Undanfarið landsleikjahlé fer ekki í sögubækunar sem það mest spennandi, Ísland var ekki að spila neina alvöru leiki, því er kærkomið að fá enska boltann aftur.
Chelsea tókst að fara inn í síðasta landsleikjahlé á besta mögulega hátt, með frábærum sigri á okkar erkifjendum í Man Utd. Sá leikur var frábærlega leikinn af Chelsea og greinilegt að Antonio Conte á að notast við 3-5-2 leikkerfið í þessum „stóru“ leikjum. Innkoma N‘Golo Kante í liðið gaf öllum hópnum stóra vítamínsprautu og var þetta besti leikur Chelsea um langa hríð.
Það er samt alltaf eitthvað fréttnæmt af Chelsea og í aðdraganda leiksins gegn Man Utd bárust þær fregnir að David Luiz hefði verið settur út úr hópnum, Conte gaf þá skýringu að hér væri um taktíska ákvörðun að ræða en ekki nokkur maður trúir því. Háværir orðrómar hafa síðan verið á kreiki um að Luiz hafi mótmælt Conte á liðsfundi og gagnrýnt upplegg liðsins í útileiknum gegn Roma í Meistaradeildinni – slíkt mun Antonio Conte aldrei líða enda mikill harðstjóri. Ég vona innilega að Conte og Luiz hafi nýtt þetta landsleikjahlé til þess að ná sáttum því sama hvað hver segir að þá er Luiz einn af leiðtogum liðsins og gegnir mikilvægu hlutverki innan vallar sem utan.
Það er auðvitað týpískt fyrir Luiz að í þessum frábæra leik gegn Man Utd spiluðu fáir betur en Andreas Christensen. Ég er orðinn mikill áðdáandi þess danska og sérstaklega leikstílnum hans. Það rennur ekki í honum blóðið og sama hvað hann fer undir mikla pressu, alltaf heldur hann yfirvegun. Hann er í raun eins ólíkur Luiz og hugsast getur, bæði í leikstíl og fasi. Ég endurtek samt það sem ég sagði hér að ofan – Luiz er ennþá lykilmaður fyrir Chelsea og fyrir mér er það ekki fyrirstaða að þeir spili þessa sömu stöðu – ég held að þeir geti spilað saman í byrjunarliðinu, td. á kostnað Cahill og eða Rudiger.
Annað sem kom manni í opna skjöldu er að hinn umdeildi Michael Emenalo hætti störfum hjá félaginu eftir 10 ára starf. Fyrir mér kemur þetta eins og þruma úr heiðskíru lofti því Emenalo var einn af þeim sem Roman Abramovich treysti hvað mest. Margir stuðningsmenn virðast fagna þessari ákvörðun en ég er ekki svo viss. Þeir sem virkilega þekkja til hjá félaginu (t.d. Matt Law hjá Telegraph) telur að þetta muni hafa skaðleg áhrif á klúbbinn til lengri tíma. Ég hvet lesendur til að lesa frábærar greinar um störf Emenalo hjá Chelsea bæði á Telegraph síðunni og WAGN síðunni.
Ferill þessa Emenalo er virkilega áhugaverður þar sem hann fer úr því að þjálfa unglingsstelpur í Arizona í Bandaríkjunum yfir í að vera njósnari hjá Chelsea. Hann var svo yfirnjósnari, aðstoðarþjálfari hjá Ancelotti í nokkra mánuði áður en Abramovich gerði hann að yfirmanni knattspyrnumála. Sem yfirmaður knattspyrnumála innleiddi hann hið umdeilda leikmanna-lánakerfi Chelsea. Margir gagnrýna það kerfi harkalega (og ekki að ástæðulausu) en ég vil þó benda á að í dag er Chelsea með Corutois, Christensen og Moses í leikmannahópi sínum en allir þessir leikmenn fóru í gegnum kerfi Emenalo. Það er svo mín trú að bæði Tammy Abraham og Ruben Loftus-Cheek munu verða partur af hópi Chelsea á næsta leiktímabili.
Það hefur verið vinsælt að skjóta hressilega á Emenalo þegar illa gengur í leikmannakaupum og öðru slíku. Hann ber samt ekki einn ábyrgð á því, í raun er það Granovskaia sem ber þar mesta ábyrgð. Emenalo var hins vegar lykilmaður í því að fá leikmenn eins og De Bruyne, Courtois og Lukaku til Chelsea og var mjög ósáttur við þá ákvörðun Jose Mourinho að selja Lukaku og KDB á sínum tíma. Á hinn bóginn var Emenalo maðurinn á bakvið hin furðulegu kaup á Papy Dilobodji og Micael Hector. Vonum bara að Chelsea fái einhvern mjög hæfan í starf yfirmanns knattspyrnumála.
WBA á Laugardag
Chelsea mætir West Bromvich Albion á morgun (laugardag) kl 15:00. Eins og allir vita eru WBA undir stjórn hins alræmda Tony Pulis. Pulis, sem stjóri, er deyjandi tegund. Hann vill helst hafa eins marga miðverði í liðinu og hann mögulega getur og allir leikmenn skulu helst vera yfir 190cm og góðir skallamenn. Hann leggur sín lið upp með þeim hætti að vörn sé besta sóknin og að 0-0 jafntefli séu góð úrslit. Liðin sem hann stjórnar nánst fyrirlíta það að vera of mikið með boltann og vill hann að liðið sitt liggi aftarlega með tvær þéttar línur fyrir framan markið. Sóknartilburðir liðsins einskorðast svo við langar sendingar fram völlinn þar sem framherjar hans reyna að fiska aukaspyrnu á miðjum vellinum, úr þeirri spyrnu er boltanum svo dælt inn í teiginn – við þekkum þetta öll. Ótrúlegt en satt að þá hefur þetta virkað feykilega vel fyrir Pulis og má segja að hann sé snillingur í að „stabelísera“ slök lið sem miðlungslið. Þessu til stuðnings má benda á að Pulis er örsjaldan í fallbaráttu og siglir yfirleitt lygnan í 10.-14. sæti deildarinnar.
Tony Pulis er hins vegar í vandræðum um þessar mundir. Honum hefur mistekist að byggja upp þennan þétta varnarmúr sem hefur einkennt WBA undanfarin ár, afleiðingin af slíkri spilamennsku eru 10 stig úr 14. leikjum sem skilar þeim í 16. sæti deildarinnar.
Til að gefa lesendum snarpa innsýn inn í leik WBA þá eru hér nokkrar tölfræðilegar staðreyndir um leik liðsins það sem af er tímabili:
Minnsta „posession“ af öllum liðum í Ensku úrvalsdeildinni.
Aðeins þrjú lið hafa átt færri skot á mark anstæðinganna.
Aðeins einn leikmaður hefur skorað meira en 1. mark
Hafa ekki unnið leik síðan í ágúst
Hafa ekki haldið hreinu síðan í september.
Hafa tapar þremur leikjum í röð.
Lið Chelsea
Eftir síðasta landsleikjahlé mætti Chelsea liði Crystal Palace sem þá hafði ekki skorað mark í deildinni, hvað þá fengið stig. Okkar mönnum tókst að tapa þeim leik og það nokkuð sannfærandi. Það eru því vítin að varast þegar við mætum WBA á morgun.
Ég ætla að spá byrjunarliðinu svona:
Við vonum að Eden Hazard verði búinn að jafna sig á smávægilegum meiðslum sem hann varð fyrir í vikunni. Ég held að 3-4-3 sé málið í þessum leik þar sem WBA muni liggja það aftarlega og leyfa Chelsea að dóminera boltann. Pedro kemur því inn í liðið á kostnað Bakayoko eða Fabregas. Ég vona að Fabregas spili leikinn því hann er snillingur í að opna þéttar varnir. Stóra spurningin er hvort Christensen verði áfram valin á kostnað David Luiz. Ég persónulega vona það þvíChristensen á það skilið. Hins vegar er vert að að benda á að Daninn er að koma úr landsleikjaferð þar sem hann tók þátt í seinni leik Danmörku gegn Írlandi (og skoraði). Luiz er aftur á móti búinn að vera í fríi og ætti því að vera ferskari – svo framarlega sem hann sé komin úr skammarkróknum hans Conte.
Þolinmæði þrautir allar vinnur og það er það sem Chelsea þarf í þessum leik. Það versta sem getur gerst er að hleypa WBA í fast leikatriði þar sem þeir komast 1-0 yfir. Það er martröðin. Chelsea er engu að síður með það mikil gæði að okkar menn eiga að geta skorað 2-3 mörk á þetta WBA lið – sérstaklega miðað við spilamennsku þeirra undanfarnar vikur.
Ég er temmilega bjartsýnn og leyfi mér að spá okkar mönnum sigri 1-0.
KTBFFH