 16:30.

Síðasti leikur

Leikurinn gegn Huddersfield var fyrsta alvöru prófið hjá Maurizio Sarri og hann stóðst það. Fyrir leikinn lét Ítalinn hafa það eftir sér að það gæti tekið leikmenn liðsins 2-3 mánuði að gera „Sarri-Ball“ eðlisbundið fyrir leikmönnunum og á fyrstu 15-20 mínútunum leiksins sást að það vantaði einhvern takt í leik liðsins. Hudderfield mættu mjög grimmir til leiks með fimm manna varnarlínu og settu þokkalegustu pressu á okkar menn og lokuðu vel svæðum á miðjunni sem gerði varnar-og miðjumönnum Chelsea erfitt fyrir að koma mönnum eins og Willian og Pedro inn í leikinn. Þetta breyttist þó á 34. mínútu þegar Jorginho tókst að vinna boltann ofarlega á vellinum og koma honum til Pedro sem fann Willian úti á vinstri vængnum í 1 vs 1 stöðu. Willian tók skærin sín og fann engan annan en N‘Golo Kanté inn í teignum sem skoraði með legghlífinni(!).

Eftir markið tók Chelsea nánast öll völd á vellinum. Þeir yfirburðir skiluðu 18 sendinga sókn sem endaði með því að Marcos Alonso var felldur í vítateig Huddersfield og nýi maðurinn Jorginho skoraði mjög skemmtilega úr vítaspyrnunni með því að valhoppa í aðhlaupinu.


Yfirburðir okkar manna héldu áfram í seinni hálfleik þar sem Chelsea hélt boltanum vel og ógnuðu reglulega að marki heimamanna. Það var samt ekki fyrr en meistari Eden Hazard kom inn í leikinn að leikurinn fór að galopnast. Huddersfield reyndu að ýta sínu liði framar með því að fjölga í sókninni, það skapaði aukið pláss sem Hazard nýtti sér glæsilega á 80. mínútu er hann braust í gegnum vörn heimamanna og lagði upp dauðafæri fyrir Pedro sem Spánverjinn nýtti smekklega, 3-0 og game over. Það er gaman að segja frá því að Hazard átti 6 áhlaup (e. dribbles) á þeim 16 mínútum sem hann spilaði eða einu minna en allt Hudderfield liðið til samans, allan leikinn.

Okkar bestu menn í leiknum voru þeir Jorginho, Kanté og Antonio Rudiger. Helstu áhyggjurnar eru að Alvaro Morata virðist ekki vera að finna fjölina þó hann hafi vaxið ágætlega inn í leikinn, hann þarf sárlega á einu góðu marki að halda til að auka sjálfstraustið.

Andstæðingurinn

Það er nú ekki langt síðan Chelsea og Arsenal áttu síðast við. Það var á undirbúningstímabilinu í leik sem endaði 1-1 en Arsenal vann að lokum eftir vítaspyrnukeppni.

Líkt og Chelsea eru Arsenal með nýjan stjóra, Unai Emery. Hann fær það snúna hlutverk að koma í stað hins goðsagnakennda Arsene Wenger sem hætti hjá Arsenal í vor eftir 22 ár í starfi. Flestir stuðningsmenn Arsenal eru sammála um að þessi breyting hafi verið nauðsynleg og jafnvel mátt koma nokkrum árum fyrr. Hins vegar er aldrei auðvelt að skipta út jafn stórum karakter og Wenger var, því Frakkinn var auðvitað miklu meira en bara þjáfari liðsins. Því má segja að Arsenal, líkt og Chelsea, séu nokkuð óþekkt stærð í ár.

Emery er þjáfari sem er með flotta ferilskrá og hefur unnið fjölda titla. Hann vakti fyrst einhverja athygli þegar hann var ráðinn þjálfari Valencia árið 2008 og stýrði þeim með miklum myndarbrag. Hans helstu afrek eru hins vegar hjá Sevilla þar sem hann vann Evrópudeildina þrjú ár í röð, m.a. gegn Jurgen Klopp og Liverpool í úrslitaleik árið 2016. Efir það timabil var hann fenginn til þess að taka við ofurliði PSG. Hann var hjá PSG í tvö tímabil og vann þrennuna heima fyrir á síðara tímabilinu með leikmönnum eins og Neymar, Mbappé og Cavani. Hann náði hins vegar aldrei að vinna Meistaradeildina og var því skipt út fyrir Thomas Tuchel í vor. Skömmu síðar var hann búinn að ráða sig til Arsenal. Emery er hörkuþjálfari sem vill að sín lið pressi og haldi boltanum vel innan liðsins.

Arsenal fékk erfiðan andstæðing í sínum fyrsta leik er þeir fengu Manchester City í heimsókn. Leikurinn var „Skyttunum“ mjög þungur og mætti segja að Man City hafi verið með öll völd á vellinum allan tímann þó að leikur Arsenal hafi batnað til muna í síðari hálfleik. Þeir enduðu með að tapa leiknum 2-0, sömu úrslit og Chelsea fékk að kynnast í leiknum um Samfélagsskjöldinn.

Leikstíll Arsenal hefur breyts mikið og leggja þeir mikið upp úr því að spila stutt út frá aftasta manni og byggja þannig upp sóknir. Slíkt er mjög krefjandi gegn liði eins og Man City – vægt til orða tekið. Hvað eftir annað lentu Arsenal í vandræðum í uppspilinu þar sem okkar gamli félagi, Petr Cech, fann sig illa í hlutverki „sweeper keeper“.

Það skal þó ekki nokkur maður vanmeta Arsenal eftir þennan leik. Man City virðast vera yfirburðalið og þetta var einungis fyrsti alvöru leikur Emery. Hann er enn að móta sín fingraför á liðið sem á bara eftir að verða betra. Leikmenn eins og Aubameyang, Lacazette, Özil og Mkhitaryan eiga að geta sýnt sínar bestu hliðar í hápressufótbolta. Það eru eflaust fleiri spurningmerki aftarlega á vellinum, Arsenal saknar fyrirliða síns Kosicelny gríðarlega, en hann er í langtímameiðslum. Það er því mikil ábyrgð á nýja miðverðinum, Sokritis, að mynda alvöru miðvarðarpar með Mustafi. Að lokum eru svo miklar vonir bundnar við nýju miðjumennina tvo, þá Torreira og Guendouzi, en vonir standa til að þeir komi með þann kraft inn á miðjuna sem Arsenal hefur saknað undanfarin ár.

Chelsea

Það er spurning hvar Sarri gerir varðandi liðsuppstillinguna. Ég ætla að spá byrjunarliðinu svona:


Eftir fulla viku af æfingum tel ég næsta víst að Eden Hazard sé reiðubúinn að byrja þennan leik. Það er auðvitað svekkjandi fyrir Pedro að detta út en hann hefur spilað vel á undirbúningstímabilinu og var góður gegn Huddersfield en mig grunar að Sarri vilji sjá Hazard og Willian spila saman. Fyrir utan þessa breytingu held ég að Sarri haldi sig við sama lið og vann Hudderfield 3-0. Stærsta spurningamerkið er eflaust hvort við sjáum Kovacic koma inn í byrjunarliðið á kostnað Barkley en eitthvað segir mér að Króatinn byrji á bekknum fyrst um sinn. Einu forföllin úr okkar leikmannahópi eru að Fabregas er meiddur og spilar ekki skv. fréttum úr herbúðum Chelsea.

Það hefur verið orðrómur um að Sarri gæti freistast til þess að nota Eden Hazard sem framherja á kostnað Morata og þá spila með hins „fölsku 9“. Þá myndi Pedro halda sæti sínu en eitthvað segir mér að Sarri vilji halda sig við Morata til að byrja með.

Ef Chelsea sigrar þennan leik mætti eflaust tala um draumabyrjun Sarri, hvað er skemmtilegra en að sigra Arsenal í grannaslag og það í fyrsta heimaleiknum? Ef sú byrjun á að eiga sér stað í raunveruleikanum þarf liðið spila sinn allra besta leik. Það er eitt að halda boltanum vel og spila þokkalega gegn Huddersfield en það er annað að mæta leikmönnum eins og Aubameyang sem munu refsa grimmilega fyrir minnstu varnarmistök – Arsenal verður miklu erfiðari leikur en nokkurtíma Huddersfield.

Ég persónulega er logandi hræddur um að háa varnarlínan okkar (sem við erum ekki búnir að fullkomna) geti orðið okkur dýrkeypt í þessum leik. Bæði Özil og Aubameyang finnst fátt skemmtilegra en notafæra sér stór svæði fyrir aftan háar varnarlínur og því þurfa leikmenn eins og Rudiger og David Luiz að vera fullkomlega öruggir í sínum aðgerðum og lenda ekki í stöðum eins og þeir lentu í gegn Man City í leiknum um Samfélagsskjöldinn.

Spá

Síðasta tap okkar manna gegn Arsenal á Stamford Bridge var í október 2011 – þannig okkur hefur gengið vel í þessum viðureignum. En þó að glasið hjá mér sé hálf fullt um þessar mundir spái ég leiknum 2-2 jafntefli í hörku fótboltaleik.

KTBFFH


bottom of page