top of page
Search

Bikarleikur og janúar slúður


Næsti leikur Chelsea er gegn Norwich í kvöld (miðvikudag), þetta er annar leikur liðanna eftir 0-0 jafnteflið í fyrri leiknum. Leikurinn er leikinn á Stamford Bridge og hefst kl: 19:45. Síðasti leikur:

Þriðja 0-0 jafnteflið í röð leit dagsins ljós gegn Leicester City um liðna helgi. Þetta er "met" hjá klúbbnum, hefur aldrei gerst áður, a.m.k. ekki frá því að enska Úrvalsdeildin var sett á laggirnar. Í upphitun fyrir leikinn gegn Leicester hafði ég varað við því að Leicester spilar hörku fótbolta. Eitthvað hefur gleymst að ræða það innan leikmannahóps Chelsea því gestirnir voru einfaldlega miklu betri, eða allt þar til Ben Chillwell var rekinn af velli með tvö gul spjöld. Fyrst þá náðu okkar menn einhverjum tökum á leiknum og byrjuðu að ógna.

Conte var augljóslega ekki sáttur og skipti út bæði Fabregas og Hazard fyrir Pedro og Willian. Gott og vel, báðir þessir leikmenn voru að eiga afleiddan leik. En hvers vegna ekki að taka aðra menn út af eins og Bakayoko (sem einnig var mjög slakur) eða hreinlega fækka um einn miðvörð? Ég hefði alla vega viljað hafa Hazard inni á vellinum síðasta hálftímann á kostnað Bakayoko eða Rudiger.

Okkar menn virðast bara vera of fyrirsjáanlegir sóknarlega um þessar mundir, það vantar einhvern kraft og einhverja leikgleði. Það hjálpar okkur ekki að Alvaro Morata virðist hafa týnt öllu sjálfstrausti eftir leikinn gegn Arsenal á Emirates þar sem hann klúðraði hverju færinu á fætur öðru. Morata vantar alvöru samkeppni.

Janúarglugginn - það helsta í slúðrinu Talandi um samkeppni handa Morata, þá virðist klúbburinn vera alvara með því að kaupa Andy Fokking Carroll(!). Allir helstur miðlar Englands keppast nú að flytja fréttir af viðræðum milli West Ham og Chelsea svo eitthvað er til í þessu.

Ég veit hreinlega ekki hvar ég á að byrja...

Í fyrsta lagi er þetta meiðslapési sem aðeins einu sinni hefur náð að spila meira en 30 leiki í ensku Úrvalsdeildinni yfir heilt tímabil. Í annan stað hefur hann spilað 195 leiki í efstu deild og skorað í þeim 52 mörk eða 0,26 mark á hvern spilaðan leik, sem er glötuð tölfræði fyrir fremsta mann. Í þriðja lagi er hann 29 ára gamall, að kaupa hann á 20 milljónir punda (sem slúðrið segir að sé verðmiðinn) og gefa honum þriggja og hálfs árs samning er ekkert annað en glapræði. Vill klúbburinn í alvöru hafa 32 ára gamlan Andy Carroll á sínum snærum? Höfum það í huga að hann myndi alrei aftur fá annan eins samning og hann fær hjá Chelsea, hann myndi því alltaf sitja út samningstímann. Í fjórða lagi að þá eiga þessi framherjakaup að reyna ýta við Morata og búa til samkeppni. Það sem Morata mun hlæja upphátt þegar hann sér Carroll ströggla við að halda boltanum á lofti á fyrstu æfingunni sinni hjá Chelsea.

Nei, ég vona að þetta sé bara eitt allsherjar djók!

Það sem gerir þetta svo enn meira pirrandi er að horfa á liðin í kringum okkur vera orðuð við risanöfn. Man Utd ætlar sér að kaupa Alexis Sanchez frá Arsenal. Á móti er Wenger að reyna fá Aubameyang og Henrikh Mkhitaryan, einn gæða leikmaður út og tveir inn. Þetta er leikmannakapall sem virðist ætla að ganga upp og mun styrkja bæði lið til muna. Baráttan um meistaradeildarsætin mun bara aukast.

Eitthvað hefur verið ritað um meintan áhuga Chelsea á Alexis Sanchez. Þær fréttir fengu eitthvað flug þegar Man City dró sig úr kapphlaupinu um Chilemanninn. Persónulega held ég að það sé ekki mikið til í þessum fregnum, ástæðan er launakostnaður. Er Chelsea að fara borga Sanchez 350 þúsund pund í vikulaun? Launahæsti leikmaður liðsins núna er Hazard með 200 þúsund pund. Þetta myndi því sprengja alla skala hjá okkur og Abramovich hefur ekki mikið verið að heimila slíkar aðgerðir. Það er alger synd því titlahungraður Alexis Sanchez myndi svo sannarlega hjálpa Chelsea á þessari stundu.

Í morgun var Chelsea svo orðað við vinstri bakvörð Roma, Emerson. Okkur vantar breidd í þessa stöðu svo þessi kaup eru skynsamleg. Hins vegar þýðir þetta að Chelsea er alveg hætt við að kaupa Alex Sandro sem er alger synd, því þar væri leikmaður sem myndir veita alvöru samkeppni og bæta liðið. Emerson er aðeins búinn að spila einn leik fyrir Roma í vetur vegna meiðsla sem hann hlaut undir lok síðasta tímabils - þannig þetta eru áhættukaup.

Leikurinn gegn Norwich:

Ég ætla að reyna hafa sem fæst orð um þennan blessaða leik. Mitt mat er að þeir leikmenn sem byrjuðu fyrri leik þessara liða eigi allir að byrja í kvöld og klára það verk. Cahill er að vísu meiddur, svo það er tilvalið að gefa Ethan Ampadu tækifærið í vörninni. Ef þessir leikmenn geta ekki klárað Norwich á heimavelli þá eigum við einfaldlega ekki skilið að fara áfram.

KTBFFH


bottom of page