top of page
Search

Chelsea eru FA bikarmeistarar 2018!


Myndir segja meira en 1000 orð!


Þessi leikur var alls ekki auðveldur og var sigurinn fyrst og síðast sterkri vörn og þrjósku Chelsea að þakka.

Fyrstu 20 mínútur leiksins voru Chelsea sterkari aðilinn, eða allt þar til Hazard braust í gegnum vörn Man Utd og Phil Jones braut á Belganum snjalla. Eftir að Hazard kom okkur í 1-0 féll liðið alltof aftarlega þó svo að Man Utd hafi ekki skapað sér nein almennileg marktækifæri út fyrri hálfleikinn.

Seinni hálfleikurinn var svipaður, Chelsea lá aftarlega með tvær mjög þéttar línur og geymdu Hazard uppi við miðlínu upp á að ná inn skyndisóknum. Man Utd fékk tvö ágætis færi í seinni hálfleik auk þess sem mark var réttilega dæmt af Alexis Sanchez vegna rangstöðu. Hinu megin átti Marcos Alonso að tvöfalda forystu Chelsea þegar okkar menn komust í skyndisókn eftir frábært upphlaup N'Golo Kanté.

Chelsea stóðst að lokum pressu Man Utd sem aldrei náðu almennilegum takti sóknarlega.

Þetta var áttundi FA bikartitill Chelsea og aðeins Arsenal (13) og Man Utd (12) hafa fleiri sigra í keppninni.

Nokkrir punktar um leikinn:

  • Antonio Rudiger var valinn maður leiksins af BT sport. Hann á það fyllilega skilið en einnig komu Gary Cahill, Azpilicueta, Courtois og N'Golo Kante fyllilega til greina, allir þessir leikmenn voru frábærir.

  • Timoue Bakayoko lék vel í erfiðum hápressu leik. Hann hélt vel sínu svæði og fyrstu 20 mín leiksins var hann virkur þátttakandi í sóknarleik Chelsea. Vonum að við fáum að sjá meira af þessari hlið kappans á næstu leiktíð - það er fullt af hæfileikum þarna.

  • Eden Hazard lék sinn 300 leik fyrir Chelsea og fangaði þeim áfanga með bikarsigri og sigrumarki. Hazard er okkar besti leikmaður, það er undir honum sjálfum komið hvar framtíð hans liggur en mín tilfinning er sú að hann muni fara til Real Madrid ef þeir hafa áhuga á að kaupa hann - vonandi fer hann ekki fet.

  • Það eru allar líkur á því að þetta hafi verið síðasti leikur Antonio Conte. Ég vildi óska þess að hann og stjórnin myndu bara grafa þessi mál og hann myndi taka eitt tímabil í viðbót. Það eru hins vegar engar líkur á því, að mínu mati. Conte er sigurvegari og yfirgefur því Chelsea sem slíkur.

CFC.is mun gera upp tímabilið í heild sinni á næstu dögum, þangað til skulum við njóta þess að hafa lagt eina af okkar erkifjendum og unnið sigur í elstu og virtustu bikarkeppni heims!

KTBFFH


bottom of page