top of page
Search

Norwich í bikarnum


Chelsea mætir Norwich í 3. umferð ensku bikarkeppninnar á morgun kl. 17.30 á Carrow Road. Lið Norwich er sem stendur í 13. sæti Championship deildarinnar með 34 stig efir 26 leiki og hefur gegnið því verið upp og ofan. Liðið hefur þó ekki tapað í síðustu 3 leikjum unnið 2 og gert eitt jafntefli.

Norwich lék síðast í úrvalsdeildinn tímabilið 2015/2016 en féll um vorið og endaði síðan í 8. sæti í Chamiponship deildinni í fyrra eftir að hafa rekið stjórann Alex Neil í mars. Nýr stjóri þjóðverjinn Daniel Farke var síðan ráðinn um sumarið.

Sá er 41 árs og kom frá Dortmund þar sem hann hafði þjálfað varaliðið í 2 ár. Miklar breytingar hafa orðið á leikmannahópi Norwich frá því að þeir léku síðast úrvalsdeildinni og man ég í svipinn bara eftir nokkrum kunnuglegum nöfnum hjá þeim en það eru td miðjumaðurinn Wes Hoolahan, Matt Jarvis og framherjinn Cameron Jerome.

Síðasti leikur

Hvar á maður að bryja? Chelsea tók þátt í einum skemmtilegasta leik tímabilsins á miðvikudag (a.m.k. fyrir þá hlutlausu). Maður var auðvitað sár og svekktur eftir leikinn með niðurstöðuna og þá einkum vegna þeirra dauðafæra sem við (Morata) misnotaði í leiknum. Var það í raun framhald á leiknum gegn Stoke þrátt fyrir stóran sigur þar. Morata virðist hafa týnt markaskónum sínum undanfarnar vikur, hann er þó að koma sér í heilan helling af færum sem veit á gott. Umræðan um Morata hefur mér fundist of neikvæð þar sem sumir eru að kalla hann Torres og Shevchenko flopp. Ég er ekki sammála slíku og tel að Morata eigi framtíðina fyrir sér. Höfum líka í huga að Morata er í fyrsta skipti að spila sem aðalframherji og bera ábyrgðina sem því fylgir.Hjá bæði Juve og Real Madrid var hann í aukahlutverki þó hann hafi spilað töluvert á báðum stöðum. Þetta þýðir aukið leikjaálag í deild sem hann er enn að venjast – sýnum Morata þolinmæði, mörkin fara að koma aftur.

Það sem gerði mann svo mest pirraðan að öllu var hvernig Chelsea brást við eftir markið hans Alonso á 84. mínútu. Fram að þeim tíma hafði leikurinn verið mjög jafn og Chelsea að sækja alveg eins og Arsenal. Eftir markið féllu okkar menn alltof aftarlega, hættu að tengja saman sendingar og fóru í eitt allsherjar panikk. Þetta panikk okkar skilaði Arsenal fyrst og fremst þessu stigi.

Chelsea gegn Norwich

Til að byrja með er rétt að gleðjast yfir því að Chelsea gekk frá sínum fyrstu kaupum í janúarglugganum. Ross Barkley er orðinn liðsmaður Chelsea og það aðeins fyrir 15 milljónir punda sem er hlægilegt verð á þessum síðustu og verstu tímum. Chelsea hafði þar betur gegn Tottenham sem höfðu líka áhuga á Barkley en vildu helst bíða fram á sumarið og fá hann þá frítt þar sem hann var að renna út á samning. Chelsea ákvað hins vegar að freista forráðamenn Everton með þessu kauptilboði í Barkley sem var að lokum samþykkt.

Sitt sýnist hverjum um þessi kaup. Barkley hefur ekki spilað leik í einhverja sjö mánuði (!) og hefur spilamennska hans undanfarin tvö tímabil þótt undir getu. Barkley var samt talinn einn af allra efnilegustu leikmönnum Englands á sínum tíma og enginn efast um hæfileikana. Spurningin er hins vegar hvort hann nái að grípa tækifærin þegar þau koma hjá Antonio Conte.

Að leiknum gegn Norwich. Ég reikna með að Conte geri talsverðar breytingar á liðinu í þessum leik og myndi reikna með því einhvern veginn svona.


Hafa verður í huga að við eigum fyrri leikinn við Arsenal í undanúrslitum deildarbikarsins á miðvikudag og líklegt að Conte vilji stilla upp mjög sterku liði þar. Luiz er klár og Hazard er lítillega meiddur þannig að hann hvílir örugglega þá leikmenn sem hann getur. Mögulega verður Ampadu í byrjunarliðinu og þá inni á miðjunni með Drinkwater.

Þar sem Man City er nánast búið að tryggja sig titilinn í ensku Úrvalsdeildinni er tilvalið að leggja mikla áherslu á FA bikarinn. Þetta er auðvitað einn fornfrægasti bikar heims sem við Chelsea menn höfum verið duglegir að vinna í gegnum tíðina.

Það á að vera skylduverkefni að vinna þennan leik en gleymum ekki að kraftaverkin gerast iðulega í þessari keppni, því er eins gott að menn mæti með hausinn rétt skrúfaðan á í þennan leik.

Spái 2-0 sigri hjá okkar mönnum – vonandi nær Batshuayi að smella inn einu.

KTBFFH


bottom of page