top of page
Search

Chelsea vs Man City  – Samfélagsskjöldurinn á Wembley


Ég vil byrja þennan pistil á að vekja athygli á því að undirritaður var gestur í podcast þætti Kop.is. Aðalumræðuefni þáttarins var Chelsea og þær breytingar sem okkar klúbbur hefur gengið í gegnum í sumar. Einnig fjölluðum við aðeins um José Mourinho og þann ólgusjó sem virðist umlykja okkar gamla stjóra á Old Trafford. Hægt er að hlusta á þáttinn hérna.

Einnig er gaman að minnast á að cfc.is fagnar 1. árs afmæli í þessari viku. Ég vil nota tækifærið og þakka kærlega fyrir þann lestur sem síðan er að fá. Lesturinn er mun meiri en mig óraði fyrir upphaflega og hvetur það mann áfram í að þróa síðuna og gera hana betri.


Leikurinn sem markar upphaf enska boltans á hverju tímabili er nk. sunnudag. Okkar menn mæta þá Englandsmeisturum Man City. Leikurinn er að sjálfsögðu leikinn á Wembley og hefst hann kl 14:00. Í þessum pistli ætlum við að taka létta upphitun um leikinn gegn City en einnig fjalla um þá æfingaleiki sem leiknir hafa verið í sumar og reyna að leggja mat á það hvernig Maurizio Sarri gengur að setja sín fingraför á liðið.

Undirbúningstímabil Chelsea

Eins og staðan er í dag hefur Chelsea aðeins leikið þrjá æfingaleiki. Sá fyrsti var gegn Perth Glory í Ástralíu og kom aðeins 6 dögum eftir að Sarri tók við Chelsea. Hinir tveir leikirnir hafa verið gegn Arsenal og Inter í hinni áhugaverðu ICC keppni.

Leikurinn gegn Perth Glory var áhugaverður, þessi leikur var ákveðinn með tveggja ára fyrirvara og var opnunarleikur á nýjum heimavelli þeirra Perth-manna. Chelsea þurfti því að bröllta alla leið til Ástralíu til þess eins að spila þennan eina leik og fljúgja svo strax aftur til baka – ekki beint góður undirbúningur. Chelsea vann þennan leik 1-0 með marki frá Pedro og strax í þessum leik sá maður móta fyrir handbragði Sarri á liðinu. Chelsea spilaði 4-3-3 og okkar nýjasti liðsmaður, Jorginho, spilaði 45 mínútur í leiknum. Þó lokaniðurstaðan hafi aðeins verið 1-0 sigur að þá voru yfirburðir Chelsea umtalsverðir. Leikurinn bar þó augljós merki um að vera okkar fyrsti leikur á undirbúningstímabili, fjölmargar skiptingar og margir ungir leikmenn að fá tækifæri.

Það var því ekki mikið jafnvægi í leiknum og fjaraði undan honum í seinni hálfleik.

Næsti leikur var viku síðar gegn Inter Milan, spilaður í Nice. Sarri stillti upp sama byrjunarliði og gegn Perh Glory sem fól í sér að leikmenn eins og Callum Hudson-Odoi og Ross Barkley voru að fá mikið af leiktíma. Inter stillti upp nokkuð sterku liði, til að mynda var þeirra skærasta stjarna Mauro Icardi í byrjunarliðinu ásamt nokkrum öðrum lykilmönnum. Chelsea lék afar vel í fyrri hálfleik og héldu leikmenn eins og Barkley, Pedro, Hudson-Odoi og Jorginho áfram að heilla. Okkar menn pressuðu Inter stíft og kom markið akkurat eftir góða hápressu þar sem Chelsea vann boltann hátt uppi á vellinum og eftir góðan undirbúning frá Alvaro Morata skoraði Pedro annan leikinn í röð.

Líkt og í leiknum gegn Perth Glory gerði Sarri nokkrar breytingar í hálfleik, þær helstu voru að Bakayoko og Drinkwater komu inn fyrir spræka Barkley og Fabregas. Þetta reyndist einfaldlega og mikil veiking á liðinu, Sarri leggur mikið upp úr því að spila boltanum stutt úr vörninni og upp völlinn, eitthvað sem hentar ekki leikmönnum eins og Bakayoko. Eftir aðeins nokkrar mínútur í seinni hálfleik var Baka búinn að missa boltann á versta stað, Inter brunuðu í sókn og skoruðu jöfnunarmark.

Hvorugu liðinu tókst að skora sigurmark sem endaði með að leikurinn fór í vítaspyrnukeppni þar sem okkar menn báru sigur úr bítum. Í þessum leik voru nokkrir leikmenn mættir til baka eftir þátttöku á HM í sumar, þannig fengu Azpilicueta, Rudiger, Caballero og Moses sínar fyrstu mínútur í seinni hálfleik.


Síðasti leikur sem Chelsea spilaði á undirbúningstímabilinu var gegn sterku liði Arsenal. Ég kalla lið Arsenal sterkt því þeir voru með alla sína sterkustu leikmenn innanborðs eins og Aubameyang, Özil og Mkhitaryan. Chelsea byrjaði leikinn líka með nokkuð sterku liði og greinilegt að Sarri er að nálgast það byrjunarlið sem mun hefja leiktíðina. Chelsea byrjaði þennan leik gríðarlega vel og fyrstu 35 mínútúrnar var bara eitt lið á vellinum. Sá leikmaður sem gjörsamlega fór hamförum var Callum Hudson-Odoi. Hvað eftir annað keyrði hann á Bellerin og skildi þann spænska eftir í rykinu. Chelsea komst sanngjarnt yfir með marki frá Rudiger eftir góða hornspyrnu Fabregas. Hudson-Odoi fiskaði svo vítaspyrnu eftir að brotið var á honum en lánlaus Morata lét Petr Cech verja frá sér. Segja má að Cech hafi haldið Arsenal inni í leiknum því hvað eftir annað voru okkar menn að banka fast á dyr Arsenal manna. Ef Morata hefði verið að spila sínn besta leik hefði hann verið búinn að skora þrennu í fyrri hálfleik.

Til að gæta allrar sanngirni verður að viðurkennast að Arsenal komu mun sterki inn í seinni hálfleikinn. Aftur fór Sarri að rótera töluvert í hópnum og strax í hálfleik kom Drinkwater inn í liðið. Krafturinn sem einkenndi liðið í fyrri hálflek var svo gott sem horfinn og Arsenal stjórnuðu ferðinni að mestu leiti í seinni hálfleik. Þeir sköpuðu sér þó ekkert alltof mikið af færum nema síðustu 10 mínúturnar. Sú pressa skilaði sér á loka mínútu uppbótartímanns er Lacazette kom boltanum í netið. Helvítis leiðindi að fá þetta mark svo nálægt loka flautinu en þegar þarna var komið við sögu var Chelsea búið að skipta öllu sínu byrjunarliði út af. Aftur fór Chelsea því í vítaspyrnukeppni og þetta sinn með hinn 18 ára gamla Bulka í markinu. Að þessu sinni hafði Petr Cech betur er hann varði slaka vítaspyrnu Loftus-Cheek. Chelsea „tapaði“ því þessum leik.

Þegar þetta er skrifað er Sarri búinn að vera þjálfari Chelsea í þrjár vikur. Á þessum stutta tíma er hann búinn að gjörbyllta þeim leikstíl sem Chelsea hafa spilað undanfarin ár undir bæði Conte og Mourinho. Tíminn einn mun leiða í ljós hvernig þetta mun allt saman ganga en þessir fyrstu þrír leikir hafa allir gefið ágætis fyrirheit. Chelsea mun spila sókndjarfan fótbolta og m.v. þessa fyrstu þrjá leiki hef ég takmarkaðar áhyggjur af sóknarleiknum, sérstaklega þegar menn eins og Hazard og Willian verða komnir á fullt. Það er vörnin sem mun verða okkar helsti höfuðverkur, það er gríðarlega krefjandi að verjast almennilega með allt liðið hátt uppi á vellinum eins og t.d. Liverpool hefur fengið að kynnast undanfarin ár. Bæði í leikjunum gegn Inter og Arsenal voru liðin reglulega að komast fyrir aftan vörn Chelsea sem þá var lent í eltingaleik. Marcos Alonso hefur átt í hvað mestum erfiðleikum með að venjast þessu nýja kerfi varnarlega og má setja spurningamerki við hvort hann hafi þann hraða til þess að geta spilað stöðu vinstri bakvarðar í hápressu fótbolta, einnig er hann ekkert sérstakur maður á mann.

Þeir leikmenn sem hafa heillað mann á þessu undirbúningstímabili er títt nefndur Callum Hudson-Odoi. Drengurinn er aðeins 17 ára(!) gamall en virðist nú þegar hafa öll þau vopn í sínu vopnabúri til þess að geta spilað stórt hlutverk með Chelsea á þessu tímabili. Ross Barkley hefur líka sínt vongóðar frammistöður, liðið hefur alltaf leikið hvað best þegar Barkley, Fabregas og Jorginho eru saman á miðjunni. Talandi um Jorginho, hann virkar sem frábær leikmaður og verður alger lykilmaður í vetur. Það er í raun skondið, en það má færa rök fyrir því að Jorginho sé reynslumesti maður liðsins akkurat núna, því hann veit upp á hár hvað Sarri vill gera eftir að hafa unnið með honum í þrjú ár hjá Napoli og er sífellt að miðla reynslu sinni og þekkingu til annara leikmanna liðins. Pedro hefur líka heillað í þessum leikjum, höfum það í huga að hann spilaði í nokkur ár undir stjórn Pep Guardiola hjá Barcelona og þekkir því hápressu fótbolta betur en flestir.

Leikurinn gegn Man City

Leikurinn um Samfélagsskjöldinn er einhverstaðar mitt á milli þess að vera eins og hver annar æfingaleikur og svo alvöru toppbaráttuslagur þar sem allt er undir. Það er samt þannig í þessum leik að Chelsea hefur meira að sanna eftir þjálfaraskiptin og þá óvissu sem ríkti innan herbúða félagins framan af sumri.

Andstæðingurinn

Manchester City var ekki besta lið Engands á síðustu leiktíð heldur það langbesta. Þeim tókst bæði að slá stigamet og markamet ensku Úrvalsdeildarinnar og fóru yfir 100 stiga múrinn - eitthvað sem margir töldu ómögulegt í jafn krefjandi deild og Úrvalsdeildin er. Það þarf samt að hafa í huga að ekkert lið hefur varið Englandsmeistaratitil síðan Sir Alex Ferguson gerði það árið 2009. Pep Guardiola hefur þó látið hafa það eftir sér að lið Man City sé ennþá gríðarlega hungrað og að engin „sigurþynnka“ muni verða til staðar á þeim bænum.

Man City hefur gert lítið á leikmannamarkaðnum það sem af er sumri. Þeir keyptu hinn snjalla Riyhad Mahrez fyrir um 60 milljónir punda en hafa látið þar við sitja. Guardiola reyndi ítrekað að tryggja sér þjónustu Jorginho en að lokum tókst Chelsea að stela honum á síðustu stundu undan nefinu á Man City. Guardiola hefur sagt að hann sé opinn fyrir því að bæta við sig miðjumanni en bara ef sá leikmaður bæti liðið að einhverju leiti, þeir munu ekki kaupa bara til þess að kaupa.

Undirbúningstímabilið hjá City hefur einkennst af þeim stóru skörðum sem Heimsmeistaramótið hefur höggvið í hópinn þeirra. Þeir voru það lið sem var með flesta leikmenn á HM og nokkrir lykilmenn fóru langt í keppninni. Þeir hafa því verið að spila mjög ungu og reynslulitlu liði í sumar. Leikmennirnir eru þó hægt og bítandi að skila sér til baka og munu þeir stilla upp hörkuliði gegn Chelsea á sunnudag. Flesti fjölmiðlar gera ráð fyrir að þetta verði liðið sem muni hefja leik:


Man City þarf ekkert að skammast sín fyrir þetta lið jafnvel þó það vanti sterka menn eins og Aguero, De Bruyne, Walker og Sterling. Raunar gæti vel farið að annað hvort Gabriel Jesus eða Aguero byrji leikinn en flestir erlendir miðlar telja að hinn ungi Nmecha fái tækifæri í fremstu víglínu.

Chelsea

Maurizio Sarri sagði á blaðamannafundi á föstudag að þeir leikmenn sem hófu leikinn gegn Arsenal væru líkegir til þess að byrja gegn Man City. Það mun þó ekki verða nákvæmlega sama lið þar sem Fabregas verður ekki með vegna smávægilegra meiðsla sem hann hlaut í leiknum gegn Arsenal.

Ég spái því að liðið verði svona:


Þar sem N‘Golo Kanté, Oliver Giroud, Eden Hazard, Michy Batshuahyi, Gary Cahill og Thibaut Courtois mættu allir til æfinga núna um helgina er næsta víst að þeir verða ekki partur af þessum leik. Willian og Ruben Loftus- Cheek mættu til æfinga í þessari viku og hafa því æft mun minna en aðrir leikmenn, ég geri því ráð fyrir þeim á bekknum.

Breytingin sem ég sá frá því í Arsenal leiknum er að Bakayoko kemur inn í stað Fabregas, það gæti auðvitað vel verið að Drinkwater byrji frekar leikinn en ég ætla að veðja á Bakayoko. Þetta lið er auðvitað mjög langt frá því að vera okkar sterkasta lið þar sem HM leikmennirnir eru flest allir lykilmenn en gleymum ekki að Man City er í svipuðum málum. Leikmenn eins og Bakayoko, Barkley, Pedri og Hudson-Odoi fá núna stórt hlutverk í „stórleik“ og geta því nýtt tækifærið.

Mér fannst Rudiger hörkugóður gegn Arsenal og David Luiz hefur spilað flestar mínútur á undirbúningstímabilinu af öllum miðvörunum okkar, ég ætla því að tippa á að þeir verði miðvarðarparið okkar til að byrja með. Azpilicueta á hægri bakvarðarstöðuna með húð og hári en spurning er hvort Emerson nái að ýta við Alonso í vinstri bakverðinum – það kæmi mér ekki á óvart að svo yrði raunin þegar eitthvað er liðið á tímabilið.


Að lokum verður svo áhugavert að sjá hvernig Alvaro Morata mætir til leiks – hann var í löngu viðtali um helgina þar sem hann tjáði sig um framtíð sína og tók allan vafa af því að hann væri að færa sig set. Morata sagðist ánægður hjá Chelsea og ætlaði sér að sanna sig eftir dapurt fyrsta tímabil. Þann 29 júlí sl. eignaðist hann og kona hans sín fyrstu börn er hún fæddi tvíbura. Í kjölfarið óskaði Morata eftir því að fá að breyta treyjunúmeri sínu úr 9 í 29. Ég fagna þessu því sárafáir Chelsea framherjar hafa höndlað það að vera númer 9 hjá Chelsea – oft er talað um bölvunina sem fylgir þessari treyju á Stamford Bridge.

Það er erfitt að spá fyrir um þennan leik. Eins og flestir vita eru þeir Pep Guardiola og Sarri góðir vinir, segja má að Pep sé einn helsti stuðningsmaður Sarri og hefur Pep slegið hann hverjum gullhamrinum á fætur öðrum í kjölfar leiksins. Við megum því eiga von á opnum leik, þar sem bæði lið munu reyna að pressa og „hlaupa yfir hvort annað“. Oft enda þannig leikir í markasúpu en sjáum til með þennan leik. Bæði vantar stóra pósta og spurning hvort að form leikmanna sé komið á þann stað að þeir höndli hápressuleik af bestu gerð – ég ætla samt að vera brattur og spá Chelsea sigri í vítaspyrnukeppni þar sem Íslandsvinurinn Willy Caballero ver tvær spyrnur.

Leikmannaglugginn lokar svo nk fimmtudag. Strax í kjölfar hans mun hér birtast ítarleg grein þar sem við förum yfir þann glugga hjá Chelsea.

Þangað til næst - KTBFFH


bottom of page