top of page
Search

Upphitun: Swansea kemur á Stamford Bridge


Það er skammt stórra högga á milli um þessar mundir. Eftir jafnteflið gegn Liverpool á laugardagskvöld spilar Chelsea aftur á morgun (miðvikudag) gegn Swansea. Leikurinn gegn Liverpool var að mörgu leiti jákvæður þó margir hafi viljað sjá Chelsea gera harðari atlögu að veikburða vörn Liverpool. Sú ákvörðun Conte að hafa Fabregas á bekknum var líka umdeild og segja má að sá spænski hafi breytt leiknum er hann kom inn á þegar um 15 mín voru til leiksloka . Þriggja manna miðja með Kanté, Drinkwater og Bakayoko er ekki sú sókndjarfasta - Liðið þarf á Cesc að halda ef það á að spila 3-5-2.

Leikurinn gegn Swansea

Ég ætla að spá byrjunarliði Chelsea svona:


Það er erfitt að segja til um hvað Conte mun gera og hversu miklu hann mun rótera í liðinu. Núna er mikið leikjaálag og því skynsamlegt að gera eins margar breytingar og hann treystir sér til. Willian, Rudiger, Fabregas, Pedro og jafnvel David Luiz koma mögulega allir inn í liðið. Maður veit samt aldrei. Conte hefur verið íhaldssamur í fortíðinni.

Það er einn leikmaður sem verulega þarf á hvíld að halda og það er Marco Alonso. Hann hefur spilað nánast alla leiki í deild og Meistaradeild frá upphafi til enda. Ég myndi vilja sjá Pedro taka stöðu LWB, það hefur verið prófað nokkrum sinnum áður og gegnið ágætlega - sérstaklega gegn lakari andstæðingum. Svo væri líka hægt að spila Azpilicueta í stöðu LWB og nota þá Cahill eða Christensen í vörninni. Mig grunar að það verði raunin. Að lokum væri gaman að sjá Moses koma aftur inn í liðið - hann á víst að vera klár.

Ég held að 3-4-3 væru málið í þessum leik þar sem liðið mun væntanlega sjá mikið af boltanum og því minni þörf á aukamanni inn á miðsvæðinu.

Swansea

Þetta er búið að vera strembið tímabil fyrir okkar gamla vin Paul Clement og lærisveina hans í Swansea. Þeir sitja í 19. sæti með aðeins 9 stig eftir 13 leiki. Sóknarleikur liðsins hefur verið þeirra aðal höfuðverkur enda hefur liðið bara skorað 7 mörk í Ensku Úrvalsdeildinni - minnst allra liða. Það sem hefur bjargað þeim er vörnin, hún er sú níunda besta í deildinni.

Það var alltaf vitað þetta tímabil yrði erfitt fyrir "Svanina", þeir misstu sína bestu menn sl. sumar, þá Gylfa Sig og Llorrente - þeir voru potturinn og pannan í sóknarleik liðsins. Í staðinn komu þeir Tammy Abraham (á láni frá Chelsea) og Wilfred Bony. Bony hefur lítð getað og hefur til að mynda ekki skorað eitt einasta mark í þeim sex leikjum sem hann hefur tekið þátt í. Abraham hefur verið þeirra besti maður fram á við, enda hefur hann skorað fjögur af þessum sjö mörkum og lagt upp eitt. Eins og reglur Ensku Úrvalsdeildarinnar kveða á um mun Abraham ekki spila gegn Chelsea þar sem hann er í okkar eigu. Swansea tókst ekki finna neinn alvöru arftaka Gylfa Þórs og því vantar þeim nayðsynlega þessa sköpunargetu og yfirvegun á boltann sem Gylfi hefur.

Swansea var búið að tapa fimm leikjum í röð þangað til þeir gerðu markalaust jafntefli við Bournemouth um síðustu helgi, svo þeim tókst a.m.k. að stöðva taphrinuna. Það er samt deginum ljósara að þetta er lið sem er með sjálfstraustið í lágmarki og mun ekki líða neitt sérstaklega vel með að koma á Stamford Bridge.

Chelsea verður að taka þennan leik föstum tökum frá fyrstu mínútu. Ef okkur tekst það, skorum snemma og setjum mikla pressu á Swansea mun þetta verða öruggur sigur. Swansea mun mæta í þennan leik til þess að verja jafnteflið og gleymum ekki að þeir geta varist mjög vel, sérstaklega þegar þeir bakka niður í tvær þéttar línur sem liggja aftarlega og minnka þannig völlinn og það pláss sem okkar menn hafa til að athafna sig framarlega á vellinum. Títtnefndur Fabregas er að mínu viti lykillinn að sigri í þessum leik, sendingarnar hans og yfirsýn munu verða lykillinn að því að koma Hazard og Morata í almennilegar leikstöður á vellinum. Í svona leik verða okkar menn að sýna þolinmæði því færin munu koma. Spái 2-0 sigri!

KTBFFH


bottom of page