top of page
Search

Chelsea heimsækir erfiðasta útivöll deildarinnar


Á morgun, sunnudag, munu sveinar Antonio Conte heimsækja Pep Guardiola og co á Ethidad völlinn. Leikurinn hefst kl 16:00.

Síðasti leikur:

Það er langt síðan ég hef verið jafn vonsvikinn eftir fótboltaleik hjá Chelsea. Þessi leikur gegn Man Utd átti að vinnast, svo einfalt er það. Fyrri hálfleikurinn var með því betra sem okkar menn hafa sýnt í langan tíma. Við vorum í raun að yfirspila Man Utd og það á Old Trafford. Klaufaskapur og einbeitingarleysi gerðu hins vegar útslagið og fékk Man Utd bara eitt hálf-færi fyrir utan mörkin sem þeir skoruðu. Seinni hálfleikurinn var ekki eins góður og sá fyrri, orkan í pressunni minnkaði hjá okkar mönnum og Mourinho gerði það sem Mourinho gerir best, lokaði leiknum þegar færi gafst.

Í svona leik eins og gegn Man Utd verður liðið að vera miskunarlaust og nýta þau tækifæri þegar þau gefast. Ég er nokkuð viss um að Diego Costa hefði klárað þennan leik fyrir okkar menn, þetta var týpa af leik sem hann þrífst á að spila. Alvaro Morata á dapran dag og var slakasti leikmaður liðsins og það þrátt fyrir að hann skoraði löglegt mark sem hefði tryggt okkar mönnum verðmætt jafntefli.

Við þetta tap datt Chelsea niður í 5. sæti deildarinnar.

Andstæðingurinn:

Þetta lið Pep Guardiola er að mínu viti besta lið í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Það væri í raun mjög fróðlegt að sjá þetta City lið spila gegn 2004/2005 liði Chelsea. Það yrði líklega hörku leikur en ég myndi setja Man City sem sigurstranglegra.

Man City munu líklega slá stigametið í deildinni auk þess að bæta metið yfir flest skoruð mörk - hvoru tveggja met sem eru í eigu Chelsea. Þeim vantar "aðeins" að vinna 7 af síðustu 10 leikjunum sínum, eitthvað sem þeir eru alltaf að fara gera.

Hvað gerir Manchester City svona góða?

Nákvæmlega allt. Pep Guardiola hefur greinilega fullkomið traust stjórnarinnar á bæði liði og leikmannakaupum. Guardiola var með gott lið í fyrra en í ár fékk hann kaupa í þær stöður sem liðinu vantaði að bæta. Leikmenn eins og Kolarov, Zabaleta, Sagna ofl voru sendir í burtu og í staðinn komu gæða leikmenn eins og Kyle Walker, Bernardo Silva og Ederson. Mesta bætingin hefur klárlega verið í bakverðinum Walker og svo markmanninum Ederson. Það er ekki auðvelt að vera markvörður hjá Pep Guardiola, hann gerir gríðarlegar kröfur á þá stöðu og vill í raun að þeir taki hreinlega virkan þátt í uppspili liðsins. Þessi ungi Brassi hefur verið frábær, bæði í uppspilinu og í sjálfu búrinu að verja þau fáu dauðafæri sem Man City fær á sig.

Hinn krefjandi leikstíll þjálfarans sem samanstendur af hinu flæðandi 4-3-3 leikkerfi þar sem allir leikmenn taka virkan þátt í sókn og vörn hefur líka verið að skila sér betur inn í bein lykilleikmanna. Þannig gerir Pep kröfu á að miðvörðurinn eða bakvörðurinn geti brugðið sér í líki miðjumans og haldið boltanum þannig fullkomlega innan liðsins, öll aftasta varnarlínan spilar mjög hátt á vellinum. Varnarlega pressa þeir sem ein heild og gefa andstæðingnum ekki neinn tíma á boltanum. Þetta er augnakonfekts-fótbolti, svo einfalt er það.

Leikmenn eins og De Bruyne, David Silva, Otamendi, Fernandinho og Aguero hafa allir átt stórkostlegt tímabil. Svo hafa enn fleiri leikmenn tekið gríðarlegum framförum og nægir þar að nefna Raheem Sterling, Leroy Sane og John Stones.

Allar þessar breytur hafa gert það að verkum að Man City er búið að rústa þessu móti og voru svo gott sem búnir að vinna þetta mót í byrjun desember.

Þeirra besti maður hefur að mínu viti verið De Bruyne. Ég nenni ekki að fara út þá umræðu að hann einu sinni verið okkar leikmaður og Chelsea ekki sýnt honum nægilega mikla þolinmæði osfrv. De Bruyne er núna einn besti miðjumaður heims, spilar alla leiki og er potturinn og pannan í einu rosalegasta fótboltaliði sem hefur litðið dagsins ljós í ensku Úrvalsdeildinni. Kappinn er kominn með 7 mörk og 16 (!) stoðsendingar í deildinni og hefur byrjað hvern einasta leik það sem af er móti.

Skv erlendum miðlum mun Man City stilla upp þessu liði:


Það eru nokkur skörð höggvin í þeirra lið. Hinn mikilvægi Fernandinho er meiddur og Fabian Delph er í banni. Raheem Sterling er svo búinn að vera meiddur en gæti náð leiknum. Kyle Walker er tæpur en á að öllum líkindum að byrja leikinn.

Chelsea

Ef ég væri Antonio Conte myndi ég stilla byrjunarliðinu svona upp:


Ég vil sjá Giroud byrja þennan leik. Morata gerði einfaldlega ekki nóg á Old Trafford til að verðskulda annan leik í byjunarliði. Conte gæti líka ákveðið að byrja með "litla tríóið" frammi líkt og raunin var gegn Barcelona. Það myndi kannski ekki koma of mikið á óvart þar sem leikstíll Barca og Man City er svipaður.

Ég myndi líka láta Zappacosta koma inn, hann stendur alltaf fyrir sínu og sterkari varnarlega en Moses. Það er svo spurning hvort captain Cahill komi inn á kostnað Rudiger.

Leikplanið hjá Conte mun væntanlega vera svipað og gegn Barca. Að setja upp pressu á ákveðnum augnablikum og reyna þannig að vinna boltann hátt uppi á vellinum þegar City-liðið er hvað opnast. Ef City tekst að brjóta okkar fyrstu pressu munum við pott þétt leggjast í skotgrafirnar og vera með þétta fimm manna varnarlínu.

Nóttin er alltaf dimmust rétt fyrir dögun, því miður held ég að hlutirnir verði örlítið dekkri áður en það birtir til. Yfirleitt reyni ég nú að vera frekar bjartsýnn hér á þessari síðu en ég held a á erfitt með það fyrir þennan leik, er skíthræddur um að þeir muni rúlla yfir okkur ef þeir ná inn marki snemma, þá gæti liðið okkar brotnað illa.

Conte þarf alla vega að galdra einhverja kanínu upp úr töfrahattinum sínum fyrir þennan leik. Vonum það besta...

KTBFFH


bottom of page