Næsti leikur Chelsea er gegn Brighton á útivelli. Leikurinn er á morgun (laugardag) og hefst kl 12:30.
Síðasti leikur
Chelsea tók á móti Norwich í bikarnum sl. miðvikudag á Stamford Bridge. Það eina jákvæða við þann leik var að okkur tókst að skora eitt knattspyrnumark og að Chelsea vann að lokum þetta einvígi eftir vítaspyrnukeppni. Meira jákvætt er eiginlega ekki hægt að taka úr þessum leik eða leikjum gegn Norwich.
Chelsea er enn að glíma við mikil þyngsli í sókninni og er heinlega eins og liðinu vanti vítamínsprautu. Spilamennska liðsins er greinilega farinn að segja til sín á andlegu hliðinni því bæði Pedro og Morata fengu rauð spjöld í framlengingunni. Morata fyrir dýfu og mótmæli - gerist það eitthvað heimskulegra? Dómgæslan (og video-dómgæslan) í þessum leik var auðvitað fyrir neðan allar hellur en það var líka spilamennska Chelsea. Setjum lok á þennan leik og þökkum fyrir að vera enn með í FA bikarnum. Næsti leikur í bikarkeppninni er gegn Newcastle á heimavelli þann 29. janúar nk. Leikmannagluggi og slúður Í síðustu færslu fjallaði ég um möguleg vistaskipti Andy Carroll til Chelsea. Sem betur fer eyddist sú umræða algerlega er Carroll tók upp á því að meiðast í mánuð - Guði sé lof. Ef menn héldu að Andy Carroll yrði það versta sem væri orðað við Chelsea í þessum glugga þá skjátlaðist okkur rosalega. Fjölmargir miðlar (þar á meðal Telegraph) greindu frá því í gærkvöldi Chelsea hefði spurst fyrir um Peter Crouch (!!!) með mögulegan lánssamning í huga. Ég held hreinlega að einhver innan herbúða Chelsea sé að missa vitið eða þá að fjölmiðlar séu með einn allsherjar brandara á stuðningsmenn Chelsea. Ég ætla ekki að ræða þetta Crouch dæmi frekar, ætla að afneita þessu bulli algerlega þangað til ég sé mynd af honum í Chelsea treyju. Hvernig myndi Eden Hazard bregðast við ef hann væri allt í einu farinn að spila með nánast fertugum Crouch? Hann myndi byrja að skoða hús í Madríd.
Sem betur fer hægðist á þessum orðrómi fljótlega því núna í morgun eru að berast áreiðanlegar fréttir af fyrirspurn Chelsea til Roma um möguleg kaup á Edin Dzeko og hinum meidda vinstri bakverði Emerson. Dzeko væru frábær kaup. Hann reyndist okkur erfiður í þessum leikjum í Meistaradeildinni og skoraði 29 mörk í Seriu A í fyrra. Roma er í fjárhagsvandræðum og eiga því erfitt með að segja nei við góðum tilboðum. Ég vona að þessi kaup verði að veruleika. Ég er skeptískari á Emerson þar sem hann er að stíga upp úr erfiðum meiðslum, en sjáum til.
Brighton Hove Albion Chris Hugton og félagar í Brighton hafa staðið sig ágætlega það sem af er tímabili miðað við allt og allt, allir bjuggust við þeim í fallbaráttu og slíkt er að verða raunin. Þeir sitja í 16. sæti, þremur stigum fyrir ofan fallsæti. Þeir eru samt lið sem er mjög erfitt a vinna og eru með mjög þétta vörn sem hefur fengið á sig 29 mörk í 23 leikjum. Vandamálin liggja fyrst og síðast í sókninni, aðeins 17 mörk skoruð sem mjög slakt.
Það er auðvitað stutt síðan Chelsea spilaði síðast við Brighton, á öðrum degi Jóla, sá leikur endaði 2-0 þar sem Morata og Alonso skoruðu mörkin. Chelsea var með mikla yfirburði í þeim leik, áttum 25 marktilraunir og vorum 67% með boltann. Ég á von á svipuðum leik á morgun, Brigton líður best þegar þeir falla vel til baka og geta búið til pláss fram á við fyrir menn eins og Pascal Groß og Anthony Knockaert sem eru þeirra hættulegustu leikmenn. Glenn Murray er svo fremsti maður hjá þeim, hann er lífseigur djöfull sem gefst aldrei upp. Chelsea Ég held að Chelsea hefði gott að því að breyta aðeins til hjá sér. Það urðu straumhvörf í okkar spilamennsku á síðustu leiktíð er Conte skipti yfir í hið margfræga 3-4-3 kerfi. Ég væri alveg til í að sjá Conte stuða mannskapinn aftur og spila 4-4-2 eða 4-3-3. Barcelona er t.d. að spila 4-4-2 um þessar mundir og eru nánast ósigrandi. Lið eins og City og FC Bayern hafa verið að spila 4-3-3 (ástamt mörgum öðrum liðum) og hefur það virkað vel. Hér er ég ekki að tala um að liðið eigi að skipta alfarið um kerfi, alls ekki. Heldur meira búa til taktískan sveigjanleika (e. tactical flexibility) innan liðsins og búa til nýjar leiðir að markinu sóknarlega. Hér eru nokkrar hugmyndir, gefið að allur hópurinn sé heill og að við séum ekki að fara kaupa Crouch:
Eða svona:
Þó að þriggja miðvarða vörnin hafi reynst okkur afar vel finnst mér sú nálgun stundum vera of varfærnisleg, sérstaklega gegn liðum sem vilja helst liggja aftarlega og vera lítið með boltann. Mótherjar okkar eru búnir að korleggja nokkuð vel sendingamynstrin okkar og því eru okkar bestu menn að fá rosalega lítin tíma á boltanum og liðið sjaldan að ná upp 1 vs. 1 leikstöðum á hættulegum svæðum - þetta þarf að breytast. Ég er alls ekki bjartsýnn á að Conte fari úr norminu. Hann er mjög fastheldinn og það þarf eflaust meira að ganga á svo hann taki svona mikla U-beygju í taktíkinni.
Það er mikið um meiðsli og bönn í hópnum, þannig eru Fabregas og Cahill báðir frá vegna meiðsla og Pedro og Morata í leikbanni. Ég myndi telja líklegt að 3-4-3 yrðu raunin með Batshuahyi, Willian og Hazard fremsta:
Það er orðrómur um að Ross Barkely verði á bekknum en það var settur upp æfingaleikur fyrir luktum dyrum gegn QPR í gærdag. Þar skoraði okkar maður tvö mörk og lék vel. Það er reyndar fátt annað vitað um þann leik. Vonandi byrja okkar menn loksins að spila alvöru fótbolta á árinu 2018 með því að sigra Brighton sannfærandi og um leið létta okkur öllum lundina í skammdeginu.
KTBFFH