top of page
Search

Besta byrjunarlið Chelsea í tíð Roman Abramovich


Kaup Roman Abramovich á Chelsea Football Club sumarið 2003 mörkuðu svo sannarlega tímamót í sögu félagsins. Ken Bates hafði reyndar gert ágætis hluti fram að því – liðið var búið landa nokkrum titlum og skipa sér í sess meðal topp 6 liðanna á Englandi, en vonir um stóru titlana voru þó ennþá býsna fjarlægar. Peningar breyta hins vegar mörgu og hjá CFC var það engin undantekning. Roman var ekki lengi að galopna veskið þegar hann mætti á Brúnna og nánast um leið byrjaði hver gæðaleikmaðurinn á fætur öðrum að reka á fjörur klúbbsins. Síðan þá hefur hinn ofurríki Rússi verið ansi duglegur að spreða, þó með misjöfnum árangri.

Liðin sem CFC hefur stillt upp í tíð Roman eru mörg hver óhugnanlega sterk, en fyrir mér er þó liðið frá tímabilinu 2004-2005 það allra besta í sögu Chelsea – þvílík andskotans maskína sem það lið var. Að gamni hafði ég hafði hugsað mér að bera saman byrjunarlið CFC á hverju tímabili frá 2003-2017, en á endanum ákvað ég að gera þetta aðeins „auðveldara“ og velja eitt byrjunarlið + varamenn frá öllum árunum sem Roman hefur verið við stjórnvölinn. Þetta val var svo sannarlega ekki auðvelt, enda er „úrvalið“ á við argentískt steikarhlaðborð. Það skal tekið skýrt fram að þetta er að sjálfsögðu bara til gamans gert og byggist ekki á neinum vísindalegum forsendum heldur er hér einungis um að ræða persónulegt mat undirritaðs. En hefst þá liðsvalið.

Markmaður: Frekar auðvelt val þó svo að Courtois gæti vissulega skákað Cech þegar fram í sækir.

Varnarmenn: Hér er Terry augljósa sjálfvalinn og það sama má segja um A. Cole. Auk þeirra tveggja valdi ég skrímslið hann Carvalho í miðja vörnina með JT og serbnesku vélina í hægri bakk. Varnarlína Chelsea hefur oftar en ekki verið gríðarlega vel skipuð í gegnum tíðina og þ.a.l. er úrvalið býsna gott, enda bíða engir aukvissar á hliðarlínunni; Azpilicueta, Gallas, Ferreira og Desilly. Frægðarsól Desailly skein vissulega ekki mjög skært hans hans lokatímabili hjá félaginu (2003-2004), en hann fær samt að fljóta með, Cahill til mikillar mæðu.

Miðjumenn: Hér er úrvalið engu síðra en í vörninni og einstaklega erfitt að velja á milli manna. Líkt og JT með í vörninni þá er Lampard sjálfvalinn hér – rök eru óþörf. Ég valdi Makalele fram yfir Kante, þó svo að það megi varla á milli sjá hver var/er mikilvægari – báðir algjörir lykilmenn. Þá valdi ég Essien fram yfir Ballack, en helst hefði ég viljað hafa þá báða með enda tveir af mínum uppáhaldsleikmönnum á sínum tíma. Þrátt fyrir óeðlilega mikla aðdáun mína á hinum vanmetna Jon Obi Mikel, a.k.a. „Tracy Chapman“, þá hafði ég það ekki í mér að setja hann í þetta lið. Því skal þó haldið til haga að hann var hjá liðinu í 11 ár og spilaði samt 372 leiki – hans framlag skal því ekki vanmeta. Já, ég dýrka Obi Mikel og á treyju með hans nafni aftan á því til stuðnings! :)

Sóknarmenn: Eins og sjá má á myndinni þá styðst ég við 4-3-3 kerfi – með einn uppi á topp og tvo úti á sitthvorum kantinum. Ég ætla ekki að dirfast að setja einhvern annan en Drogba fremstan en ég viðurkenni að það var freistandi að setja Costa þarna inn, en í stað tilfinninga þá lét ég tölurnar og heildarvægið ráða för. Hazard er augljós kostur á vinstri vænginn en hinn vængurinn var ekki eins auðveldur. Ég endaði á Robben þó svo að saga hans hjá klúbbnum hafi hvorki verið löng né stórkostleg, enda einkenndist hún af miklum meiðslum. Það deilir hins vegar enginn um gæðin sem hann bauð upp á. Það banka nokkrir býsna fast á dyrnar í framlínunni, t.a.m. Mata, Willian, J. Cole, Malouda, Duff og síðast en ekki síst okkar maður Guðjohnsen.


Ég velkist ekki í vafa um að fáir klúbbar í heiminum geta státað af jafn sterku liði undir sömu forsendum og hér eru lagðar til grundvallar.

Annars hvet ég sem flesta til að segja álit sitt á þessu liðsvali – allar skoðanir eru meira en velkomnar.

Í næsta pistli mun ég svo kortleggja „verstu kaup CFC í tíð Roman“ – þar er því miður af nægu að taka!

Chelseakveðja,

Árni Steinar

Árni Steinar Stefánsson


bottom of page