top of page
Search

Sumarglugginn 2018 - Uppgjör


Leikmannamarkaðnum fyrir ensk félög hefur formlega verið lokað. Það verður að segjast að oft hafa aðdáendur enskra liða séð tíðindameiri „gluggadag“, sérstaklega hjá stórliðunum sem ætla sér að berjast um titilinn. Leikmannamarkaðurinn lokar í fyrsta sinn mun fyrr en vanalega þar sem félögin í ensku Úrvalsdeildinni kusu um það í fyrra að loka markaðnum áður mótið myndi hefjast formlega – þetta er umdeild ákvörðun sem menn munu líklega halda áfram að þræta um.

Í þessum pistli verða stærstu kaupin og sölurnar skoðaðar gaumgæfilega og síðan lagt mat á það hversu vel Chelsea tókst til í þessum leikmannaglugga sumarið 2018.


Þetta er töluverð viðbót af leikmönnum og greinilegt að ýmislegt getur ennþá gerst þar sem leikmannaglugginn lokar ekki fyrr en um mánaðarmótin í öðrum stórum deildum í Evrópu. Einnig vantar inn í þennan lista haug af leikmönnum eins Musonda, Kalas ofl sem annað hvort hafa verið lánaðir eða býða eftir því að fara á lán annars staðar. Hér er aðeins verið að ræða um þá leikmenn sem koma til greina í aðallið Chelsea.

Ef við skoðum hvernig þessir leikmenn raðast í stöður á vellinum í hina svokölluðu leikmannalaug (players pool). Þá er niðurstaðan þessi:


Eins og staðan er í dag er Chelsea með 29 (!) leikmenn sem geta talist til aðalhópsins. Það liggur því fyrir að það verða breytingar því eins og staðan er í dag nær Chelsea ekki að skrá löglegan hóp til leiks sökum reglna um uppalda leikmenn en Chelsea má "aðeins" hafa 17 leikmenn sem eru þjálfaðir utan Englands. Chelsea er núna með 19 slíka leikmenn og þurfa því að losa sig við tvo. Eins og staðan verða það líklega Zouma, sem líklega verður lánaður til Everton (liggur ekki fyrir þegar þetta er skrifað) og Bakayoko sem er orðaður við Milan. Þeir sem eru rauðmerktir á myndinni hafa verið sterklega orðaðir við brottför.

Nýju leikmennirnir

Kíkjum aðeins nánar á þessa þrjá nýju leikmenn:


Kepa Arrizabalaga

Það kom eins og þruma úr heiðskíru lofti á miðvikudaginn var að Chelsea hefði borgað metverð við hinn 23 ára gamla Spánverja, Keba Arrizabalaga. Kepa, eins og hann er jafnan kallaður, kemur frá Atletic Bilbao og varð á einni nóttu eitt umtalaðasta nafn í knattspyrnuheiminum. Chelsea borgar 71 milljón punda fyrir Kepa sem er metverð fyrir markmann, slær Chelsea því nokkura vikna gamalt met Liverpool en þeir borguðu 67 milljónir fyrir Alisson frá Roma.

Kepa hefur staðið í marki Atletic undanfarin tvö ár eftir að hafa verið árin þar á undan í láni hjá Ponferradina og Valladolid sem bæði spiluðu í næst efstu deild Spánar á þeim tíma. Hann var því aðeins 21 árs þegar hann fékk byrjunarliðsstöðuna sem nokkuð sjaldgjæft að markmanni að vera. Kepa hefur alla tíð þótt mjög efnilegur og hefur verið mjög sigursæll með yngri landsliðum Spánar og vann m.a. Evrrópumeistaratitil með u-19 ára liðinu árið 2012.

Ég ætla ekki að leyna því, ég hef ekki séð Kepa spila að neinu viti. Ég get því illa metið hversu góður markvörður þetta er. Hann var hins vegar hátt skrifaður á Spáni og var hársbreidd frá því að ganga til liðs við Real Madrid í janúar sl. fyrir aðeins 20 milljónir punda. Forsagan að því er sú að Kepa var að renna út á samningi og var með lága klásúlu í þeim samningi. Florentin Perez, forseti Madrid, vildi kaupa Kepa en Zidane, þáverandi þjálfari Real Madrid, gerði öllum fulljóst að Keylor Navas yrði áfram hans fyrsti kostur. Kepa ákvað því að semja aftur við Atletic Bilbao með áðurnefndri klásúlu upp á 71 milljón punda – sem Chelsea virkjaði.

Ég nenni ekki að eyða of púðri að ræða Thibaut Courtois. Hann gerði þetta ófagmannlega, ég hef skilning fyrir því að hann vilji vera nálægt börnunum sínum sem bæði eru ung að aldri. Hins vegar sagði hann sjálfur í aðdraganda HM að hann myndi virða samning sinn við Chelsea og spila lokaár samningsins ef það væri vilji klúbbsins. Mér sýnist sem Chelsea hafi ætlað sér að taka hann á orðinu þar sem tilboð Real Madrid var ansi lélegt fjárhagslega fyrir Chelsea. Með því að skrópa á æfingu og setja Chelsea í erfiða stöðu hefur Courtois skaðað arfleið sína hjá Chelsea þrátt fyrir mjög farsælan feril sem leikmaður. Hann má bara skammast sín sem ég reyndar efa að hann geri – hann um það.

Líklega er Chelsea að veikjast með þessari Courtois vs Kepa skiptingu en flestir sem þekkja til Kepa vilja líkja þessum kaupum við kaupum Man Utd á David De Gea. De Gea varð ekki frábær fyrr en á öðru eða þriðja tímabili en er í dag einn besti markvörður heims. Verði það raunin er ég verulega sáttur.

Jorginho

CFC.is hefur þegar fjallað umtalsvert um Jorginho og hægt að lesa allt um í fyrri færslu. Það er þó vert að endurtaka að þessi leikmaður er fyrst og síðast keyptur af Sarri til þess að innleiða hans fótboltahugsun inn í leik liðsins. Jorginho er ekki stoðsendingavél eða markakóngur – hann er djúpur leikstjórnandi sem mun virka eins og hálfgerður stjórnandi í þeirri sinfóníu sem Sarri vill að Chelsea spili. Gríðarlega sterk kaup, alla vega m.v. hans fyrstu leiki.

Mateo Kovacic

Ég hafði áður varpað fram þeirri spurningu hvort Chelsea þyrfti annan miðjumann í þessum leikmannaglugga. Niðurstaðan í mínum skrifum var þvert nei, ég vildi gefa leikmönnum eins og Loftus-Cheek og Barkley séns til þess að láta ljós sitt skína. Sarri er greinilega ósammála þessari nálgun því Chelsea hefur verið orðað við mjög marga miðjumenn í allt sumar og allt svipaðar týpur; Léttleikandi miðjumenn með mikla getu til þess að spila stutt sín á milli á þröngum svæðum en samt mun sókndjarfari en t.d. Jorginho. Mateo Kovacic smell passar inn í þessa kríteríu og er Sarri víst mikill aðdáandi leikmannsins.

Mateo Kovacic er búinn að vera mikilli fýlu út í Real Madrid í sumar. Hann er mjög ósáttur við spiltíma sinn, skiljanlega, því hann byrjaði aðeins 10 leiki í La Liga í fyrra. Það er pínu skondið að hugsa til þess að Kovacic er bæði varamaður í Real Madrid og hjá Króatíu og hjá báðum þessum liðum er hann að etja kappi við heimsklassa leikmenn um stöðu í liðinu. Hjá Real Madrid eru leikmenn eins og Kroos, Modric og Casemiro á undan honum og hjá Króatíu er hann að keppa við Rakitic og Modric (aftur) um stöðu – ekki beint auðveld samkeppni. Það er því hægt að sína honum skilning að vilja hugsa sér til hreyfings. Real Madrid hefur þó harðneitað að selja hann því bæði Modric og Kroos er að eldast og Kovacic hugsaður sem arftaki þessara leikmanna. Niðurstaðan var því að Kovacic kom á láni sem partur af kaupsamningi Real Madrid á Thibaut Courtois. Þegar þekkir leikmenn eru lánaðir þurfa lið alltaf að greiða lánsfé fyrir leikmenn, því er ekki að skipta í tilfelli Kovacic og má því segja að Courtois fari á „hærri“ upphæð en bara 35 milljónir.

Það sem ég fíla mest við Kovacic er að hann sagðist ekki hafa nokkurn áhuga á að leika fyrir Man Utd því hann taldi að fótboltinn sem væri spilaður á Old Trafford myndi ekki henta sér. Hann vill spila fyrir lið sem vilja hafa boltann og því valdi lagði hann mikla áherslu á að fara til Chelsea. Það hafa verið mjög misvísandi fréttir varðandi lánssamninginn á Kovacic og hvort honum fylgi kaupréttarákvæði sem Chelsea geti nýtt sér í næsta sumarglugga niðurstaðan er líklega sú að ekkert síkt ákvæði sé til staðar.

Hvaða einkunn fær leikmannaglugginn?

Ég ætla að gefa þessum leikmannaglugga 7 í einkunn. Það er þokkaleg niðurstaða og mun betri en fyrir ári síðan. Chelsea eru betur mannaðir en fyrir síðan og eru greinilega að reyna byggja undir nýjan stjóra félagsins. Til þess að fá ennþá hærri einkunn hefði liðið þurft að gera ein stór kaup í viðbót, leikmenn eins og Fekir, Martial og Leon Bailey hefðu gert helling fyrir lið Chelsea og sett menn eins og Willian og Hazard almennilega upp á tærnar. Ég hef áhyggjur af markaleysi í liðinu, Kovacic, Jorginho og Kanté hafa samtals skorað 5 mörk á undanförnum tveimur tímabilum og ekki er Fabregas mikill markaskorari heldur. Loftus-Cheek og Barkley geta vonandi breytt því. Við verðum að vona að breyttur leikstíll Sarri nái Morata í gang og loksins geti Hazard almennilega sprungið út og skorað 20 mörk eða meira í ensku Úrvalsdeildinni. Ef það gerist ættum við að vera í stórfínum málum fyrir komandi vetur.

KTBFFH.


bottom of page